16.12.1982
Efri deild: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

117. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mál það sem ég mæli hér fyrir, um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð bænda, er dæmigert framlengingarmál. Hér er ekki um ný réttindi að ræða heldur að þau réttindi sem verið hafa í gildi undanfarin ár séu framlengd í samræmi við framlengingu á réttindum sem fólgin eru í lögum um eftirlaun til aldraðra. En frv. um það mál hefur verið hér til afgreiðslu.

Í samkomulagi Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna frá 30. júní s.l. er gert ráð fyrir óbreyttri tilhögun verðbótagreiðslna og kostnaðarskiptingar árin 1983–1984 að því er varðar greiðslur samkv. I. kafla laga nr. 97/1979, um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögunum. Eins og ég sagði hefur frv. verið lagt fram um breytingu á þeim lögum, þar sem auk framlengingar á ákvæðum 21. og 24. gr. um verðtryggingu og kostnaðarskiptingu í samræmi við nefnt samkomulag er gert ráð fyrir hliðstæðri framlengingu á ákvæðum 22. og 25. gr. laganna. Þetta lagafrv. er við það miðað, að framlenging þessara lagaákvæða nái fram að ganga og eigi sér þá stað hliðstæð framlenging á núgildandi verðtryggingarákvæðum laga um Lífeyrissjóð bænda.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, sem þegar hefur hlotið afgreiðslu í hv. Nd., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.