25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

101. mál, frestun byggingaframkvæmda við Seðlabanka Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Mig langar til að rifja upp það sem mér finnst vera kjarni þessa máls og rúmaðist prýðilega í ummælum hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, þegar rædd var þáltill. um stöðvun þessara byggingarframkvæmda. Hún sagði:

„Það kemur dálítið spánskt fyrir sjónir þegar þeir litlu peningar sem virðast vera til eru notaðir til að byggja yfir peninga sem ekki eru til.“ — Þetta er kjarni málsins.

Frv. til l. sem hér liggur fyrir er flutt í framhaldi af þeirri þáltill. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir flutti og tekin var til umr. í Sþ. 2. nóv. s.l. Þá var þeim mótbárum hreyft, að þáltill. dygði ekki til til þess að koma fram þessu máli, það þyrfti lagabreytingu til. Nú er hv. alþm. gefinn kostur á að fylgja málinu eftir með því að samþykkja það lagafrv. sem hér liggur fyrir.

Þá segir hæstv. viðskrh., eftir að hafa hælt 1. flm. fyrir skýrleik í hugsun í 1. gr., að ekki dugi þetta nú heldur til vegna þess að féð sem tekið yrði úr umferð við þessar byggingarframkvæmdir væri ekkert endilega til ráðstöfunar til annarra hluta. Þetta er tilefni þess að ég kveð mér hljóðs, vegna þess að kannske þarf meira til en að Alþingi samþykki lög um stöðvun á þessum framkvæmdum.

Við umr. sem urðu á þingi um sölu ríkisbanka bar það til tíðinda að hæstv. fjmrh. lýsti í fáum orðum yfir stuðningi við það þingmál BJ að svo sem eins og þrír ríkisbankar yrðu seldir á almennum markaði, þó mætti enginn kaupa fleiri en einn banka, eins og þar stendur. Þá lýsti hann því einnig yfir í sömu andránni að það bæri til á degi hverjum að Seðlabankinn bryti lög, og átti þá við refsivaxtaákvarðanir Seðlabankans. Þetta hefði í öðrum löndum þótt miklum tíðindum sæta, en þótti lítil frétt í þessu þjóðfélagi með þeim skýringum fréttamanna, að af því Albert segði það væri þetta ekki forsíðufrétt eða heimsfrétt. En í þessum umr. bar það til tíðinda, að hæstv. fjmrh. lýsti fylgi sínu við till. þess efnis, að hagnaður Seðlabanka yrði með lögum af honum tekinn og afhentur ríkissjóði, og fór reyndar fleiri orðum um, ef ég man rétt. Hann komst að orði eitthvað á þá leið, að sér væri engin leið að hafa nokkur tök á stjórn ríkisfjármála í landinu, eins og því kerfi væri fyrir komið, og vísaði þá til þess stjórnlausa sjóðakerfis sem er út um allar trissur og um leið að hann teldi það mjög í þágu réttrar fjármálastjórnar að hagnaður Seðlabankans yrði með lögum af honum tekinn og skilað ríkissjóði, svo sem fordæmi munu vera fyrir annars staðar.

Ég rifja þetta upp vegna þess að ef hæstv. viðskrh. segir hægt með lögum að stöðva þessar framkvæmdir, en þessu fé verði þar fyrir ekki á annan veg ráðstafað, þá mætti kannske fylgja þessu eftir með því að taka fjmrh. á orðinu og flytja annað frv. til l. um ráðstöfun á hagnaði Seðlabankans. Ég vil vekja athygli á að ég er ansi hræddur um að bréfaskriftir til bankanna dugi lítið í þessu efni. Það er t.d. af þeirri ástæðu, að við fyrrgreindar umr. um stöðvun framkvæmda á byggingu Seðlabankans var það upplýst af fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ragnari Arnalds, 3. þm. Norðurl. v., að í tíð fyrrv. ríkisstj. hefði verið gerð samþykkt um frestun þessarar byggingar. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég er því miður ekki með skjölin fyrir framan mig, fundargerðir ríkisstj. og aðrar skjallegar heimildir um ályktanir hennar, en ég hygg að ég fari með rétt mál þegar ég upplýsi hér, að ríkisstj. samþykkti á sínum tíma að beita sér fyrir því að frestað yrði þessari stórbyggingu.“

Það liggur m.ö.o. fyrir að ekki er nóg að flytja þáltill., það er kannske ekki nóg að flytja frv. til l., það er ekki nóg að ríkisstj. samþykki á fundi sínum, eftir því sem hér segir, einróma ákvörðun um að fresta byggingu, það þarf sennilega viðbótarlöggjöf um ráðstöfun á hagnaði Seðlabankans. Við þessar kringumstæður þykir mér afar ósennilegt að bréfaskipti ein dugi til að koma fram vilja löggjafans í þessu máli.