28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki nema gott eitt um þetta frv. að segja. Hins vegar kemur það alltaf upp í huga mér þegar fjallað er um málefni af þessu tagi, sem tengjast bændastéttinni, að ég fæ aldrei svar við þeirri spurningu þegar fjallað er um réttindamál bænda eins og lífeyrismálin, hvort bændur eru í þeim tilvikum launþegar eða atvinnurekendur. Ég hef einhvern veginn orðið var við það, að því sé hagrætt einhvern veginn eftir hendinni, þeir séu atvinnurekendur þegar það er heppilegt en launþegar þegar það er heppilegt. Það væri gaman að spyrja hæstv. fjmrh. hvort bændur væru í þessu tilviki atvinnurekendur eða launþegar, hvort lífeyrissjóðurinn væri fyrir launþega eða atvinnurekendur. Ég vildi óska eftir því að hæstv. fjmrh. svaraði þessu.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta breytti einhverju um þann kostnað sem ríkissjóður hefur af afleysingaþjónustu bænda. Ef þeir fá þarna sérstakan lífeyrissjóð hlýtur það að verða mjög gild spurning hvort það sé réttmætt gagnvart öðrum þjóðfélagshópum að bændur hafi sérstaka afleysingaþjónustu, sem ríkið leggur til milljónir á hverju ári. Ég vildi gjarnan fá svör við þessum spurningum.