25.10.1982
Sameinað þing: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur.

Sérstakar aðstæður ríkja nú á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur ekki lengur meiri hluta í Nd. þingsins. Ríkisstjórnin, sem var eina þingræðisstjórnin sem reyndist mögulegt að mynda að loknum síðustu kosningum, hefur því ekki tengur forsendur til styrkrar stjórnar. Á seinni hluta vetrar mun því óhjákvæmilega koma til nýrra kosninga nema enn verði óvæntar breytingar á Alþingi. Er nú tekist á um hvernig hægt sé að haga málum þannig að ekki hljótist af meiri háttar vandræði fyrir efnahagslíf þjóðarinnar. Ég mun gera þau mál að umtalsefni hér sem verða höfuðviðfangsefni stjórnmálanna á næstu misserum, en þau eru efnahagsmálin og stjórnarskrármálið.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð hafði niðurtalningarstefna Framsfl. fengið mikinn hljómgrunn. Ríkisstj. var mynduð eftir langa stjórnarkreppu og setti hún sér það mark að hefta verðbólguna í áföngum, án þess þó að lögbinda aðgerðirnar í upphafi tímabilsins. Fara átti leið samninga og samkomulags og grípa inn í þegar það teldist nauðsynlegt. Því verður ekki neitað, að við framsóknarmenn erum óánægðir með að ekki hefur náðst meiri árangur en raun ber vitni. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Áhrif hagsmunahópa í þjóðfélaginu eru öflug. Hinir ýmsu hópar hafa mikinn metnað fyrir hönd umbjóðenda sinna svo að oft sjást þeir ekki fyrir. Þessi sami metnaður hefur í reynd stórlega dregið úr möguleikum ríkisstj. til virkrar hagstjórnar. Í nafni þröngra sérhagsmuna er haldið uppi baráttu undir ýmsum kjörorðum, eins og um aukin ríkisútgjöld, lægri skatta, lægri útlánsvexti og hærri innlánsvexti. Jafnvel á tímum samdráttar í þjóðartekjum krefjast menn hærri launa og minni verðbólgu, sem í raun þýðir meiri skuldir og aukna verðbólgu. Því skulum við gera okkur ljóst að lífskjör, sem haldið er uppi með taprekstri og erlendri skuldasöfnun, eru skaðleg stundarblekking sem mun leiða til enn meiri erfiðleika í framtíðinni.

Það sama á við hér og á hverju einstöku heimili. Hvaða ábyrgt foreldri getur réttlætt það fyrir sjálfu sér að taka eyðslulán, sem það sér ekki fram á að geta endurgreitt af tekjum sínum, í stað þess að draga úr útgjöldum? Það veit að með slíku háttalagi verður það afkomendanna að gera upp óreiðuna.

Vegna þeirrar stöðu sem nú hefur verið lýst og þeirrar ákvörðunar ríkisstj. að lögbinda ekki ákveðin þrep í niðurtalningunni reyndist nauðsynlegt að ganga til langvinnra samninga um sérhvert skref í baráttunni við verðbólguna. Þetta reyndist seinvirk leið og höfum við framsóknarmenn ekki dregið dul á óánægju okkar með framvindu mála, enda þótt segja megi að skilningur hafi farið vaxandi hjá samstarfsmönnum okkar í ríkisstj.

Ef ráða á niðurlögum verðbólgu eru aðeins tvær meginleiðir. Sú fyrri byggir á niðurtalningu, sem verður að vera í markvissum og undanbragðalausum skrefum í stað tímafreks samningaþófs, sem sýnt hefur að leiðir ekki til viðunandi niðurstöðu. Ég vil taka sérstaklega fram að í ljósi reynslunnar er það mín skoðun að aðgerðir til niðurtalningar verðbólgu verði að lögbinda eigi að ná tilætluðum árangri í baráttu gegn henni. Síðari meginleiðin er leiftursókn, sem landsfræg er orðin og miðar að því að ná sem mestum árangri í einu vetfangi, án tillits til annarra áhrifa, þ. á m. atvinnu. Valið á næstunni mun því standa á milli markvissrar hjöðnunar verðbólgu með aðgerðum er hafi undanbragðalausan stuðning í lögum og leiftursóknar í nýjum búningi. Við framsóknarmenn erum sannfærðir um að innan allra flokka eru sterk ábyrg öfl sem eru sammála meginsjónarmiðum okkar í baráttunni gegn verðbólgu. Sjálfstfl. mun raunar segja að niðurtalningin hafi verið reynd og ekki skilað nægilegum árangri. Því verði að reyna nýja, bragðbætta leiftursókn. Ég vara við slíkri stefnu. Verum þess minnug, að við höfum þrátt fyrir allt fetað okkur áfram, og minnumst þess einnig að í þjóðfélagi okkar, sem var komið út á ystu nöf þjóðfélagslegra átaka árið 1978, gætir nú á ný aukins skilnings og samstarfsvilja. Áframhaldið verður að byggja á þeim grunni en með meiri festu. Leiftursókn mun kollvarpa þessum grundvelli og leiða til átaka og skilningsleysis. Ekki er að efa að bol atvinnuleysisins mun einnig eitra andrúmsloftið í þjóðfélaginu.

Ég leyfi mér að fullyrða að Framsfl. er eini stjórnmúlaflokkurinn sem getur leitt ábyrg stjórnmálaöfl saman til virkrar efnahagsstjórnar, — virkrar efnahagsstjórnar, sem byggir á lögbundnum aðgerðum til niðurtalningar sem meginstefnu, auk róttækra aðgerða í fjármálum ríkisins og peningakerfi landsins sem miði að tryggingu kaupmáttar og tiltrú á innlendan sparnað.

Þjóð, sem ber virðingu fyrir sjálfstæði sínu og sjálfsforræði, verður að taka á málum sínum af ábyrgð og festu eigi hún ekki að missa traust út á við. Vandinn liggur í því að ná sátt inn á við til að ná nauðsynlegum styrk út á við. Ef við hins vegar náum ekki þeirri sátt missum við tiltrú þeirra er við eigum skipti við, sem getur skaðað og rýrt okkar efnahagslega sjálfstæði. Því eigum við engan annan kost en að sameinast í því að bæta stöðu okkar og skapa skilyrði fyrir uppbyggingu atvinnuveganna sem geti staðið undir bættum lífskjörum. Minnumst þess þó að við stöndum ekki ein í slíkum sporum. Allur hinn vestræni heimur stendur frammi fyrir svipuðum vandamálum. Aðalatriðið er að vinna markvisst að lausn vandamálanna, að nauðsynlegar aðgerðir njóti skilnings þjóðarinnar og jafnframt að svigrúm sé fyrir hendi til að grípa inn í atburðarásina verði óvæntar breytingar í hagkerfinu. Framsfl. mun nú sem fyrr vinna að lausn mála á þessum grundvelli.

Stjórnarskrárnefnd hefur verið alllengi að störfum og undirbúið breytingar á stjórnarskránni. Tillögur liggja enn ekki fyrir og því er óvarlegt að búast við að niðurstaða geti fengist á næstunni. Stjórnarskráin er okkar þjóðarsáttmáli. Sá sáttmáli snertir sérhvern einstakling í þjóðfélaginu. Það er því nauðsynlegt að tillögur stjórnarskrárnefndar komi til almennrar umræðu meðal fólks.

Í umræðunni um nýja stjórnarskrá hefur mest verið talað um jöfnun atkvæðisréttar og fjölgun þingmanna. Það er almennt viðurkennt að nokkur leiðrétting þurfi að verða á vægi atkvæða milli kjördæma. Hafa margvísleg sjónarmið komið fram um það hvernig að breytingunni skuli staðið. Eðlilegast virðist að flytja hluta uppbótarþingmanna í mesta þéttbýlið með beinum eða óbeinum hætti, án þess að þingmönnum fjölgi. Allt bendir til þess að niðurstaðan verði önnur. Er það miður, sérstaklega ef það er sakir þröngra flokkslegra sjónarmiða og þrengstu sérhagsmuna einstakra þingmanna. Á sama tíma og við erum að berjast við að finna leiðir út úr efnahagsvanda okkar getum við ekki leyft okkur að leysa deilur um vægi atkvæða með fjölgun þingmanna. Eða er einhver þeirrar skoðunar að það hafi þýðingu fyrir framvindu mála að fjölga þeim? Það ber hins vegar vott um úrræða- og ábyrgðarleysi að leitast við að leysa vandamál með því að auka stöðugt við báknið til að komast hjá óþægindum, á sama hátt og við leysum ekki vanda verðbólgunnar ef enginn vill neitt á sig leggja til að ná henni niður. Því skulum við setja okkur það mark að leysa kjördæmamálið án fjölgunar þingmanna og ná samkomulagi um aðgerðir gegn verðbólgu sem komi sem réttlátast við alla þjóðfélagsþegnana. Með því einu komum við fram af þeirri ábyrgð sem þjóðin gerir nú kröfu til að við sýnum. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.