16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

68. mál, endurskoðun siglingalaga

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er eðlilegt að hv. fyrirspyrjandi spyrji um þetta frv. Mér er það kappsmál eins og honum að málið komi sem fyrst fyrir hv. Alþingi. Staðreyndin er að sú nefnd sem ég skipaði starfaði vel og lauk störfum s.l. haust. Að vísu hafa síðan komið fram nokkrar aths. sem ollu því að rn. taldi rétt að skoða málið betur. Ég lagði það þó fram í ríkisstj. fyrir 3–4 vikum og það er til meðferðar hjá þingflokkunum. Ég veit ekki til þess að nein andstaða sé við frv. og segja má að því valdi eingöngu annir að það er ekki enn komið fram. En það kemur fram, ef ekki fyrir jólaleyfi, þá þegar í upphafi þings eftir jólaleyfi. Ég leyfi mér að fullyrða það.