16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

107. mál, sveitarafvæðing

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svar það sem hann hefur gefið, þó að mér þyki það ekki fullnægjandi skýring og raunar engin skýring á þeirri ákvörðun hæstv. iðnrh. að hafa ekki staðfest tillögur orkuráðs um ráðstöfun þess fjár sem átti að ganga til nýrra veitulagna á þessu ári.

Hæstv. ráðh. fór að tala um að það hefði orðið breyting á röðun framkvæmda eða framkvæmdaröð sveitalína sem eftir er að leggja. Hann talaði um það eins og það væri eitthvert einstakt tilvik. Það var gerð skrá um nær alla sveitabæi og allar sveitalínur sem þurfti að leggja þegar árið 1975. En það gefur auga leið að ýmsar breytingar hafa orðið varðandi búsetu sem hafa valdið því að það hafa orðið tilfæringar á þessum röðunarlista framkvæmda. Og það hefur verið einfalt reikningsdæmi starfsmanna Orkustofnunar að gera þessar breytingar, því að það hefur verið farið eftir ákveðinni reglu varðandi röðun, þ.e. eftir því hver væri meðalvegalengd á milli bæja og hver væri meðalkostnaður á hvert býli sem tekið væri fyrir í hvert sinn. Það sem skeði núna og hæstv. iðnrh. var að vitna til, að Selárdalslína eða Ketildalalína hefði verið færð upp fyrir Njarðvíkurlínu í Norður-Múlasýslu, er einfaldlega af þessum ástæðum og engu öðru. Ég vísa algerlega á bug öllum aðdróttunum um að starfsmenn Orkustofnunar hafi ekki unnið þetta verk samviskusamlega, að sjá um að röðunin væri í lagi, eins og þeir hafa alla tíð gert. Og það skiptir engu máli þó að annars vegar eigi mitt kjördæmi í hlut og hins vegar kjördæmi hæstv. iðnrh.

Þá, eins og ég sagði, vék ráðh. að því að framkvæmdir hefðu verið hafnar á Ketildalalínu og unnar af Orkubúi Vestfjarða án þess að staðfesting ráðh. hefði verið fengin á þessari ráðstöfun peninganna til sveitarafvæðingarinnar. Hæstv. ráðh. sagði að það mundu hafa farið fram munnleg skilaboð á milli Orkuráðs og Orkubús Vestfjarða og hann bætti við: en ég kann ekki deili á því. Hann kann ekki deili á því! Á ég þá ekki að segja honum hvað skeði? Formaður orkuráðs, Aage Steinsson, sem hæstv. ráðh. gerði að formanni orkuráðsins, var á þeim tíma starfsmaður Orkubús Vestfjarða og sá um þessar framkvæmdir. Aage Steinsson gerði það sem mér fannst ekki óeðlilegt, hann reiknaði einfaldlega með því að ráðh. mundi samþykkja tillögur orkuráðs eins og alltaf hefur verið, alla tíð. En það er það sem ekki skeður.

Nú segir hæstv. ráðh. að hann sé að vinna að því að fá Byggðasjóð til að taka 2 millj. kr. lán. Það er ekkert nema gott um það að segja. En að það hafi dregist hjá Byggðasjóði að tekin væri ákvörðun í þessu efni. Það hefur sannarlega ekki dregist. Byggðasjóður hefur gert það og ríkisstj. hefur fengið bréf um þetta efni. Það hefur staðið á ríkisstj. og hæstv. iðnrh. en ekki á Byggðasjóði.

Hæstv. iðnrh. sagði að nú ætlaði hann að staðfesta tillögur orkuráðs. Það er nú ekki seinna vænna. Það eru ekki eftir nema tvær, þrjár vikur af árinu, svo að ég held að hann ætti að standa við þetta fyrirheit og gera það þegar í stað í dag.