28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég hika ekkert við að koma hingað og staðfesta það að ég hafi sagt að bændur væru atvinnurekendur. Ég held að það fari ekkert á milli mála að landbúnaður er atvinnurekstur. Og við vitum það að búrekstur á einu býli er orðinn allumfangsmikill. Það þarf ýmislegt til og bóndinn ber alla ábyrgð á þeim búrekstri sem þar fer fram. Hins vegar er staða þeirra kannske nokkuð öðruvísi en annarra atvinnurekenda. Það er orðið mjög fátítt eða tiltölulega lítið um það að þeir hafi fólk í vinnu utan sinnar fjölskyldu. Þetta er sem sagt fjölskylduvinna fyrst og fremst sem fer fram á búunum.

En það er kannske öllu erfiðara fyrir mig að svara því sem hv. síðasti ræðumaður spurði um. Ég man nú ekki nákvæmlega hvernig hann orðaði það, eitthvað á þá leið hvort mér fyndist eðlilegt að bændur hefðu afleysingaþjónustu til þess að komast úr landi eða ríkið greiddi afleysingaþjónustu til þess að bændur kæmust úr landi. (ÁG: Nei, gætu tekið sér frí.) Gætu tekið sér frí. Það er auðséð að hv. þm. hefur ekki hugmynd um hvað hann er að tala um. Bændur fá því aðeins afleysingamann að þeir hafi læknisvottorð um að þeir séu veikir og það er satt að segja alveg nýtt að heyra það frá þm. Alþfl. að þegar maður verður veikur, þá sé hann að taka sér frí. Á þessum grundvelli verð ég að viðurkenna að það er ákaflega erfitt fyrir mig að svara.

(ÁG: Það var spurningin, hæstv. ráðh., hvort ráðh. teldi eðlilegt að þessir fjármunir kæmu úr ríkissjóði.) Já, úr ríkissjóði til þess að bændur tækju sér frí. En það fjármagn sem kemur til forfallaþjónustu bænda er eingöngu veitt til þess að bændur geti fengið mann þegar þeir verða veikir. Og það kallar þm. Alþfl. að taka sér frí. Þetta er svo ólíkt þeim hugsunarhætti sem við eigum að venjast að ég skil satt að segja ekki þessa röksemdafærslu.

En hitt er annað mál, að forfallaþjónustunni var komið á fót þegar samþykkt var að launþegar gæfu eftir 3% af sínum tekjum. Og það er bundið í lögum um afurðaverð frá bændum að þeir hafi svipuð laun og ákveðinn hópur launþega. (Gripið fram í.) Já, já og þá var þetta tekið upp til þess að koma þarna á móti og búvöruverðið þá þar af leiðandi samkv. lagaákvörðunum sem þessu nam lægra. Ef þetta yrði afnumið mundi þessi liður vitanlega koma inn í búvöruverðið sem útgjaldaliður, ef þannig yrði komið á tryggingu meðal bænda. Og í sjálfu sér kannske skiptir það ekki höfuðmáli fyrir bændur, en þetta er ein af þeim ráðstöfunum sem hafa verið gerðar til þess að halda niðri verðlagi í landinu, og eins og hv. 2. þm. Austurl. benti á varð það að samkomulagi hjá þeirri ríkisstj. sem Alþfl. stóð að að svona skyldi að málum staðið. En það er allt önnur saga heldur en það, hvort ríkið sé að greiða fyrir því að bændur taki sér frí, í þeim skilningi sem ég hélt að flestir hv. alþm. legðu í það orð.