16.12.1982
Neðri deild: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

136. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er alveg laukrétt hjá 1. þm. Vesturl., að í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er ráð fyrir því gert að felld skuli niður fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði sem er í eigu tekjulágs fólks sem nýtur elli- og örorkulífeyris. Mjög sambærileg ákvæði eru einnig í lögum um tekju- og eignarskatt. Þar er gert ráð fyrir mjög ríkri skyldu skattayfirvalda til að fella niður tekjuskatta á mönnum sem hafa orðið fyrir mikilli tekjurýrnun, t.d. vegna sjúkdóma, vegna aldurs eða vegna þess að þeir hafa stundað störf, eins og t.d. sjómennsku, þar sem miklar sveiflur geta orðið í tekjum. Hængurinn á þessu máli er því miður sá, að fæst fólk veit af þessum rétti og þó svo að rétturinn sé skapaður þarf fólkið að hafa fyrir því að sækja um þessa niðurfellingu. Mér er kunnugt um það, eins og fjölmörgum öðrum alþm., að þó að þessi réttur hafi verið veittur hefur mikill þorri þess fólks sem þarf á réttindunum að halda ekki hugmynd um að sá réttur sé til. Það er líka stór hópur fólks, þá ekki síst aldraða fólkið, sem lítur á það sem nokkurs konar sveitarstyrk að þurfa að sækja um það til hins opinbera að fella niður skatta og skyldur sem á það kunna að vera lagðir.

Ég man eftir, þegar ég var sem ungur skóladrengur í vinnu á bæjarskrifstofunum á Ísafirði, gömlum verkamanni sem hafði verið sjúkur upp undir heilt ár og litlar sem engar tekjur borið úr býtum, en hafði haft allnokkrar tekjur árið á undan. Þegar að því kom að leggja á þennan mann skatta var tekin sú ákvörðun í framtalsnefnd Ísafjarðarkaupstaðar að fella niður skattgjöldin á manninum. Þetta var mikið mál, því að gamli maðurinn leit á þetta þeim augum að það væri verið að taka sig á framfæri hins opinbera, það væri verið að setja sig á sveitarstyrk. Í stað þess að vera ánægður með þessa lausn mála var gamli maðurinn djúpt særður. Mér er það í fersku minni þegar bæjarstjóri Ísafjarðarkaupstaðar kom til hans að reyna að útskýra þetta fyrir honum, en þá svaraði gamli maðurinn — hann átti 16 ára gamlan son sem hafði unnið með skólanámi: „Þið gátuð þá a.m.k. lagt á drenginn.“

Þetta sjónarmið, þó ótrúlegt sé, er enn þá uppi meðal margs eldra fólks í okkar samfélagi. Það er ekki vant að hliðra sér hjá þeim greiðslum sem það heldur sig eiga að greiða og telur sér skylt að inna þær af hendi. Þess vegna er því þannig varið, að þó svo þetta fólk eigi rétt vegna lágra tekna til að sleppa við ýmis gjöld til hins opinbera, ef það sækir um, veit það í fyrsta lagi oft ekki um sinn rétt og í öðru lagi hikar það við að sækja um slíka niðurfellingu vegna þess að það hefur á tilfinningunni að með því sé það óbeint að segja sig til sveitar. Þess vegna er miklu eðlilegra, í staðinn fyrir að setja lög um slíkar réttindaveitingar, að gera einfaldlega breytingar á lögum um að fólk, sem býr við þannig aðstæður, sé alfarið undanþegið umræddum gjöldum og að gjaldtakan sé því ekki undir neinum kringumstæðum ofviða.

Nú hefur þróunin á umliðnum árum orðið sú í skattlagningu af almennu íbúðarhúsnæði, hvort heldur sem um eignarskatta eða fasteignagjöld hefur verið að ræða, að þessi skattstofn hefur alltaf verið meira og meira nýttur og eignarskattar og fasteignagjöld af ósköp venjulegu íbúðarhúsnæði hafa farið ört vaxandi. Margt af eldra fólki, sem hefur ekki háar tekjur, býr í nokkuð stóru húsnæði og hefur af því mikil útgjöld, en vill af ýmsum ástæðum ekki skipta um húsnæði og flytja sig inn í minna m.a. af þeim sökum að margt af eldra fólki hefur e.t.v. misst maka sinn, situr með vilja og vitund barna sinna í óskiptu búi og færi það að flytja sig í aðra vistarveru en það hefur búið í mestalla sína ævi fylgir því margs konar óhagræði. Margt af þessu fólki á ákaflega erfitt með að greiða háa fasteignaskatta og háa eignarskatta, vegna þess að það nýtur lítilla tekna. Hækkun eignarskatta á almennu íbúðarhúsnæði og fasteignaskatta hefur því orðið þessu fólki mjög þung í skauti. Þróunin í þessa átt hefur verið ákaflega ör, eins og t.d. kemur fram á því, að á yfirstandandi ári er áætlað að eignarskattar einstaklinga hafi hækkað um rúmlega 69% á sama tíma og laun í landinu hafa ekki hækkað nema um eða innan við 50%, þannig að skattlagningin á hið almenna íbúðarhúsnæði fólks í þessu landi hefur stóraukist á stuttum tíma. Sama þróun hefur átt sér stað verðandi fasteignagjöldin, enda er niðurstaðan orðin sú, að t.d. borgarstjórnin í Reykjavík hefur ákveðið að snúa þarna við og lækka mjög fasteignaskattheimtuna frá því sem borgarstjórn hefur heimildir til.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að reyna a.m.k. að byrja á því að snúa eitthvað við þessari þróun gagnvart almennu íbúðarhúsnæði og skattlagningu á því. Við Albert Guðmundsson hv. þm. flytjum því á þskj. 196 brtt. við frv. það sem hér er á dagskrá. Við leggjum til að 4. gr. orðist, eins og í brtt. segir, á þann veg, að á eftir ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum um tekjustofna sveitarfélaga komi nýtt bráðabirgðaákvæði, er verði nr. V, er hljóði svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 73 frá 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og ákvæði 1. tölul. 74. gr. laga nr. 75 frá 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal á árinu 1983 óheimilt að hækka álagningu fasteignagjalds og eignarskatts á íbúðarhúsnæði um meira en sem nemur 42% af álagningu árið 1982.“

Nú er áætlað að tekjur á milli þessara ára aukist, eins og ég sagði áðan, um 48–50%, þannig að yrði þessi till. samþykkt yrðu hækkanir á fasteignagjaldi og eignarskatti á almennu íbúðarhúsnæði nokkru minni en nemur þeirri tekjuhækkun sem átt hefur sér stað. En þær yrðu þó ekki nema innan við helmingurinn af þeirri hækkun sem átt hefur sér stað á fasteignagjöldum og eignarsköttum miðað við launaþróun á yfirstandandi ári, þannig að þrátt fyrir þetta yrði fólk ekki eins sett gagnvart fasteignagjöldum og eignarsköttum og það var fyrir tveimur árum. Þó svo að þessi till. frá okkur hv. þm. Albert Guðmundssyni yrði samþykkt mundi fólk samt sem áður ekki hafa öðlast jafnstöðu í fasteignagjöldum og eignarskattsálagningu eins og um var að ræða fyrir tveimur árum.

Í fjárlagafrv. er hins vegar áætlað, miðað við að á næsta ári hækki laun ekki nema um 34%, að eignarskattar hækki um 60%. M.ö.o. er þar gert ráð fyrir að eignarskattar hækki næstum því tvöfalt meira en nemur áætlaðri launaþróun eins og henni er spáð í fjárlagafrv. og eins og fjárlagafrv. er grundvallað á. Þetta er auðvitað gersamlega út í hött og má nú fyrr rota en dauðrota þegar menn gera ráð fyrir því í fjárlagafrv. að eignarskattsálagning á almennt íbúðarhúsnæði nærri því tvöfaldist, hækki næstum því um tvöfalda áætlaða launaþróun á árinu. Ég leyfi mér að vara mjög við þessari stefnu vegna þess að þeir sem þessa skatta borga eru fyrst og fremst almennir launþegar fyrir ósköp venjulegt íbúðarhúsnæði, sem þetta fólk, a.m.k. hin síðari ár, á í ærnum erfiðleikum með að koma sér upp þó að ekki bætist ofan á það sú viðleitni ríkisvaldsins og annarra opinberra aðila að stórauka með ári hverju skattheimtuna á venjulegu íbúðarhúsnæði langt umfram það sem kaupið hjá þessu fólki hækkar á sama tíma.