16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

266. mál, réttindi sjúkranuddara

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Seljan, 2. þm. Austurl., hefur lagt fram fsp. sem er á þessa leið:

„Hver er staða sjúkranuddara í heilbrigðiskerfinu í dag og hvaða horfur eru á breytingum varðandi réttarstöðu þeirra?“

Því miður er fyrri lið þessarar fsp. mjög fljótsvarað. Réttarstaða sjúkranuddara að lögum hér á landi er engin. Geta því í rauninni flestir kallað sig sjúkranuddara sem vilja og starfað sem slíkir, að svo miklu leyti sem starfsemin takmarkast ekki af ákvæðum læknalaga nr. 80/1969 og ákvæðum annarra sérlaga, sem gilda um heilbrigðisstéttir, svo sem laga nr. 58/1976, um sjúkraþjálfun.

Á undanförnum árum hafa sjúkranuddarar hins vegar leitað hófanna hjá rn. eftir lögverndun starfs og starfsheitis á vegum heilbr.- og trmrn. Á undanförnum árum hafa sjúkranuddarar þeir, sem hafa verið starfandi hér á landi, starfað á eigin vegum og oft utan heilbrigðiskerfisins og án þess að tryggingakerfið taki þátt í kostnaði við störf þeirra. Eftirlit með starfsemi þeirra er bundið því, að þeir fari ekki inn á lögvarin svið heilbrigðisstétta eins og ég gat um.

Heilbrrn. er ljós sá mikli vandi, sem af þessu getur hlotist, sem ekki hvað síst er fólginn í því að í þessi störf sæki aðilar sem bæði sakir skorts á menntun og þjálfun hafa ekki til að bera þá færni til starfans sem hlýtur að vera nauðsynleg. Ekki er þar með sagt að svokallaðir sjúkranuddarar starfi eingöngu utan heilbrigðiskerfisins um þessar mundir. Bæði læknum og sjúkraþjálfurum er heimilt að hafa sér til aðstoðar nuddara sem ávallt starfar þá á ábyrgð og undir handleiðslu þeirra, þ.e. sem aðstoðarfólk. Þannig er læknum og sjúkraþjálfurum heimilt að hagnýta sér starfsemi sjúkranuddara undir þeim skilyrðum sem greint var frá.

Á undanförnum árum hefur færst mjög í vöxt að hinar ýmsu heilbrigðisstéttir hafi sótt um lögverndun starfs og starfsheitis. Hefur þá verið gripið til þess ráðs að setja sérlög um hinar einstöku stéttir eða kveða á um þær í reglugerðum, sem settar hafa verið með stoð í lögum árið 1971 um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, þ.e. hafi verið um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir að ræða, eins og röntgentækna og lyfjatækna svo tvö dæmi séu nefnd. Samkv. þessu nægir reglugerð sé um tæknimenntaða heilbrigðisstétt að ræða, en að öðrum kosti þarf sérlög.

Nú er það augljóst að setning sérlaga um einstakar heilbrigðisstéttir getur ekki gengið til lengdar. Spurningin er jafnvel sú, að mínu mati, hvort ekki hafi þegar verið gengið óþarflega langt í þeim efnum. Það er mín skoðun, að nær væri og skynsamlegra að reyna að útbúa heildstæða löggjöf um heilbrigðisstéttir, sem gæfi heimild til setningar reglugerða um hina einstöku hópa, þar sem tekið yrði á sérmálum þeirra, svo sem hverrar menntunar sé nauðsynlegt að krefjast, í hverju starfið skuli fólgið og þar með hver réttindi þeirra skuli vera og hvaða skyldur þeir skuli bera. Alger forsenda fyrir því að unnt sé að viðurkenna stétt sem heilbrigðisstétt hlýtur að vera að fyrir liggi markvisst og skipulegt nám í skóla, sem heilbrigðisyfirvöld viðurkenna, innanlands eða utan. Slíkt nám verður að miðast við ákveðna sérhæfingu vegna mikilvægis starfans og að það sé leyst af hendi á sem farsælastan hátt, enda ábyrgð heilbrigðisstétta meiri en víðast gerist, t.d. ef um verður að ræða mistök í starfi eða vanrækslu.

Af þessum ástæðum hef ég fyrir nokkrum vikum — það var reyndar seinni part sumars trúi ég — falið lögfræðing heilbrn. og landlækni að gera tillögur að frv. til laga um heilbrigðisstéttir, sem kæmi í stað laganna um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir. Stefni ég að framlagningu slíks frv. þegar á yfirstandandi þingi og nái það fram að ganga gefst tækifæri til að kveða á um réttindi og skyldur sjúkranuddara. Yrði þá tryggt að til slíkra starfa veldust eingöngu þeir sem til þess hafa menntun og færni.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi svarað fsp. eins og kostur er á við þessar aðstæður.