28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

83. mál, lögræðislög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki þá dul að ræða þetta frv. nú eða einstakar greinar þess. Ég er svo sannfærður um það, að hér er í flestu mjög til framfara stefnt og mannúðarsjónarmið ráða hér enn frekar en í gildandi lögum. Ég get þó ekki stillt mig um, við þessa 1. umr., að lesa hér upp grg. sem ég bað félagið Geðhjálp, sem er félag aðstandenda geðsjúkra og geðsjúkra, að semja um þetta frv. Vona ég að hv. þingnefnd taki þetta erindi til athugunar, enda hefur bæði hæstv. dómsmrh. og ýmsum hv. þm. verið send þessi grg. Hún er ekki löng og ég leyfi mér að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Félagið Geðhjálp fagnar frv. til lögræðislaga sem nú er borið fram á Alþingi. Það er álit félagsins að þetta frv. sé skref í þá átt að bæta hag þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Er þar helst til að nefna þar sem í III. kafla frv. segir að í neyðartilfellum megi skerða frelsi einstaklinga í allt að tvo sólarhringa án þess að til komi sviptingarbeiðni eða samþykki dómsmrn. Með samþykki dómsmrn. og að mati læknis má svo vista einstakling í allt að hálfan mánuð á stofnun án formlegrar sviptingarbeiðni. Eftir það þarf sviptingarbeiðni og e.t.v. dóm í máli viðkomandi einstaklings.

Að mati Geðhjálpar er síðastnefnda tveggja vikna reglan framför frá gömlu lögunum að því leyti að nú ætti að vera auðveldara en áður að veita framangreinda vistun án þess að til þurfi að koma beiðni um lögræðissviptingu. Reynsla hérlendis og erlendis frá hefur oftlega sýnt að beiðni um lögræðissviptingu og ekki síst formlegur dómur í slíku máli er mjög alvarleg stimplun og getur valdið viðkomandi einstaklingi margs konar óþægindum og andlegum erfiðleikum. Dómar um fjárræðissviptingu eru birtir alþjóð í Lögbirtingablaði svipað og þegar fólk var hýtt opinberlega áður fyrr. Geðhjálp leggur því til að það ákvæði verði fellt niður.

Aðalathugasemd Geðhjálpar við þetta frv. er í sambandi við hvernig staðið skuli að úrskurði um vistun einstaklings, sem dvelst á stofnun gegn vilja sínum, og sömuleiðis að leggja beri fram sjálfkrafa sviptingarbeiðni strax eftir nefnda 14 daga, ef nauðsyn þykir á lengri vistun.

Í 17. gr. frv. er talað um trúnaðarlækni á vegum dómsmrn., þar sem rn. getur leitað umsagnar áður en það veitir heimild til vistunar. Yfirlæknir á viðkomandi deild ber svo ábyrgð á útskrift viðkomandi einstaklings. Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir sem allra flestar beiðnir og dóma um lögræðissviptingu kemur Geðhjálp með eftirfarandi brtt. við 17. gr. frv.:

Stofnuð skal fjögurra manna nefnd með jafnmörgum varamönnum. Í nefndinni skulu eiga sæti einn lögfræðingur, einn læknir, einn sálfræðingur og einn aðstandandi skjólstæðings eða einn skjólstæðingur.

Nefndinni berast allar beiðnir um vistun á sjúkrahúsi sem vara lengur en tvo sólarhringa. Nefndin er dómsaðili sem ákvarðar hvort þörf er á beiðni um lögræðissviptingu. Nefndin skal úrskurða málið innan viku frá því að henni berst það í hendur. Í sérstökum tilvikum getur nefndin gefið leyfi til að framlengja vistun á stofnun um eina viku umfram þá 14 daga sem nefndir eru í 19. gr. frv. Slíkt yrði þá fyrst og fremst gert til að komast hjá beiðni um lögræðissviptingu.

Skal nefndinni búin starfsaðstaða og henni jafnframt tryggður aðgangur að þeirri sérfræðiþjónustu sem þurfa þykir til að leysa þau verkefni sem nefndinni berast.

Öllum málum er varða vistun og mögulega beiðni um lögræðissviptingu skal vísa tafarlaust til landlæknis. Hann skal tafarlaust leggja málið undir úrskurð fyrrgreindrar nefndar. Nefndinni ber að hafa að leiðarljósi hagsmuni og velferð þess einstaklings sem fjallað er um hverju sinni. Ef ágreiningur rís er hægt að senda úrskurð nefndarinnar til almennra dómstóla og skal þá fara með málið sem einkamál.“

Eins og till. ber með sér er til þess ætlast að nefndin reyni í lengstu lög að forðast að til lögræðissviptingar komi og eins að nefndin komi strax til skjalanna þegar nauðsynlegt hefur reynst að skerða frelsi einstaklings, eða eins og segir í 13. gr.: „ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna.“ Í undantekningartilvikum getur vikufrestur umfram þá 14 sólarhringa sem nefndir eru í 19. gr. komið í veg fyrir að gefa þurfi út slíka beiðni.

Slík nefnd hefur að öllu jöfnu betri möguleika til að kynna sér mál viðkomandi einstaklings og meta þau en einn læknir hefði. Læknirinn í nefndinni gæti komið í stað trúnaðarlæknis sem nefndur er í 17. gr. frv. Ástæðan til þess að lagt er til að hafa lögfræðing með í nefndinni er sú, að slík mál hafa ýmsar lögfræðilegar hliðar. Nauðsynlegt er að hafa lögfræðing með í ráðum ef nefndin á að mestu leyti að taka við hlutverki dómskerfisins í þessum málum. Seta sálfræðings í nefndinni á að tryggja að lögð verði áhersla á sálfræðilegar og félagsfræðilegar hliðar í sambandi við nauðungarinnlögn og mat á beiðnum um lögræðissviptingu. Einnig er mikilvægt að reynsla aðstandenda eða skjólstæðings sé til staðar í slíkri nefnd, einstaklinga sem þekkja ýmsar hliðar þessara mála af eigin reynd.

Með því að vísa málinu til landlæknis er verið að beina þessum málum meira inn í farveg heilbrigðisþjónustunnar, félagslegrar, sálfræðilegrar og læknisfræðilegrar, þessi mál eru þannig beinni hluti af heilbrigðisþjónustunni en verið hefur. Þetta tengist jafnframt hugmyndum Geðhjálpar um að bæta þá þjónustu sem einstaklingar í kreppu eiga völ á og að slík þjónusta sé sem mest fyrir utan hinar stóru stofnanir.

Með tilliti til starfa slíkrar nefndar má vísa til jákvæðrar reynslu af þriggja manna nefnd er fjallar um ágreining sem rís um það hvort framkvæma skuli fóstureyðingar eða ófrjósemisaðgerðir. samtöl við nefndarmenn hafa leitt í ljós góða samvinnu í nefndinni og að hagsmunir skjólstæðingsins hafa verið hafðir að leiðarljósi.

Síðan segir með leyfi forseta um geðheilbrigðisþjónustuna úti í samfélagi, sem ég skal ekki fara náið út í: „Þrátt fyrir að frv. til lögræðislaga sé framfaraspor í málefnum þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða, þá skortir mjög á þjónustu er miðar að því að leysa vandamálin þar sem þau eiga sér stað úti í samfélaginu.

Í 19. gr. laga um heilbrigðisþjónustu frá 1983 er kveðið á um að á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana skuli veita m.a. geðverndarþjónustu, fjölskyldu- eða foreldraráðgjöf.

Í lögum og reglugerðum eru þannig til ákvæði um geðheilbrigðisþjónustu sem í reynd er alls ekki til eða í mjög litlum mæli til staðar. Bæði lög og reglugerðir urðu til vegna mjög raunverulegra þarfa á slíkri þjónustu og er því mjög mikilvægt að fylgja þessu máli mjög eftir.“

Ég hirði ekki um að lesa frekar úr þeim eftirmála sem félagið Geðhjálp sendir frá sér um þetta. Vissulega er það til athugunar en snertir ekki þessi lög sérstaklega, heldur miklu fremur kannske lögin um heilbrigðisþjónustu, hvernig þau eru framkvæmd. Ég mælist til að þessar tillögur verði athugaðar í hv. þingnefnd sem fær þessi mál til meðferðar og þar verði komið til móts við þetta félag, sem hefur unnið mikið og gott verk fyrir skjólstæðinga sína frá því að það var stofnað, eins mikið og frekast þykir fært.