17.12.1982
Neðri deild: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

65. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. 1. minni hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hv. 4. þm. Vesturl. varð iðnn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Hér er á ferðinni gamall kunningi — frv., sem birtist á borðum okkar þm. á hverju hausti og er afgreitt undir jól, um að framlengja verðjöfnunargjald af raforku, sem nú er 19%.

Við sem skipum 1. minni hl. iðnn., ég og hv. 2. landsk. þm. Jósef H. Þorgeirsson, höfum lýst okkur andvíga verðjöfnunargjaldi af raforku eins og það hefur verið lagt á. Við teljum að skattheimta af raforku sé orðin meiri en góðu hófu gegnir. Bæði er lagt á 19% verðjöfnunargjald og söluskattur. Slík skattheimta af raforku er meiri hér á landi en nokkurs staðar annars staðar þekkist.

Þetta kemur ekki síst við íslenskan iðnað, sem ég held að menn verði mjög að hafa í huga í þessu sambandi. Raforkukostnaður er mikill þáttur í rekstrarkostnaði margra iðnfyrirtækja. Þessi skattlagning skerðir samkeppnisaðstöðu íslenskra iðnaðarfyrirtækja gagnvart iðnaði annarra landa, sem íslenskur iðnaður þarf að keppa við.

Ýmis fleiri rök mæla gegn verðjöfnunargjaldinu, sem ég ætla ekki að tíunda rækilega hér. Ég hef gert það áður þegar þetta gjald hefur verið til umr. En ég bendi á að Samband ísl. rafveitna hefur eindregið lagst gegn þessu gjaldi nú sem endranær.

Gjald þetta hefur verið framlengt frá ári til árs, og í hvert sinn sem gjaldið hefur verið framlengt hafa því fylgt yfirlýsingar um að leysa eigi fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins á annan hátt, en lítið orðið úr framkvæmdum. Nú hefur að mörgu leyti þróast í betri átt fyrir Rafmagnsveitur ríkisins. Sú mikla olíukeyrsla, sem Rafmagnsveitur ríkisins þurftu að leggja í til framleiðslu á rafmagni, hefur næstum horfið, þar sem búið er nú að leggja línukerfi um land allt. Mjög hefur því breyst til batnaðar um fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. að þessu leyti. Þá má benda á að með samningi Landsvirkjunar og ríkisstj. um yfirtöku Landsvirkjunar á byggðalínukerfinu, þar sem tryggt er að raforkuverð verði hið sama á öllum afhendingarstöðum stofnlínukerfisins um land allt, er að sjálfsögðu stigið mjög mikilvægt spor í þá átt að jafna raforkuverð á landinu.

Við erum mjög óánægðir með að fjárhagsmál Rafmagnsveitna ríkisins hafa verið látin reka á reiðanum. Árin 1979 og 1980 gerðu Rafmagnsveitur ríkisins tillögur um lausn á fjárhagsvanda fyrirtækisins. Þær tillögur voru tvíþættar: Annars vegar yrðu óarðbærar framkvæmdir kostaðar af ríkissjóði beint, þ.e. þær framkvæmdir sem teljast til félagslegra framkvæmda, en allir eru sammála um að leggja eigi rafmagn um hinar dreifðu byggðir landsins. Það er hins vegar ljóst að margar þessar framkvæmdir skila ekki arði og því óeðlilegt að leggja þær af fullum þunga á rekstur fyrirtækisins. Hins vegar var till. um að gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins hækkaði í samræmi við verðlag. Á fjárlögum áranna 1979 og 1980 og 1981 lagði ríkissjóður ríflega til óarðbærra framkvæmda RARIK. Hins vegar vantar verulega upp á samkv. fjárlögum ársins 1982 og samkv. því fjárlagafrv. sem nú er verið að afgreiða fyrir árið 1983. Það er sem sagt aftur horfið til gamla fyrirkomulagsins að láta Rafmagnsveitur ríkisins sjálfar bera uppi hinar óarðbæru framkvæmdir og leggja þær með fullum þunga á reksturinn.

Árin 1980 og 1981 var mjög haldið í við Rafmagnsveitur ríkisins varðandi hækkun á gjaldskrá og reyndar allar aðrar rafveitur, þannig að mikill halli myndaðist af þeim sökum. Það hefur hins vegar verið bætt úr því á þessu ári, sérstaklega síðari hluta ársins. Þó er enn óleystur sá halli sem verið hefur á fyrirtækinu undanfarin ár. Rekstrarhallinn 1981 varð 24 millj. kr. og áætlaður halli 1982 er 41.4 millj. kr. Mikill hluti af þessum halla er vegna vaxtabyrði lána, sem fyrirtækið hefur þurft að taka.

Af þessu má sjá að því fer fjarri að gerð hafi verið gangskör að því að leysa fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins. Raunar hafa þeir tilburðir sem uppi voru hafðir um það fyrir 1–2 árum runnið út í sandinn og svo virðist sem hæstv. ríkisstj. hafi gefist upp fyrir þessum vanda, eins og ýmsum öðrum vanda sem að okkur steðjar, og velti honum til framtíðarinnar á þessu sviði eins og öðrum.

Það er enginn vafi á að með því að bæta fjárhagsstöðu Rafmagnsveitna ríkisins á þann hátt sem stjórn RARIK gerði tillögur um á sínum tíma mætti tryggja eðlilega jöfnun á raforkuverði um land allt og koma í veg fyrir hallarekstur fyrirtækisins. Það hefur enn ekki verið gerð gangskör að því að leysa þennan vanda þrátt fyrir yfirlýsingar þar um. Þar sem hins vegar er ljóst að verðjöfnunargjaldið er mikill þáttur í tekjum Rafmagnsveitna ríkisins og reyndar Orkubús Vestfjarða og lagaheimildir vegna núverandi verðjöfnunargjalds renna út eftir örfáa daga viljum við ekki stefna fjárhag þessara fyrirtækja í hættu. Við sitjum þess vegna hjá við afgreiðslu þessa máls.

Við vildum hins vegar með sérstöku nál. vekja athygli á þessu máli — vek ja athygli á að þessi vandi er óleystur og því miður eru ekki uppi nægilegir tilburðir enn til að leysa hann. Þessum vanda er velt áfram til framtíðarinnar og greinilega ætlað öðrum að fjalla um hann.