25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

101. mál, frestun byggingaframkvæmda við Seðlabanka Íslands

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Ég er nú alveg undrandi á hæstv. viðskrh. og því sem hann hélt hér fram. Hann leyfir sér að halda því fram að allt það sem sagt er í 1. mgr. 1. gr. sé tekið til baka í 2. mgr. Hvers konar málflutningur er hér eiginlega á ferðinni af hálfu hæstv. ráðh.? Ég hef ekki kynnst af hans hálfu málflutningi af þessu tagi fyrr. Ég hef talið hæstv. viðskrh. einn af þeim — allt of fáu að vísu — sem stunda heiðarlegan málflutning og greina rétt frá. En í ljósi síðustu orða hans um túlkun á frv. dreg ég í efa fyrri ályktun mína. (Gripið fram í: Hverjir eru þá eftir sem fylla þann flokk?) Já, það er nú eftir að finna það. Í hvaða átt á ég að líta?

En ég held að það sé rétt, með leyfi forseta, að lesa 1. gr. aftur, þannig að hæstv. viðskrh. geti áttað sig betur: „Framkvæmdir við hús Seðlabanka Íslands við Ingólfsstræti í Reykjavík skulu stöðvaðar frá og með gildistöku laga þessara. Sama gildir um aðrar byggingarframkvæmdir á vegum ríkisbanka og stofnun útibúa á þeirra vegum.“

Þetta er ljóst. Síðan segir áfram í 2. mgr.:

Ríkisstj. getur þó heimilað framangreindum aðilum að halda áfram framkvæmdum samkv. þegar gerðum verksamningum, sé ótvírætt að riftun eða breyting verksamninga vegna laga þessara leiði til verulegra bótagreiðslna til verktaka.“

Hér er verið að slá þann-varnagla, að sé búið að gera, í þessu tilfelli varðandi byggingu Seðlabankans, samninga við verktaka verði unnið áfram fyrir þá samninga sem búið er að skrifa undir. Við viljum alls ekki ganga svo langt að rifta samningum. Það má vel vera að ýmsir vildu gera það og þeir sem það vildu hafa nokkur rök til síns máls. Það er að þeirra atbeina, núv. hæstv. ríkisstj. og hæstv. viðskrh., engin undantekning þar frá, búið að skerða laun fólks í landinu um nokkur hundruð eða milljarða nú orðið, frá því sem samningar og lög gerðu ráð fyrir þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. Menn voru ekkert feimnir við það í þessu tilviki að taka það sem fólk átti rétt á. Ég sé ekki að menn þurfi neitt frekar að vera feimnir við að skera á hjá þeim aðilum sem hér er rætt frekar en hjá almenningi í landinu.

Ég greindi frá því áðan, að gert væri ráð fyrir að Seðlabankinn, að eigin frásögn, ætti eftir að byggja fyrir a.m.k. 150 millj. kr. Það er þó nokkur peningur, sem nýta mætti til annarra og þarfari hluta. Hér er því ekkert verið að draga til baka í 2. mgr. 1. gr. það sem sagt er í hinni 1. Það er rangtúlkun og vísvitandi gerð til að reyna að blekkja. Málið er gott. Hæstv. viðskrh. er innst inni sammála því að þetta er rétt að gera, en hann notar tækifærið til þess vísvitandi að beita blekkingum í málflutningi þegar svo ljóst er sem verða má, og hann tók sjálfur fram margoft að ég hygg í sinni fyrstu ræðu, hvað málið er skýrt. Þess vegna er málflutningi af þessu tagi beitt til að reyna að blekkja. En það er ekki siðaðra manna háttur að beita slíkum málflutningi og ég hefði vænst þess að hann kæmi úr annarri átt en frá hæstv. viðskrh. En ekki meira um það. Ég vísa þessari rangtúlkun á málflutningi gersamlega á bug og heim til föðurhúsa.

Það er ekki oft sem mönnum verður orðs vant, en það liggur við að svo sé eftir ræðu hv. 7. þm. Reykv. Í raun og veru er ég enn í vafa um á hvern hátt á hana að taka. Slíku lofi hef ég ekki verið ausinn, hvorki fyrr né síðar, eins og hann viðhafði hér í ræðustól áðan, (Gripið fram í.) þannig að ég er feiminn — já, ég viðurkenni það, — að fá þetta úr þeirri átt. Ég viðurkenni það hreinlega. (Gripið fram í.) Nei, ég ætla ekki að gera það að sinni, ég bíð og læt sjá hvað kann að gerast í áframhaldinu. En ég vil aðeins bæta því við að því aðeins veit maður um afstöðu, hvort sem þar eiga í hlut hv. þm. Alþb. eða einhverjir aðrir, að menn láti í sér heyra fyrr en þá kemur að atkvgr. þannig að það var ekki að ófyrirsynju að ég er í raun og veru óskaði eftir að fá hér í umr. afstöðu þm. Alþb. til málsins. Og sú er ástæðan.

Það kemur líka úr hörðustu átt og er afskaplega erfitt hvernig maður á að taka það, ekki síst frá þessum hv. þm., þegar hann er að tala um að við í stjórnarandstöðu eigum ekki að vera að skamma hvorn annan. Ég er ekki hissa þótt þingheimur hlæi því að ég minnist þess ekki að hafa hlýtt á framsetningu og orðaval sem er jafnlangt frá raunveruleikanum eins og við á eða ætti hjá þessum hv. þm. Ég veit ekki hver hefur gengið lengra í slíku en einmitt þessi hv. þm. og ég kann vel að meta að menn komi hreint fram og segi ef þeir meina það og sé ekki að það sé á nokkurn hátt löstur þó að menn deili málefnalega, síður en svo. Ég kann yfirleitt betur við að vita hvar ég hef menn.

En það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari, að ég hef ekki enn áttað mig á vinnubrögðum Alþb. í stjórnarandstöðu í ljósi þeirra vinnubragða sem sami aðili hafði í stjórnaraðstöðu. Það er erfitt að átta sig á frá því sem var fyrri hluta þessa árs til þess sem nú er síðari hluta þessa árs því að mér sýnist að þar hafi orðið á æði mikil breyting í afstöðu til mála. Og það lái mér hver sem vill þó að það taki sinn tíma fyrir mig að átta mig á slíkri breytingu. (Viðskrh.: Það kemur.) Vonandi kemur það og það er smátt og smátt að koma, maður sér raunveruleikann bara hér fyrir sér meira og minna dag frá degi hvernig breytingin á sér stað og þróast. Sumir kjósa í þessari stöðu að hún þróist hægt, þannig að umskiptin séu ekki of mikil frá því sem var til þess sem er, almenningur í landinu finni ekki jafnharkalega fyrir sinnaskiptunum, að þau gerist ekki á stuttum tíma, heldur sé þetta hægfarandi og markviss þjóðfélagsfræðileg þróun sem hér á hlut að máli.

(Viðskrh.: Ekki bylting?) Ekki bylting, nei. (ÓÞÞ: Samin af stjórnmálafræðingi.) En ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð. Ég fer jafnfeiminn úr stólnum nú eins og ég steig í hann, þegar ég fór hér upp í þriðja skiptið, en vonandi næ ég mér eftir það.