16.12.1982
Neðri deild: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

103. mál, meðferð opinberra mála

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég stend að meirihlutaáliti því sem formaður allshn. Nd., hv. þm. Jósef Þorgeirsson, hefur nú mælt fyrir, en vil þó í leiðinni gera þá aths. við þetta frv. sem ég hygg að hafi leitt til þess að einn nm., hv. þm. Ólafur Þórðarson, stendur ekki að þessu nál. og hefur að minni hyggju nokkrar ástæður til.

Þannig háttar nefnilega til, að frv. er afar hroðvirknislega unnið af hæstv. ráðh. og starfsmönnum hans í rn. Þeir hafa unnið það þannig, að í grg. er farið með augljósar rangfærslur. Þær eru, að þar er í nokkrum setningum lagt til að fjárhæðir þessar verði hækkaðar vegna verðlagsbreytinga, en ef menn skoða ártöl og þær hækkanir sem um er að ræða sjá menn auðvitað að hækkanirnar eru margfaldar á við verðlagsbreytingar.

Nú er það skoðun sem ber að virða, að sektir í málum eins og þessum eigi að vera háar. Því má svo bæta við, að hér er ekki um að ræða þvingandi sektir. M.ö.o. getur sá sem þolir enn skotið málum til dómstóla. En það breytir ekki hinu, að það verður að gera þær kröfur, bæði til hæstv. ráðh. og starfsmanna hans í rn., að þeir útbúi mál sín þannig, að í fyrsta lagi greini þeir rétt frá í grg., en á því er því miður mikill misbrestur með þessu frv., og að öðru leyti vandi þeir sín verk betur.

Ég hygg að fleiri nm. en mér hafi verið skapi næst að láta fresta þessu máli og athuga það betur, en kerfið þarf að ganga sinn gang. Því eru þessi orð sögð að það sé skráð í þingtíðindi eins og Viktoría drottning sagði á sínum tíma: We are not amused.