25.10.1982
Sameinað þing: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Helgi Seljan:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á sumardögum stóðum við ljóslega andspænis meiri erfiðleikum fyrir þjóðarbúið en um árabil höfðu yfir gengið. Hér hefur það ástand og þær horfur, sem þá blöstu við, verið rakið ítarlega í stefnuræðu forsrh. Eðli og umfang þessa vanda fór ekki fram hjá neinum, nema ef vera skyldi talsmönnum stjórnarandstöðunnar, og sjaldan eða aldrei hefur þjóðin verið í heild sannfærðari um markvissar aðgerðir, að taka þyrfti til hendi. Þó stjórnarandstaðan þykist ekki skilja áhrif minnkandi þorskafla og hruns loðnustofnsins á þjóðartekjurnar, þá skilur og veit þjóðin alvöru þessa máls, ekki síst þar sem fiskurinn er hinn mikli atvinnugjafi.

Þjóðin skilur vel þörf þess að taka erlend lán til arðgefandi framkvæmda, sem skila sér í framtíðinni í þjóðarbú okkar og auka velferð og öryggi til lengri tíma lítið. Hún skilur einnig þegar ljóst er að öll kjör þessara lána fara hríðversnandi og auka fjárhagsbyrðar þess sama þjóðarbús með óhæfilegum þunga. Stjórnarandstaðan lætur nægja gamla sönginn um allt of mikil erlend lán jafnhliða því sem sífellt er sífrað yfir seinagangi í stórframkvæmdum þeim sem í mestri lánsfjárþörf eru. Þjóðin skilur það að yfirgnæfandi hluta að gífurlegur viðskiptahalli hlýtur að kalla á hörð viðbrögð, harðari raunar en fram hafa fengist, því að hún veit að það er eytt umfram efni, sóað umfram það sem aflast. Þeir sem harðast hafa gengið fram í baráttunni fyrir frjálsum og óheftum innflutningi á öllu milli himins og jarðar eiga eðlilega bágt með að taka sinnaskiptum og leggjast á sveif með Alþb. um aðhald og stjórn þessara mála. Þeim er vorkunn hvað þetta áhrærir.

Þetta þrennt, stórfelld rýrnun þjóðartekna, ört versnandi lánakjör erlendis og hrikalegur viðskiptahalli, að ógleymdri hinni erfiðu stöðu atvinnuveganna, skóp það óvissu- og vandaástand þar sem svo sannarlega þurfti að grípa á ýmsu. Og þjóðin spurði um lausnir, gerði sér grein fyrir þörf víðtækra aðgerða. Ríkisstj. veitti í sumar sín svör við spurningum um lausn vandamálanna, ýmist í formi brbl. eða með beinum og ákveðnum yfirlýsingum um stefnu í atvinnu-, kjara- og efnahagsmálum, þar sem markmiðin voru þau helst að halda uppi fullri atvinnu, verja lífskjör þeirra lakar settu og jafna þau lífskjör um leið með beinum félagslegum aðgerðum. Niðurstaða fékkst í engu átakalaust í ríkisstj., þar sem ólík sjónarmið og stefnumið mætast, en að henni fenginni hefur samstaða verið um framkvæmd hennar.

Alþb. lagði í það mikla vinnu að gera tillögur um lausn vandamálanna á víðum grunni, þar sem bæði var snúist beint við vanda líðandi stundar og horft til framtíðar morgundagsins. Það var því að vonum að tillögur þess settu sitt skýra mark á brbl. og enn frekar ýmis stefnumarkandi atriði í viljayfirlýsingu ríkisstj. Þessar tillögur náðu að sjálfsögðu ekki allar fram að ganga í samsteypustjórn eðlilegra málamiðlana, ekki síst þar sem þær snerta róttækar kerfisbreytingar eða beinan uppskurð á ýmsum þáttum efnahagskerfisins. Þessar tillögur liggja hins vegar allar ljóst fyrir og verða áfram veganesti okkar í þjóðmálabaráttunni. Meginatriði þeirra má draga saman í því að treysta skuli undirstöðu heilbrigðs atvinnulífs til sjávar og sveita og þar með atvinnuöryggisins, að gróðaaðilar þjóðfélagsins verði að leggja fullan skerf til úrlausnar og rýrnandi þjóðartekjur dragi ekki úr þeim samfélagsþáttum sem setja mark sitt öðru fremur á aðstöðu og aðbúnað fólksins í landinu.

Þær raddir hafa heyrst úr ýmsum áttum að enn lengra hefði átt að ganga í efnahagsaðgerðum, og sannarlega stóð ekki á Alþb. að gera það á alhliða grunni. En þegar sá lævísi undirtónn einn býr að baki, að með harðari aðgerðum skuli einungis gengið harðara að launafólki, þá er það rétt að í því efni stóð á Alþb. Nátengdur þessu er sá holhljómur sem greina má í öllu talinu um nýjan verðviðmiðunargrundvöll vísitölunnar hjá ýmsum. Það stendur ekki á Alþb. að gera nauðsynlegar breytingar á vísitölukerfi, sem um margt er gallað, en ef ákafi manna beinist að því einu að sú leiðrétting skili sér einungis í skertum kjörum, þá kalla ég það holhljóm og gegn ákvörðun af því tagi hlýtur Alþb. að snúast öndvert.

Þjóðmálabaráttan á öllum sviðum snýst nefnilega ævinlega um það hver skuli hlutur hins vinnandi manns, ekki síst þegar hinni óheftu markaðs- og frjálshyggju vex fiskur um hrygg, þar sem örbirgð og allsleysi við hliðina á auðlegð og ríkidæmi eru sjálfsögð og réttlát lögmál. Lausnir brbl. og stefnuyfirlýsingin voru ekki keyptar við vá atvinnuleysis, svo sem margar ríkisstjórnir hafa gert. Þær skertu ekki samfélagslega þjónustu, sem er uppáhaldsbjargráð afturhaldsstjórna. Þær tryggðu lífskjör þeirra lakast settu svo sem framast mátti verða, þveröfugt við það sem íhaldið í Danmörku gerir nú óhikað. Þessar ráðstafanir voru þess eðlis, að þær voru sannarlega gerðar í trausti þess að fyrir þeim væri þingmeirihluti, enda höfðu menn síst vænst þess, þegar þannig var á málum tekið, að einn „stjórnarliða“ — að vísu innan gæsalappa —– sæi þá ástæðu til að hlaupast undan merkjum og taka undir svartagallsraus stóryrtrar stjórnarandstöðu.

Í dag eru þessi mál því í mikilli óvissu, ef öll stjórnarandstaðan ætlar að fella þessi brbl. og neitar að taka öllum sönsum. Því skal að vísu ekki enn trúað til fullnustu, en miðað við allar yfirlýsingar hefðu það verið eðlileg viðbrögð, þegar svo horfði, að láta á ábyrgð stjórnarandstöðunnar reyna og ef ábyrgðarleysið yrði niðurstaðan, að láta þá þjóðina dæma um hvert framhaldið skyldi vera. Þetta var álit Alþb., því að það hljóta að vera í senn heiðarleg og réttmæt vinnubrögð að fela þá kjósendum úrskurðarvaldið. Því fer fjarri að Alþb. hafi ætlað sér í nokkru að firra sig þeirri ábyrgð, sem það hefur þegar axlað, og síst af öllu er það okkar ætlan að yfirgefa þetta stjórnarsamstarf til þess eins að auðvelda afturhaldinu eftirleikinn og leiða yfir þjóðina ríkisstj. leiftursóknar og lífskjaraskerðingar. Eins og tillögur sínar, er Alþb. vann í sumar, er það ekki síður tilbúið að leggja verk ráðherra sinna í þessari ríkisstj. undir dóm þjóðarinnar.

Alþb. og fjmrh. þess hefur lagt höfuðáherslu á að fjármálastjórn væri styrk og á traustum grunni byggð, að fyllsta aðhalds væri gætt á sama tíma og framlög hafa verið stóraukin til þeirra málaflokka er mestu skipta um félagslega þjónustu, í menningarlegum efnum og til heilsugæslu og trygginga. Hallalaus ríkisbúskapur er gleðileg staðreynd, ekki síst þegar þessar félagslegu forsendur eru hafðar í huga. Eftir botnlausa skuldasöfnun í Seðlabankanum í tíð Sjálfstfl. hafa þær skuldir markvisst verið greiddar um leið og jafnvægi hefur náðst í ríkisfjármálunum. Löngum hefur Alþb. verið legið á hálsi fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum í skjóli þess að það hefur aldrei fyrr farið með þann málaflokk. Nú hafa kenningarnar um ábyrgðarleysi fallið svo gersamlega um sjálfar sig að nú er helsta fangaráðið að kenna fjármálastjórn Alþb. við íhaldsstefnu. En íhald og aðhald eru sitt hvað og menn eru nú reynslunni ríkari.

Menn kunna að æpa um skattaáþján, svo hjákátlega sem það hljómar nú, þegar einkaneysla hefur sannarlega verið í hámarki annars vegar og hins vegar blasir við sú staðreynd að aukin samneysla, sé þar rétt á haldið, skilar sér best til þeirra sem skarðastan hlut bera og veldur meira um aðstöðu- og kjarajöfnun þegnanna í þjóðfélaginu en flest annað. Fjárlagafrv. nú er vissulega háð ástandi efnahagsmála og þjóðartekna. En því ánægjulegra er það hversu þessum samneysluþáttum er þar vel til skila haldið. Það er svo annað mál, að þeir sem hæst tala um skattheimtu og hlut hins opinbera eru ævinlega frekastir til þess fjár og fá þar aldrei nóg.

Í félagslegri uppbyggingu okkar á viðamikilli heilsugæsluþjónustu hafa náðst meiri áfangasigrar en menn gera sér oft grein fyrir. Hinir svokölluðu félagsmálapakkar hafa fært launafólki ótaldar réttarbætur, m.a. í löggjöf um ýmisleg baráttumál sem launþegahreyfingin hefur árum saman árangurslaust reynt að ná fram. Orlofslengingin nú er eitt þeirra mikilvægu mála. Þegar að kreppir munu ýmis félagsleg réttindamál, sem þannig hafa fengist fram, duga best og sýna ótvírætt gildi sitt.

Hrópyrði nú um málefni aldraðra og öryrkja hljóma fáránlega í munni þeirra sem skiluðu þeim málum sem raun bar vitni 1971, en nýttu fyrsta tækifærið 1974 til að afnema hlut ríkisins í fjármögnun til framkvæmda í þágu aldraðra og héldu framlögum til öryrkja og þroskaheftra í algeru lágmarki á valdatíma sínum. Frá 1978 hefur hin jákvæðasta þróun átt sér stað. Nægir þar að nefna stóraukin framlög til þessara málefna á nær öllum sviðum, m.a. vegna öflugra sjóðstofnana, sem hafa leitt af sér stórfellda raungildishækkun, auk þess sem þjónustan spannar æ fleiri svið og tekur til fleiri þátta en áður þar sem framþróun í nýskipan þessara mála hefur verið tryggð. Ekki síst á þetta við um þá of vanræktu einstaklinga sem þroskaheftir eru og gleðilegust er sú þróun að hvarvetna um land er nú unnið að verkefnum í þeirra þágu, en áður var nær alger ördeyða ríkjandi úti á landsbyggðinni.

Á síðasta þingi lágu fyrir veigamiklir frumvarpsbálkar um málefni aldraðra annars vegar og fatlaðra hins vegar og báðir þurfa þeir að fá afgreiðslu sem fyrst. Heildarlög, sem varða veginn í réttindamálum þessa fólks, eru nauðsyn. Þau gefa þá viðspyrnu sem á þarf að halda í sókn fram á við til aukinna framfara, betri þjónustu. Og fjármagni því sem þannig er varið er vel varið. Það skilar sér ekki aðeins í aukinni lífshamingju, aukinni velferð, heldur einnig í beinum þjóðhagslegum arði þegar fram liða stundir. Skuldagreiðsla samfélagsins er vel á vegi, en ekkert skal úr dregið að ótalmargt er enn ógert og enn þarf á brattann að sækja.

Þegar á aldraða er minnst væri ekki úr vegi, þegar umhyggja íhaldsins er að yfirbuga þá, að skoða þær bláköldu staðreyndir að á þessu og næsta ári verður um að ræða nær 50% aukningu á vistrými fyrir aldraða í landinu. Einhvern tíma hefði slíkt þótt tíðindi og síst er til þess ástæða að láta þetta stórátak liggja í þagnargildi, þó að enn sé margt og mikið ógert — eða hvað segja staðreyndir um kaupmátt lífeyrisþega nú og þegar Alþfl. og Sjálfstfl. skiluðu af sér fyrir 11 árum? Láta mun nærri að þar sé um aukningu að ræða sem nálgast 100% til elli- og örorkuþega með tekjutryggingu. Er því glöggt að á óminnishegra gleymskunnar er alfarið treyst þegar þessir aðilar berja sér nú á brjóst. Hefur þó síst verið ofgert í þessum efnum, en samanburðurinn er aðeins svo hrikalega þeim í óhag er hæst láta.

Ekki verður moldviðrið minna þegar að húsnæðismálunum kemur. Þar gleymist gjarnan hið mikla átak sem gert hefur verið í félagslegum íbúðabyggingum, því að vissulega skila 600 verkamannabústaðir mörgum vel á veg. Lánakerfi húsnæðismála hefur einnig í stórauknum mæli tekið þátt í ýmsum nýjum þáttum, svo sem lánum til orkusparandi aðgerða, endurbóta- og viðbyggingarlánum og sérþarfalánum öryrkja auk hinnar miklu aukningar í lánveitingum til kaupa á eldra húsnæði. Og þrátt fyrir öll lætin og fullyrðingar um svik og vanefndir hefur húsnæðisstjórn nýverið sent út tilkynningu um greiðslu lána á næstu mánuðum, sem að fullu er í samræmi við greiðsluáætlun og venjur síðustu ára. Hins vegar er ljóst að viðbótarfjármagn þarf til þeirra sem eru að eignast íbúð í fyrsta sinn. Það verður að gera þó að syrti í álinn og með efnahagsaðgerðum sumarsins var þar stigið mikilvægt skref með tvöföldun framlags til þessa þáttar, sem mun skila sér til þeirra sem nú standa í framkvæmdum. Sömuleiðis eru nú á döfinni róttækar breytingar á húsnæðislöggjöf okkar þessu unga fólki í hag og þeim verður hrint í framkvæmd, ef ríkisstj. fær til þess frið.

En lífskjarajöfnun kemur víða við og nú þegar mest er um jöfnun atkvæðisréttar rætt er brýnt að jöfnunarmál landsbyggðarfólks fái enn skjótari framgang, þar sem mismunun er enn allt of ríkjandi á flestum sviðum. Þar er kyndingarkostnaðurinn þó tilfinnanlegastur og þegar hafa þar verið stigin skref til jöfnunar og miklu skiptir að áætlun iðnrh. um framhald þar nái að fullu fram að ganga. Á réttindamál landsbyggðarfólks þarf að reyna samhliða því sem atkvæðavægið margumtalað er leiðrétt.

Í orku- og iðnaðarmálum hefur verið unnið grundvallarstarf, sem á eftir að valda tímahvörfum í þeim efnum, þar sem vandlegar og vel grundaðar áætlanir hafa tekið við af oft fálmkenndu handahófi. Þar eru því uppi markvissari og betur undirbúin áform í orkubúskap okkar en áður er um dæmi. Á örfáum árum hefur byggðalínukerfið verið byggt upp og hringtenging orkukerfisins er nú í sjónmáli á næsta ári. Þegar Magnús heitinn Kjartansson boðaði þessa samtengingarstefnu fussuðu margir í fyrirlitningu, en nú vildu allir þá Lilju kveðið hafa.

Línulagnir til einangraðra svæða hafa verið stórfelldar og öryggi raforkukerfis okkar því með öllu ólíkt því sem áður var. Að útrýmingu erlendra orkugjafa hefur markvisst verið unnið og árangur þar ótrúlegur þegar litið er til fyrri tíma. Samningurinn við Landsvirkjun í sumar um sama heildsöluverð raforku alls staðar og yfirtöku byggðalínanna svo og uppbyggingu og rekstur nýrra virkjana á Norður- og Austurlandi hefur grundvallarþýðingu fyrir öll orkumál okkar og þess mun landsbyggðin njóta, svo sem fólk þar á fullan rétt til, þó enn komi orkusalan til stóriðjunnar inn í þá mynd, sem allt skekkir og alla jöfnun hindrar meira og minna.

Virkjunaráform næstu ára eru miðuð við það að við Íslendingar nýtum þessa dýrmætu auðlind í eigin þágu til íslenskra verkefna á sviði alhliða iðnaðaruppbyggingar. Þar þarf ekki siður að huga að ýmsum þjónustu- og framleiðsluiðnaði, ekki síst úr innlendum hráefnum, framleiðsluiðnaði smærri eininga, þar sem hann getur veitt ríkulega uppbót í einhliða atvinnulífi.

Í orkufrekum iðnaði mun nú í vetur reyna á hvernig menn taka á því vel undirbúna íslenska verkefni sem kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði er og lög voru sett um á síðasta þingi. Þar reynir á hvort menn hafa trú á því að við getum ráðið sjálfir við verkefni af þessu tagi eða hvort áfram á að hlíta erlendri forsjá. Auðvitað ber þá að gæta að þjóðhagslegum forsendum, svo sem gert hefur verið. Orkufrekur iðnaður er ekki eitthvað sem komið getur í stað okkar fyrri atvinnuvega, svo sem draumórar margra hafa staðið til. En mikilvæg stoð getur hann reynst ef réttilega er að staðið. Þennan iðnað þarf því að byggja upp af fullri einurð, en með fyllstu gát, þar sem við höfum óskorað vald á hraða og þróun allri, að ógleymdu algeru forræði. Við verðum að líta til reynslunnar af raunsæi. Hún hefur kennt okkur að valt er þar að treysta á um of, því ekki eru áhrif hinnar alþjóðlegu kreppu minni þar en í öðrum atvinnugreinum, sveiflurnar þar ekki síður afdrifaríkar.

Nú er að íslenskum áformum unnið gagnstætt erlendum iðjuverum, sem nærast á nær ókeypis orku, sem almenningur í landinu greiðir svo með dýrum dómum, hvort sem það er til að hita híbýli sín eða til almenns atvinnurekstrar. Glíman við erlenda auðhringinn, sem ríkjum ræður í Straumsvík, mun komast í brennidepil þjóðmálanna og sú glíma verður bæði lærdómsrík og örlagarík. Þá reynir á manndóm og reisn manna til að standa við hlið iðnrh. með íslenskum hagsmunum gegn erlendum álfurstum. Þrátt fyrir fullyrðingar og furðuskrif, þar sem málstaður auðhringsins hefur verið varinn í líf og blóð af ótrúlegum undirlægjuhætti og óskiljanlegum og öll þjóðin hefur orðið vitni að, verður að treysta því að heilbrigð skynsemi og þjóðleg reisn verði þeirri lágkúru yfirsterkari þegar til kastanna kemur.

Í beinu framhaldi af því efnahagslega sjálfstæðismáli sem Alusuisse-málið er hlýtur hugurinn að leita til þjóðfrelsismála okkar. Þar þykir okkur að vonum seint miða. En við sem þekkjum baráttuna frá því á kaldastríðsárunum verstu í kringum 1950 og allt til þessa dags, baráttuna fyrir hlutleysi og herleysi, höfum þó sannarlega ásfæðu til að fagna þeirri almennu og vaxandi vitund fólks um nauðsyn öflugrar friðarbaráttu gegn brjálæði gereyðingarinnar. Vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna ljær nú enginn lið í dag nema steintröll kaldastríðsáranna og fákænir frjálshyggjupostular. Sú er mín trú, að friðarhreyfing líkt og farið hefur eldi hugsjóna um ótal lönd eigi eftir að verða virki afl í íslenskum þjóðmálum næstu ár. slík allsherjarvakning megnar ein að losa okkur undan oki þess auma klafa sem annað stórveldanna hefur á okkur lagt. Baráttan um frekari umsvif erlendra byssubófa hér mun að sjálfsögðu halda áfram, sömuleiðis baráttan gegn betlihugmyndum flugstöðvarfarandriddaranna. En voldug hreyfing gegn vitfirringu vopnabúnaðarins, gegn stórveldastefnunni með alheimsfriði, mun þó ein megna að skila okkur verulega á veg. Þar munu æ fleiri fylkingar ganga í friðarins þágu gegn árásarbandalögum og erlendri hersetu. Við þetta hlýtur von okkar að vera bundin.

Herra forseti. Undir lestri stjórnarandstöðunnar áðan flaug mér óvart í hug:

Andstöðunnar elgur frægur

eyrum manna glymur hér.

Engin kreppa, afli nægur,

af úrlausnum er mesti sægur,

bara ef stjórnin burtu fer.

Það er svo önnur saga, að ekki bólar enn á þessum úrlausnasæg. En við því hafa menn varla búist fremur nú en fyrri daginn.

En lokaorð mín skulu þessi: Alþb. hafnar leiðum afturhaldsins í baráttu við alheimskreppu og innanlandsvanda. Það vill arðbærar og atvinnuskapandi framkvæmdir í stað fjárfestingarsukks í þágu milliliða- og gróðaaðila. Það vill skipulag á stjórn atvinnulífsins þannig að það þjóni heildinni en ekki einhverjum duttlungum einstaklinga í óheftu gróðaskyni einu saman. Það vill eflingu hinna hefðbundnu atvinnugreina okkar, sjávarútvegs og landbúnaðar, á þann hátt að þeir sem þar að starfa hljóti sem ríkulegust verkalaun, en afætur ýmiss konar hirði ekki óverðskuldaðan skerf. Og síðast en ekki síst vill Alþb. beita sér fyrir áframhaldandi sókn í félagslegum réttindamálum alþýðunnar í landinu, sem skiptir meira máli en flest annað um raunveruleg lífskjör. Úr því skal ekkert dregið, að erfiðleikar eru fram undan og siglingin kann að verða torleiðum háð. En af ábyrgð og festu verður á þeim vanda að taka sem að höndum ber, þannig að þjóðarheill verði ævinlega ofar stundarhagsmunum og hentistefnu. Og framar öðru ber að snúast gegn frjálshyggju ótakmarkaðs einkagróða þegar að sverfur, því þá fyrst yrði þröngt fyrir dyrum alþýðufólksins í þessu landi ef sú stefna réði hér ríkjum. Þegar afturhald annarra landa hefur nú sýnt alþýðufólki þar klærnar svo að um munar er öllu mikilvægara að við höldum fram innlendri atvinnuuppbyggingu gegn erlendri kreppu og félagslegri sókn þrátt fyrir áföll í þjóðarbúinu. Undir þeim leiðarljósum berst Alþb. og er reiðubúið til átaka um þau stefnumið hvenær sem er. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.