16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

50. mál, aldurshámark starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson hefur borið hér fram fsp. um aldurshámark starfsmanna ríkisins. Í þessu sambandi er rétt að minna á að við gerð kjarasamninga milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs 20. ágúst 1980 var gert sérstakt samkomulag um málefni opinberra starfsmanna innan vébanda BSRB. Í 6. tölul. samkomulagsins er rætt um málefni eftirlaunafólks og öryrkja og sagði þar, með leyfi forseta:

„Sett verði nefnd til að gera tillögu um skipan málefna eftirlaunafólks og öryrkja, sem feli í sér rýmri heimildir til handa starfsmönnum að halda störfum sínum að hluta eftir að hámarksaldri er náð. Í því sambandi verði m.a. höfð hliðsjón af tillögu nefndar sem fjallað hefur um endurskoðun á reglum um aldurshámark starfsmanna Reykjavíkurborgar.“

Tilsvarandi ákvæði er að finna í 6. tölul. samkomulags milli Bandalags háskólamanna og ríkisstj. um málefni ríkisstarfsmanna innan vébanda BHM frá 8. sept. 1980.

Til umræddrar nefndar var stofnað vorið 1981. Hana skipa þrír fulltrúar launþega og tveir fulltrúar ríkisvaldsins.

Nefndin hefur reynt að áætla þann fjölda ríkisstarfsmanna sem láta muni af störfum á n.k. árum. Þannig láta 53 starfsmenn af störfum fyrir aldurs sakir á því ári sem nú er að líða, 68 starfsmenn á næsta ári, 90 starfsmenn á árinu 1984 og 97 starfsmenn árið 1985,120 1986 og 147 árið 1987.

Nefndin hefur haft hliðsjón af störfum annarrar nefndar, sem á sínum tíma endurskoðaði reglur um aldurshámark starfsmanna Reykjavíkurborgar. Einnig hefur nefndin skoðað hvaða reglur gilda um hliðstætt efni í nágrannalöndum okkar, einkum í Noregi.

Nefndin hefur ekki gert ráð fyrir að nein breyting verði á núgildandi reglu starfsmannalaganna nr. 38/1954 um lausn fyrir aldurs sakir, sbr. 13. gr. Aðalatriðið er að starfsmaður hafi nokkurt val um með hvaða hætti verklok verða, að hann geti um tiltekinn tíma haldið áfram sínu fyrra starfi eða sótt um annað starf hjá ríkinu, hálft eða fullt eftir því sem heilsa hans leyfir hverju sinni. Með því móti er ætlandi að dregið væri úr þeirri hættu sem skyndileg verklok geta haft.

Í þessu sambandi er þó rétt að geta þess, að mat endurráðningar hlýtur ævinlega að verða afstætt, háð starfsgreinum o.fl. Verði settar sérstakar reglur um endurráðningu opinberra starfsmanna, sem veitt hefur verið lausn fyrir aldurs sakir, hlýtur að verða að skoða sérstaklega annars vegar lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 29/1963, þannig að tryggt sé að viðkomandi geti notið fullra launa og fyllsta lífeyris og jafnframt haldið áfram að ávinna sér lífeyrisrétt meðan endurráðning varir. Að vísu segir í niðurlagi 11. gr. laga um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, að á meðan starfsmaður gegnir áfram starfi eftir að hann hefur verið frá því leystur eða hann fær af öðrum ástæðum greidd óskert laun, sem starfinu fylgja, á hann ekki jafnframt rétt til lífeyris. Eðlilegast væri að lífeyrisgreiðslan væri að tiltölu við starfshlutfallið þannig að ef maður er í hluta af starfi geti hann fengið einhvern lífeyri. Annars er hætt við að hann gæti ekki séð sér og sínum farborða. Hins vegar ber að skoða rétt til launa í forföllum vegna veikinda, einkum ef um langvarandi veikindi er að tefla. Það er eðlilegt að lífeyrisrétturinn vakni að fullu hafi hann verið skertur fyrir.

Af því sem hér hefur verið sagt er ljóst að í mörg horn er að líta þegar gera á tillögu um málefni eftirlaunafólks með þeim hætti sem hér er um rætt. Viðhorf til þessara mála eru og síbreytileg.

Störf nefndarinnar féllu að hluta til niður á s.l. sumri vegna sumarfría og tafði það störf hennar nokkuð. Eigi að síður hefur nú verið gert ráð fyrir að nefndin gæti lokið störfum innan tíðar og þá væntanlega fljótlega á næsta ári.