28.11.1983
Efri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Það er líklega rétt að þegar þessari spurningu var beint til mín svaraði ég henni ekki. Ég held að ég svari spurningunni þannig að mér finnst ekkert óeðlilegt að ríkissjóður borgi afleysingar í veikindafríi bænda umfram aðra atvinnurekendur. Ég er t.d. sem atvinnurekandi með þó nokkuð marga í vinnu, nokkur hundruð manns í vinnu, áður en ég varð ráðh., bæði hjá Hafskip og Tollvörugeymslunni og eigin fyrirtækjum. Ég held að það hafi ekkert gert til þó t.d. ég eða einhverjir aðrir forstjórar fyrirtækis hafi verið veikir í nokkra daga eða jafnvel þó nokkur hluti af starfsfólki í einu. Það hefði út af fyrir sig ekkert skeð. En ef bóndi er veikur og það álag sem umhirða á skepnum kallar yfir hann sjálfan og hans starfslið þyrfti að lenda kannske á eiginkonu eða ungum börnum, þá tel ég með það í huga ekkert óeðlilegt að ríkisvaldið hlaupi undir bagga með bóndanum, þó ekki væri nema til að halda í eðlilegu horfi rekstri býlisins.