16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

271. mál, rækjuveiðar við Húnaflóa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í raun og veru er spurningu þessari fljótsvarað. Sjútvrn. hefur ekki í huga að breyta þeirri reglu sem gildir um rækjuveiðar á Húnaflóa, a.m.k. ekki á þessari vertíð.

Eins og hv. fyrirspyrjandi rakti á þetta sér nokkra sögu. Strandamenn hófu rækjuveiðar á Húnaflóa eftir að aflabrestur varð á flóanum, þorskveiðar lögðust nánast af, og má segja að atvinnulíf á Hólmavík og Drangsnesi hafi byggst á rækjuveiðum eingöngu eftir 1963. Aðrir hófu síðar rækjuveiðar þar allmiklu seinna, þannig að nauðsynlegt þótti að skipta þessum veiðum, enda deilur orðnar allmiklar. Fyrrv. hæstv. sjútvrh. Matthías Bjarnason gekk í málið 1975. Það var erfitt mál og af sumum nefndur Húnaflóabardagi hinn síðari. Málið var nú leyst þannig að Strandamenn fengu 50% þess aflamagns sem leyft er á flóanum og Húnaflóahafnirnar jafnframt 50%.

Það er rétt að forsendur hafa nokkuð breyst, að vísu ekki ennþá Strandamegin. Ég vek athygli á því að sá togari, sem nefndur var, er ekki kominn til veiða enn og kemst vart til veiða á þessari rækjuvertíð. Hins vegar er ljóst að nokkur breyting hefur orðið á Skagaströnd. Þar eru tveir togarar og má færa rök að því, að breyta mætti einhverju á milli Skagastrandar og Hvammstanga. Hins vegar varð niðurstaða mín sú, að réttara væri að bíða þar til þá enn frekari umsköpun atvinnulífs hefði orðið á Húnaflóasvæðinu og skoða málið þá í heild sinni. Því ákvað ég að breyta í engu því sem var ákveðið 1975 að þessu sinni.