28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ástæðurnar fyrir þessum spurningum eru ákaflega einfaldar og auðskildar. Ég hélt að það ætti ekkert að fara á milli mála hvað verið er að spyrja um hér. Það liggur í fyrsta lagi ljóst fyrir að greiðslum atvinnurekenda til lífeyrissjóða er öðruvísi háttað en greiðslum launþega.

Í öðru lagi: Þegar málið um afleysingaþjónustu bænda var hér til umr. á Alþingi var m.a. rætt um það sem forsendu þess að hún yrði tekin upp að bændur hefðu svo litlar og lélegar tryggingar almennt. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðh., í þessu tilviki bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh., hvort þeir líti svo á að bændur eigi, hafandi fengið þessar lífeyristryggingar, þar sem í þessu tilviki er aðallega um makaréttinn að ræða, að hafa umfram aðrar stéttir í þjóðfélaginu afleysingaþjónustu, sem ríkið greiðir, að ríkið leggi fram fjármuni til afleysingaþjónustu fyrir bændur og hvort það gæti þá gilt um fólk í öðrum stéttum, sem þyrfti að komast úr landi og teldi sig ekki hafa aðstæður til þess, eins og atvinnurekendur í stórfyrirtækjum, hvort þeir gætu fengið einhverja afleysingaþjónustu. Mér finnst það vera afskaplega einfalt.