28.11.1983
Neðri deild: 18. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

14. mál, verslunaratvinna

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég hef nú ekki mikið um þetta hugarfóstur Alþb. að segja annað en það, að þeir eru við sama heygarðshornið. Þeir hafa áður haft allt á hornum sér þegar innflutningsverslun eða frjálsir atvinnurekendur almennt eru annars vegar.

Ég stend hér upp meira til að verja samvinnuhreyfinguna. (Gripið fram í: Þú ert í æfingu.) Ég er í góðri æfingu, ég er úr Samvinnuskólanum. En ég hef aldrei verið erindreki samvinnuhreyfingarinnar. Það hafa ýmsir aðrir verið, t.d. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson.

Ég ætla ekki að fara að tala um þá óheiðarlegu menn sem virðast stunda innflutningsverslun og standa utan við samvinnuhreyfinguna og kannske Alþb. líka. Það er svo sem hugsanlegt að það séu til innflytjendur og frjálsir atvinnurekendur innan Alþb., illu heilli. En hugsið ykkur, hér í þessu frv. og í málflutningi er fullyrt, án þess að nokkur sönnun sé fyrir því, að innflytjendur bæti þóknun á vöruverð erlendis til að fá hærri álagningu en leyfileg er hér innanlands. Hvað þá með samvinnuhreyfinguna sem hefur engan millilið á neinu stigi? Hún gerir sameiginleg innkaup í gríðarlegu magni með erlendum samvinnuhreyfingum, flytur þetta hingað heim í eigin skipum, skipar því upp með eigin mannskap, geymir það í eigin pakkhúsum, tryggir það hjá eigin vátryggingarfélögum og heldur svo áfram, eins og ég sagði hér áður þegar ég tók til máls í þessu máli. þar til þeir éta það loks sjálfir. Varan fer bókstaflega aldrei út fyrir SÍS-hringinn, enginn milliliðakostnaður neins staðar, hafa meira að segja eigin hafnarmannvirki nú hér í Reykjavík og engan tilflutning úr vörugeymslum inn í markaðinn. (Gripið fram í: Og eigin ráðgjafa?) Og eigin ráðgjafa líka, þannig að þessar ásakanir á hinn frjálsa innflytjanda, sem selur þó sína vöru ekki dýrar en samvinnuhreyfingin gerir almennt, lít ég á sem ásakanir á samvinnuhreyfinguna. Hvernig í ósköpunum stendur á því að vöruverð hjá samvinnuhreyfingunni hefur ekki verið miklu, miklu lægra en hjá þessum vondu kaupmönnum, sem alltaf er verið að tala um hér, sem hafa milliliðagróða á öllum stigum, sem enda með því að leggja hæstu álagningarprósentu á ekki bara vöruverð heldur uppsafnaðan milliliðagróða, en eru þó samkeppnisfærir við samvinnuhreyfinguna í smásölu?

Ég mótmæli því að Alþb. geti á þennan hátt ráðist á samvinnuhreyfinguna blessaða, burtséð frá kaupmanninum. Ég læt hann alveg eiga sig. En ég er hér að verja samvinnuhreyfinguna gegn þeim ásökunum sem koma fram í öllum málflutningi Alþb.-manna. Þetta er ljótt af ykkur. Þið eruð vondir strákar. En þið hafið gaman af svona mátum. Þið hafið greinilega gaman af svona málum sem eiga að draga athygli frá algeru getuleysi ykkar og málefnaskorti hér á Alþingi. Þið sitjið hér sem stjórnarandstöðuflokkur en ekkert nýtt hefur komið frá ykkur. Þið hafið í tvo daga tafið Alþingi með málflutningi sem skiptir engu máli. Og hér kemur frv., sem er ekki nýtt af nálinni og á enn þá einu sinni að hjálpa Alþb. til að draga athygli frá því að hann er útbrunninn sem pólitískur flokkur, mál sem er útrætt og afgreitt, ekki bara hér á Alþingi í umræðum heldur líka með aðgerðaleysi viðskrh. Alþb., þegar hann hafði í sínum höndum að koma þessu máli í gegn með sínum samráðherrum og samfylgdarmönnum í ríkisstj.

Sem sagt, málið er bara lagt fram til að draga athygli fólks að einhverjum umsvifum Alþb. á Alþingi, en málefnafátæktin er svo mikil að þeir gátu ekki einu sinni komið með eitthvað nýtt, sem ekki er gatslitið í umr. hér á Alþingi. Nei, ég held að þeir óheiðarlegu viðskiptahættir sem margoft er talað um hjá hinum frjálsa atvinnurekanda eigi ekki við rök að styðjast. Ég skal ekkert um það segja hvort undantekningar eru til, það er hægt að finna undantekningar í öllum málum, ég er ekkert að útiloka það, en það á ekki að gera undantekningarnar að aðalreglu, dæma ekki manninn sem stolið er frá sem þjóf. Það er búið að gera það allt of lengi og allt of oft. Ég vil mótmæla þessum málflutningi. Auk þess er þetta frv. aðallega um breytingu á lögum um verslunaratvinnu, um heimild til þess að stunda verslun, hvort sem hún er innflutningsverslun, útflutningsverslun eða smásala, en með þessu er verið að flækja mörgum aðilum inn í leyfisveitingu með tilkynningarskyldu fram og til baka. Þetta hefur verið tiltölulega auðvelt mál ef menn hafa haft til þess áskilin réttindi, bókhaldsþekkingu og fleira. Menn hafa getað skráð sig, sýnt skírteini um að þeir hafi ákveðna þekkingu og síðan hefur þetta verið tilkynnt í Lögbirtingablaði. Hér er lagt til að þvæla þessu fram og til baka milli stofnana. Það er allt eins föngulegt í höndum Alþb.-manna.

Ég vil draga athygli að málefnafátækt Alþb. þegar það dregur fram svona gamla drauga. Ég vil draga athygli fólks að því sem þeir halda að nái til almennings en gerir það alls ekki, því að almenningur þekkir sinn kaupmann, þekkir sinn kaupmann á horninu og þekkir það vöruverð sem hann hefur í verslun sinni, vegna þess að hér er rætt um stétt manna sem hefur aflað sér vöruþekkingar eins og best verður á kosið hvaðan sem er í veröldinni.