28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa fylgi mínu við meginefni þessa frv. Þar eru þó mörg atriði sem að sjálfsögðu ber að athuga í nefnd. Þar á ég sæti og mun því nú aðeins segja fáein orð.

Ég leitaði til þess aðila sem er kannske nákunnugastur framkvæmd núgildandi laga og hefur kynnt sér gerla þessar breytingar. Ég veit að hann er nákunnugur og sáttur við meginatriði þessa frv., en bendir þó á þetta sem ég hygg að rétt sé að nefndin hugi sér í lagi að. Með leyfi hæstv. forseta segir svo í bréfi hans:

„Gert er ráð fyrir að skipta öllum iðgjöldum að jöfnu milli hjóna, en áður fóru þau inn á það hjónanna sem skráð var fyrir lögbýlinu. Vinningur við þessa breytingu er að nú eru bæði sjóðfélagar og njóta sjálfstæðs ellilífeyris og makalífeyris við fráfall maka. Hins vegar tapa þeir makar sem áður hefðu fengið fullan makalífeyri. Þeir fá nú aðeins af hálfu iðgjaldi.

Ég get nefnt dæmi um ungar ekkjur, sem nú njóta hárra bóta úr sjóðnum og hafa geta haldið búskap áfram með börnum sínum þó búskapur hafi dregist saman. Hins vegar eftir breytinguna njóta bændurnir makalífeyris eftir fráfall eiginkvenna, en að sjálfsögðu af hálfu framlagi.

Þá má benda á að ef um miseldri er að ræða, bóndinn t.d. 10 árum eldri, sem ekki er óalgengt, þá fá þeir eftir breytingu eftirlaun frá 67 ára aldri eingöngu vegna þeirra stiga sem inn á þá hafa farið. Konan þarf að bíða með töku vegna síns hluta til 67 ára aldurs einnig. Það má segja að ef um miseldri er að ræða á hinn veginn, þá kemur það plúsmegin en það er mun óalgengara.

Þá verður gert ráð fyrir að taka af framleiðslu upp að tvöföldu vísitölubúi eftir breytingu, en var áður af 11/2 búi hjá hjónum, hjá einstaklingi af einu búi. Þessi breyting mildar fyrsta atriðið, sem ég benti á, en á aðeins við hjá stóru búi. Við athugun sem gerð hefur verið um skiptingu iðgjalda eftir bústærð, vegna þess að hér er talað um að þetta komi einungis til hjá þeim búum sem stærri eru, þá hefur komið í ljós að um 800 bú greiða af 11/2 vísitölubúi, um 1150 af 1–11/2 vísitölubúi, eða um 1950 bú sem framleiða af einu vísitölubúi og meira. Um 1000 bú framleiða frá 280 ærgildum til 440 ærgilda, á um 900 búum er framleitt frá 120 til 280 ærgilda og um 800 bú — ég undirstrika þá tölu — eru með frá 1 til 120 ærgilda. Þessar upplýsingar sýna að nokkru hvernig landbúnaðarframleiðslan skiptist á framleiðendur í landinu, en þessar tölur eru unnar upp úr iðgjaldaskránni.“

Ég taldi rétt að koma þessum ábendingum á framfæri frá Stefáni Pálssyni, sem er forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins og sér auk þess um greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda. Ég taldi rétt að koma því hér á framfæri og veit að hann og aðrir forsvarsmenn Lífeyrissjóðs bænda munu að sjálfsögðu gefa landbn. fyllri upplýsingar þegar þar að kemur.