28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég legg hér fram stjfrv. til l. um Lífeyrissjóð bænda á þskj. 142.

Í sept. 1982 skipaði fjmrh. nefnd til að fjalla um endurskoðun á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Skyldi nefndin sérstaklega gera tillögur til breytinga á þeim reglum er fjalla um lífeyrisrétt hjóna og sambúðarfólks. Í nefndinni áttu sæti þeir Árni Kolbeinsson, Bjarni Þórðarson, Guðjón Hansen og Gunnar Guðbjartsson.

Tilefnið að skipun nefndarinnar var umfjöllun kjörmannafunda, aðalfundar og stjórnar Stéttarsambands bænda á árinu 1981 um breytingar á lífeyrissjóðslögunum. Samþykkti aðalfundur Stéttarsambandsins á árinu 1981 ályktun um þetta efni og hinn 5. nóv. það ár samþykkti stjórn sambandsins ályktun mjög svipaðs efnis. Í þessum ályktunum er talað um að þrjú atriði laganna þarfnist endurskoðunar eða nánari könnunar.

Í fyrsta lagi skuli mökum bænda tryggð sjálfstæð aðild að sjóðnum, þannig að lífeyrisréttur hjóna verði jafn. Í öðru lagi þurfi að kanna möguleika á skylduaðild launþega í landbúnaði að sjóðnum. Í þriðja lagi verði athugað hvort tímabært sé að lækka aldursmarkið til töku lífeyris úr sjóðnum.

Nefndin fjallaði um öll þau atriði í lögum um Lífeyrissjóð bænda sem að framan getur. Ljóst varð og að ýmis önnur atriði laganna þörfnuðust endurskoðunar vegna breyttra aðstæðna og breyttrar almennrar löggjafar um lífeyrismál. Varð niðurstaðan sú í nefndinni að stefnt skyldi að heildarendurskoðun laganna. Skilaði nefndin tillögum sínum í júlímánuði 1983 og er frv. þetta byggt á þeim.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að fylgja þessu frv. úr hlaði með lengri ræðu þar sem aths., sem fram koma með frv., gefa greinargott yfirlit yfir málið í heild. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. landbn. og 2. umr.