25.10.1982
Sameinað þing: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Góðir hlustendur, herra forseti. Hin kraftmikla jafnaðarstefna, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason lýsti hér áðan, hefur aðallega birst landsmönnum í því að undanförnu, að heyrst hafa fréttir um vígaferlin innan Alþfl., þar sem deilt er um eina örugga þingsæti Alþfl. í Reykjavík í næstu kosningum milli Jóns Baldvins og Vilmundar. Það er hin kraftmikla jafnaðarstefna sem landsmenn hafa fengið að kynnast.

Hv. þm. Magnús H. Magnússon minntist á það hér fyrr í kvöld að húsnæðismálin væru mjög í ólestri undir forustu núv. ríkisstj. Hélt hann þar sömu ræðuna og hann hélt í fyrra eða hitteðfyrra. Húsnæðismálin eru af eðlilegum ástæðum mjög í brennidepli. Eins og forsrh. gat um er í undirbúningi stórátak í þessum efnum. Beinist það einkum að því að hækka sérstaklega lán handa þeim sem byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinn. Nú í vikunni verða kynntar tillögur í húsnæðismálum, þar sem m.a. er gert ráð fyrir annarri meðferð lánskjaravísitölu húsnæðislána en verið hefur.

Vegna ummæla um vísitölumál hér fyrr í kvöld kemst ég ekki hjá því að geta þess, að frv. til laga um vísitólumál hefur ekki verið afgreitt í ríkisstj. og samningsforsendum verður ekki breytt nema með samkomulagi allra stjórnaraðila og í samráði við verkalýðshreyfinguna. Þetta er seinvirk leið, eins og nefnt var hér fyrr í kvöld, en það er lýðræðisleg leið.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson flutti hér mjög sérkennilega ræðu fyrr í kvöld. Geir Hallgrímsson lofaði að afnema verðbólguna og jafnframt að tryggja fulla atvinnu.

Hann lofaði lægri sköttum, en nefndi það ekki hvernig hann ætlaði að fara að því. Hann sagði ekki frá því hvernig hann ætlaði að afnema verðbólguna heldur, en landsmenn þekkja leiftursóknina. Hann sagði ekki frá því hvernig hann ætlaði að tryggja fulla atvinnu, en landsmenn þekkja hugmyndir hans um erlenda stóriðju og stóraukin umsvif ameríska hersins. Þannig er enn ljóst hvað hann vill. Geir Hallgrímsson hefur í kvöld enn einu sinni afhjúpað stefnu og loddaraskap Sjálfstfl. Þannig hafa útvarpsumr. gert gagn.

Góðir hlustendur. Þessum útvarpsumr. er að ljúka. Enn þá einu sinni hafið þið fengið tækifæri til þess að bera saman málflutning íslenskra stjórnmálamanna og líklega hafa sumir komist að niðurstöðu. Margir eru kannske ánægðir með flokkinn sinn, eins og gengur, og hneykslast á hinum flokkunum. Enn fleiri hygg ég að séu í vafa og enn aðrir telja að stjórnmálamenn á Íslandi séu hver öðrum líkir, þeir segi jafnan það sama þegar allt kemur til alls. Þrátt fyrir þetta velja menn á milli flokka í kosningum hér á landi. Þátttaka í kosningum er reyndar meiri hér en í grannlöndum okkar, sem betur fer. Þetta stafar af því, að auðvitað er munur á afstöðu flokkanna þegar grannt er skoðað, en hinu er ekki að neita, að færri eru nú sem betur fer bundnir í viðjar vanans en áður hefur verið. En það er mikilvægast að þjóðin geri kröfur til ríkisstj. og stjórnarandstöðu um ábyrgð en ekki ábyrgðarleysi.

Hlustendur hafa ekki komist hjá því að heyra í kvöld kröfur stjórnarandstöðunnar um að ríkisstj. segi af sér. Þessi krafa er til marks um ábyrgðarleysi. Í framkvæmd mundi hún auka á glundroða og óvissu í efnahags- og atvinnumálum og ég hélt að flestum þætti nóg komið í þá áttina. Það leysir engan vanda að ríkisstj. segi af sér, nema ákvarðanir hafi verið teknar af nýjum þingmeirihluta um að yfirtaka landsstjórnina eða að samkomulag hafi orðið um það með öðrum hætti hversu landinu verði stjórnað fram yfir kosningar. Það er engu að síður ljóst að svo fráleit sem krafan er um afsögn ríkisstj., þá væri hitt fráleitt að ríkisstj. neitaði að viðurkenna þá staðreynd að á Alþingi er sjálfhelda sem verður að leysa. Þar ber ríkisstj. fremst skyldu, en þar ber stjórnarandstaðan líka ábyrgð. Ég skora á landsmenn að fylgjast vel með því sem gerist á næstunni í viðræðum við stjórnarandstöðuna. Athygli almennings verður vonandi til þess að flýta niðurstöðum. Þegar menn eru að ræða jafn örlagarík mál og stjórn þjóðfélagsins er ekki sæmandi að gaufa langtímum saman við að finna niðurstöðu. Slíkt á líka að vera þarflaust.

Alþýðubandalagið hefur krafist uppgjörs, krafist þess að brbl. yrðu lögð strax fyrir þingið og ef þau féllu yrði þing rofið og efnt til kosninga. Þannig kom sérstaða Alþýðubandalagsins skýrt fram í því, að við vildum koma málum á hreint og það tafarlaust. Þessi krafa Alþýðubandalagsins var sett fram í byrjun þings með það í huga að unnt yrði að kjósa í nóvember svo þessi stjórn eða ný stjórn gæti gert ráðstafanir í stað brbl. fyrir 1. des. Alþýðubandalagið vildi í þessum kosningum skjóta málinu til þjóðarinnar, losa um sjálfhelduna á Alþingi Íslendinga. Þetta var ekki gert, m.a. virtist áhugi stjórnarandstöðunnar merkilega lítill á því að kosið yrði strax. Nú er komin upp ný staða í stjórnmálum. Erfitt er að ímynda sér að samstaða náist um kosningar fyrir áramót. Þess vegna hefur ríkisstj. farið fram á það við stjórnarandstöðuna að ræða um afmörkuð lykilmál og um kosningar á fyrri hluta næsta árs. Viðræðurnar við forustu stjórnarandstöðunnar hafa ekki borið árangur til þessa, því miður. Þeir hafa ekki viljað setja fram afdráttarlaust sína skoðun um afgreiðslu brbl., nema að þeir muni fella þau við fyrsta tækifæri. Þeir hafa lýst vilja sínum til að taka á kjördæmamálinu og það er vel, en þeir hafa gert kröfu til þess að ríkisstj. segi af sér. Kröfunni um afsögn ríkisstj. hefur verið hafnað.

Þrátt fyrir stjórnmálalega sjálfheldu um þessar mundir er margt sem mælir á móti því að ríkisstj. segi af sér. Ífyrsta lagi er hún enn meirihlutastjórn, en hana skortir styrk til að koma málum í gegnum aðra deild þingsins. Í annan stað liggur ekkert fyrir um aðra ríkisstj. og það er nauðsynlegt að slíkt liggi fyrir áður en ríkisstj. segði af sér.

Í þriðja lagi er greinilegt að ríkisstj. nýtur stuðnings meðal almennings í landinu.

Í fjórða lagi er ástand hér á landi í atvinnu- og efnahagsmálum betra en í grannlöndum okkar. Ísland er eina landið í Vestur-Evrópu sem hefur haldið fullri atvinnu. Hér hefur félagsleg þjónusta verið aukin. Hér er staða ríkisbúsins góð.

En hvað er það sem stjórnarandstaðan vill? Vill Alþfl. meiri eða minni kaupskerðingu en þá sem fram kemur í brbl.? Ekkert svar. Þó hafa Alþfl.-menn haft hér eins langan ræðutíma og aðrir flokkar í kvöld og tvo mánuði til að hugsa sig um. Vill Alþfl. kannske kauplækkun eins og þá, sem hann lagði til haustið 1978, að kaup hækkaði aðeins um 4% á þriggja mánaða fresti burtséð frá verðbólgunni? Kauplækkunarfrv. Alþfl. 1978 var samið af þeim Jóni Baldvin og Vilmundi Gylfasyni, en þeir bítast nú um hvor þeirra verður í efsta sætinu hjá Alþfl. í Reykjavík í næstu þingkosningum. Ekki er það ágreiningur um kauplækkun sem getur skýrt línurnar í illvígum prófkjörsslag Alþfl. Vill Sjálfstfl. meiri eða minni kaupskerðingu en felst í brbl.? Ekkert svar. Vilja stjórnarandstöðuflokkarnir ekki tvöfalda framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins, eins og ráðstafanir ríkisstj. gera ráð fyrir? Ekkert svar hefur borist við því, enda þótt eitt brýnasta úrlausnarefnið nú sé húsnæðismál unga fólksins. Vill Sjálfstfl. meiri eða minni gengismun en þann sem tekinn er af fiskvinnslunni í brbl. eða vill hann draga úr stuðningi við útgerðina? Ekkert svar, aðeins ábyrgðarlaus slagorð. Vill Sjálfstfl. hærri eða lægri verslunarálagningu en gert er ráð fyrir í brbl.? Ekkert svar. En hver trúir því, að Sjálfstfl. vilji ganga að versluninni eins og þessi ríkisstj. gerir í brbl., þar sem álagning er lækkuð um 10%?

Staðreyndin er sú, góðir hlustendur, að stjórnarandstaðan hefur aldrei, allt frá því að núv. ríkisstj. var mynduð, lagt fram eina einustu tillögu til úrlausnar í efnahagsmálum. Hún hefur hins vegar allan tímann hrópað: Burt með ríkisstj. Ríkisstj. hefur allan þennan tíma haft veikan þingmeirihluta, og þær hafa stundum verið raunalegar fréttirnar sem hafa verið sagðar í fjöl miðlum af því hvernig fyrrverandi stjórnarstuðningsmenn höguðu sér áður en þeir greiddu atkv. hér í þingsölunum. Sjaldan hefur virðing þessarar samkomu látið meira á sjá en einmitt í þau skiptin. Nú er þessi þm., sem þarna um ræddi einkum, hlaupinn heim til föðurhúsanna og Geir Hallgrímsson hefur fagnað hinum glataða syni.

Stjórnarandstaðan hefur fullyrt að undanförnu að Alþýðubandalagið hafi viljað fara út úr ríkisstj. og þess vegna krafist kosninga. Þetta er rangt. Alþýðubandalagið vildi kjósa til að treysta stöðu ríkisstj. á Alþingi, því ég er sannfærður um að stjórnin hefði fengið aukinn meiri hl. í kosningum sem hefðu farið fram nú. Það sýna allar þær upplýsingar sem fyrir liggja. A.m.k. er það ljóst að Alþýðubandalagið er að styrkjast um þessar mundir. Flokkurinn hefur tekið á efnahagsvandanum með ábyrgum hætti og það munu kjósendur meta. Alþýðubandalagið er reiðubúið að taka á efnahagsvandanum áfram, jafnvel þó að á vegi verði óþægileg og erfið vandamál. Alþýðubandalagið er ekki flokkur sem hleypur frá vandanum. Alþýðubandalagið er flokkur sem vill takast á við vandamálin á félagslegum grunni gegn veldi fjármagnsins.

Við teljum, að fram undan séu á næsta ári og jafnvel árum mikil vandamál í efnahagslífi Íslendinga. Við teljum að það sé nauðsynlegt að viðurkenna þær staðreyndir, einnig í kjörum fólksins. En við viljum einnig líta á þær hliðar sem bjartar eru, en sjást oft illa fyrir umræðu sem beinist yfirleitt eingöngu að vandamálunum.

Að undanförnu hef ég orðið var við að fjöldi fólks er að velta því fyrir sér hvað eigi að kjósa í næstu kosningum. Ég tel að jarðvegur pólitískra ákvarðana sé nú opnari hér í landinu en nokkru sinni fyrr. Ég hef orðið var við að allt þetta fólk metur það sem Alþýðubandalagið hefur gert í félags- og heilbrigðismálum. Ég hef tekið eftir því, að starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar óttast niðurskurð íhaldsstjórnar og þeir sem sinna félagslegri þjónustu eru beinlínis hræddir þegar þeir heyra fréttirnar frá Bretlandi, þar sem líf manna er reiknað út í peningum í samanburði við annan kostnað heilbrigðisþjónustunnar. Með köldu blóði sitja menn þar og reikna það út hvort það borgar sig að halda lífinu í þessum manni eða ekki. Með köldu blóði eru jafnvel styttar ævilíkur manna, sem ella gætu lifað eitthvað lengur. Svo grimm og andstyggileg er peningahyggjan, svo köld og miskunnarlaus er hún. En forsvarsmenn hennar reyna auðvitað að fela þessar staðreyndir. Þeir tala um frelsi, en það frelsi er ekkert annað en frelsi fjármagnsins gegn manninum og lífi hans. Það er táknrænt að aldrei tala hægri öflin hærra um frelsi en þegar þau ganga fram af mestu offorsi. Það er ekki að furða. Því hrikalegri sem málstaðurinn er, þeim mun háværari og ósvífnari verður blekkingariðjan.

Alþýðubandalagið er sem fyrr reiðubúið að taka þátt í því að reyna að verja íslensku þjóðina fyrir peningahyggjunni, sem um þessar mundir herjar á alþýðu grannlanda okkar. Við hleypum ekki afturhaldsstefnunni að átakalaust, en sigur vinnst ekki nema við stöndum saman. Við höfum með hjálp launamanna unnið að stórfelldum framförum í félagsmálum á liðnum árum meðan félagsleg þjónusta hefur verið skorin niður í grannlöndum okkar. Við höfum með stuðningi launamanna stöðvað atvinnuleysisvofuna og Ísland er því eina landið sem hefur nú fulla atvinnu. Við munum með stuðningi launamanna áfram beita okkur fyrir því að treysta undirstöðu okkar þjóðlífs og stuðla að félagslegum og menningarlegum framförum. Við skulum gera allt sem við getum til þess að verja Ísland fyrir afturhaldsstjórnum eins og í Bretlandi, Danmörku, Bandaríkjunum, Noregi og nú síðast í Vestur-Þýskalandi. Þar gerðist það, að miðflokkur læddist með veggjum og hljóp svo í bland við tröllin, sveik grundvallaratriði í stefnu ríkisstjórnar Helmuts Schmidt og kom afturhaldinu til valda.

Miðflokkum er aldrei að treysta, það sýnir reynslan, ekki aðeins frá Vestur-Þýskalandi 1982 heldur einnig frá Íslandi 1974 og 1959.

Nú er staðan þannig í íslenskum stjórnmálum, að á löggjafarsamkomunni er pólitísk sjálfhelda. 1 Nd. hefur stjórnarandstaðan 20 menn, stjórnarsinnar 20. Stjórnarandstaðan hefur tekið á sig þá ábyrgð að stöðva hvaða mál sem er frá ríkisstj. Þessi afstaða hefur það í för með sér að ríkisstj. leitar viðræðna við stjórnarandstöðuna um úrlausn helstu mála fram að kosningum. Stjórnarandstaðan hefur því verið kvödd til ábyrgðar.

Ég skora á landsmenn að fylgjast vandlega með þessum viðræðum, þannig að almenningsálitið hjálpi til við að leiða þær til lykta. Ég er sannfærður um að slíkt gæti hjálpað til við að knýja fram úrslit mjög fljótlega. Þau úrslit verða að snúast um afmörkuð mál sem samið yrði um auk þess sem kosningadagur yrði ákveðinn. Kröfur um afsögn ríkisstj. leysa engan vanda, þvert á móti magnar afsögn ríkisstj. ringulreið í stjórnmálum og stuðlar að vaxandi öngþveiti í efnahagsmálum.

Góðir hlustendur. Ég er viss um að þið metið fremur þá sem sýna ábyrgð en ábyrgðarleysi, fremur þá sem ganga hreint og heiðarlega til verks en hina sem læðast með veggjum. Alþýðubandalagið óttast ekki um niðurstöðu ykkar, en við skulum í sameiningu gera okkur ljóst að fram undan er alvarlegur vandi í efnahagsmálum á Íslandi. Erlendar skuldir geta stofnað sjálfstæði þjóðarinnar í hættu ef við förum ekki varlega. Verðbólgan æðir áfram. Við þurfum því að leita leiða til að koma á samkomulagi um stjórnarstefnu, sem losar þing og þjóð úr pólitískri og efnahagslegri sjálfheldu. Alþýðubandalagið er sá flokkur sem almenningur getur treyst til að standa vörð um lífskjör alþýðu og heildarhagsmuni. Alþýðubandalagið býður fram krafta sína. Átökin verða sem fyrr milli afturhaldsins og Alþýðubandalagsins. — Ég þakka þeim sem hlýddu.