16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

274. mál, kostnaður vegna athugunar á starfsemi Íslenska álfélagsins

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með bréfi frá ríkisbókhaldi dags. 15. nóv. s.l. var Hafnarfjarðarkaupstað tilkynnt að kaupstaðnum væri gert að taka þátt í kostnaði við athugun á starfsemi Íslenska álfélagsins, sem iðnrn. hefur staðið fyrir nú um rúmlega tveggja ára skeið. Þegar uppgjör fór fram á álgjaldinu síðla árs kom í ljós að frá álgjaldsgreiðslu til Hafnarfjarðar var dregin upphæð sem Hafnarfjarðarbær eða forsvarsmenn hans könnuðust ekki við. Í framhaldi af því leitaði bæjarstjórinn í Hafnarfirði eftir upplýsingum um hverju þetta sætti. Kom þá í ljós, eins og segir í bréfi, að Hafnarfjarðarbæ hafði verið gert að taka þátt í kostnaði af þeirri sérkennilegu rannsókn sem iðnrn. hefur látið fram fara á starfsemi og reikningum ÍSALs að undanförnu. Því er flutt á þskj. 117 fsp. til hæstv. fjmrh. í níu liðum, sem ég sé ekki ástæðu til að lesa hér upp. Hún hefur legið fyrir á þskj. um hríð. Ég vænti því svars ráðh.