28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

47. mál, frestun á greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra fsp. sem hv. 2. þm. Austurl. bar fram hér get ég sagt sem svar við þeirri fyrri að ég hef ekki hér þær tölur. En það er sjálfsagt að útvega þær handa þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar svo að þær upplýsingar sem óskað var eftir komist til þm.

Varðandi bankakerfið og hvort ég væri sammála því sem hæstv. félmrh. sagði í þeim efnum get ég sagt að ég gerði mitt til þess að reyna að lagfæra þá agnúa sem komu fram á þessu máli þegar unnið var að því. Ég held hins vegar að eins og ævinlega séu gagnrýnisraddirnar eignaðar of stórum hluta þeirra sem fyrirgreiðslu njóta. Auðvitað geta þær átt rætur að rekja til þess að það eru einhverjir hnökrar á því fyrirkomulagi sem menn vildu gjarnan koma á, eða þá hins að viðkomandi hafa e.t.v. ekki fallið undir það fyrirkomulag sem um var að ræða. Þegar þessum umkvörtunum var komið til skila held ég að fengist hafi leiðréttingar á þessum málum. Um nokkuð langan tíma hef ég a.m.k. ekki orðið var við að þær umkvartanir sem upphaflega voru settar fram hafi heyrst í sambandi við þetta. Og ég hef skilið það svo að það hafi komist í þann farveg sem ætlast var til í upphafi. Í framhaldi af þessu er hins vegar rétt að sú nefnd sem fær þetta til meðferðar kalli fyrir sig einhverja þá aðila sem eru í forsvari fyrir banka og sparisjóði og fái að heyra skoðanir þeirra á því hvernig með þessi mál hafi verið farið.