16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

272. mál, endurskoðun á reglugerð um ökukennslu

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvað liður störfum starfshóps um endurskoðun á reglugerð um ökukennslu og próf ökumanna sem skipaður var haustið 1979?“

Svar: Í nóv. 1979 var komið á starfshópi til að vinna að endurskoðun reglugerðar um ökukennslu, próf ökumanna o.fl. Áttu sæti í starfshópnum skrifstofustjóri í dómsmrn., forstöðumaður Bifreiðaeftirlitsins og fulltrúi tilnefndur af Ökukennarafélagi Íslands. Starfshópur þessi kom saman nokkrum sinnum í upphafi árs 1980, fór yfir gildandi reglugerð um þetta efni og tillögur um breytingar er fyrir lágu frá Bifreiðaeftirliti og Ökukennarafélagi. Störf starfshópsins lögðust síðan niður, en á þessu ári hefur starfshópurinn yfirfarið drög að breytingum á reglugerðinni, sem m.a. fela í sér breytingar á hinu almenna ökuprófi. Er við það miðað að þessar breytingar geti tekið gildi snemma á næsta ári, en um það leyti er væntanleg ný kennslubók, sem ættuð er þeim sem ganga undir ökupróf. Stendur Ökukennarafélagið að útgáfu þessari, en slík kennslubók hefur verið ófáanleg í nokkur ár.

Rétt er að taka fram, að uppi hafa verið tillögur um ýmis atriði í sambandi við ökukennslu og próf sem varða umferðarlögin eða krefjast endurskoðunar þeirra. Þau atriði munu verða tekin til meðferðar af umferðarlaganefnd, sem vinnur undir forustu lögreglustjórans í Reykjavík að heildarendurskoðun umferðarlaga og reglugerðar samkv. þeim. Er þess vænst að tillögur nefndarinnar liggi fyrir á næsta ári.