28.11.1983
Neðri deild: 18. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

14. mál, verslunaratvinna

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það var sérstaklega ánægjulegt að heildverslun Alberts Guðmundssonar skyldi taka þátt í þessum umr. Eins og þingheimur veit þá hefur ráðh. lýst því yfir að hann reki verslun sína áfram meðan hann gegnir ráðherraembætti. Hún sé áfram hluti af hans persónulega efnahag. Hæstv. ráðh. hefði þá átt að fylgja þeim sið, sem tíðkast í siðmenntuðum þjóðþingum þegar menn taka til máls um frv. sem snertir beint þeirra hagsmuni, að lýsa sínum hagsmunum um leið og hann hóf mál sitt.

En það var athyglisvert að hann hafði engin einustu rök fram að færa gegn þessu frv., ekki eitt einasta. Hann var eingöngu kominn hér upp í ræðustólinn til þess að flytja ómerkilegar dylgjur um það að þetta frv. væri eingöngu flutt í áróðursskyni. sá maður sem á ráðherrastól hefur flutt fleiri yfirlýsingar í áróðursskyni en allur ráðherrafjöldinn á s.l. 10 árum samanlagður. Hvar eru öll frumvörpin, sem hæstv. ráðh. hefur boðað á undanförnum mánuðum um sölu ríkisfyrirtækja? Hvar eru þau? Ekki hér á borðum þm. Hvar eru önnur frv. sem ráðh. hefur kallað til sín fjölmiðla og aðra til að tilkynna að hann muni flytja? Ekki á borðum þm. Hvar eru yfir höfuð þau mál sem þessi hæstv. ráðh. hefur boðað að hann mundi flytja? Ekki hér á borðum þm. Það kemur úr hörðustu átt þegar hæstv. fjmrh. fer hér upp í ræðustól til að tala um að mál séu eingöngu flutt í áróðursskyni. Það mætti kannske spyrja hæstv. ráðh. að því og það er m.a. erindi mitt hingað upp í ræðustólinn, hvar er frv. um tollkrítina? Það var áberandi á síðustu þingum að núv. hæstv. viðskrh. og núv. hæstv. fjmrh. hlupu hér um þingsali og upp í ræðustól hvað eftir annað til að reka á eftir frv. um tollkrít. Við sem þá stóðum að meiri hl. ríkisstj. hér á Alþingi höfðum ekki frið fyrir þessum tveimur núv. hæstv. ráðherrum. Það var á þeim að skilja þá að það mættu ekki líða nokkrir dagar eða vikur án þess að það frv. kæmi fram og yrði að lögum.

Nú eru ekki eftir nema fáeinar vikur þar til þing lýkur störfum fyrir jól. Það væri þess vegna rétt að spyrja hvað líður gangi þessa máls? Er það ekki lengur svona brýnt? Er þetta ekki lengur svona brýnt hagsmunamál fyrir verslunarstéttina? Eða var þetta kannske bara áróðursleikur hér á Alþingi áður fyrr? Var þetta bara sjónarspil hjá núv. hæstv. viðskrh. og núv. hæstv. fjmrh.? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hér.

Þá væri rétt, fyrst ráðh. er búinn að biðja um orðið, að hann lýsti í leiðinni hvar öll þau frv. eru sem hann er búinn að tilkynna þjóðinni á undanförnum vikum að hann ætlaði að flytja strax í þingbyrjun. Það er hægt að fletta upp í blöðum yfirlýsingum frá hæstv. ráðh. frá því í sumar þar sem hann lýsti því yfir að strax í þingbyrjun yrðu á borðum þm. frv. um sölu þessa ríkisfyrirtækis, sölu hins ríkisfyrirtækis. Ráðh. lét meira að segja mynda sig í sjónvarpinu þar sem hann veifaði framan í þjóðina alls konar skjölum og bréfum sem hann hefði fengið frá aðilum sem væru þegar reiðubúnir að kaupa þessi fyrirtæki strax í þingbyrjun. En hæstv. ráðh. er núna hættur að veifa slíkum bréfum. Hann hefur ekki einu sinni komið í sjónvarpið til að veifa frumvörpunum. Hvar eru þau? Væri ekki rétt að hæstv. ráðh. færi að standa við eitthvað af stóru orðunum, sem hann er búinn að blása sig út með á undanförnum mánuðum síðan hann settist í þennan stól í stað þess að koma hér upp með ómerkilegan málflutning um það að aðrir þm. séu að flytja frv. í áróðursskyni?

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka þátt í þessum umr. en hin sérkennilega ræða — (Gripið fram í.) nei, ég veit það ósköp vel að hæstv. fjmrh. er mjög illa við að þessir hlutir séu rifjaðir upp hér í þingsalnum. Honum er greinilega mjög illa við það að hann sé hér í þingsalnum látinn standa reikningsskil þeirra orða sem hann hefur viðhaft úr ráðherrastóli utan þings. Það er nú einu sinni eðli þingræðisins, hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson, að menn verða hér í þingsalnum að standa reikningsskil þeirra orða sem þeir hafa látið falla úr ráðherrastól. (Fjmrh.: Ég geri það þegar ég kemst að.) Og menn eru líka látnir standa reikningsskil þeirrar sérkennilegu stöðu, sem hæstv. ráðh. hefur skapað sér, að blanda saman í einn hatt rekstri heildverslunar og rekstri fjmrn. Það væri þess vegna fyllilega við hæfi að flytja hér sérstakt frv. um verslunarrekstur ráðh. til þess að fyrirbyggja að menn geti í framtíðinni stundað þann sérkennilega leik sem hæstv. fjmrh. hefur tekið hér upp fyrstur ráðh. Það var greinilega það sem var að í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan að hann fann að sér höggvið með þessu frv. Hann fann að hagsmununum sínum höggvið. Þess vegna kom hann hingað upp til þess að reyna að drepa málinu á dreif með því að gefa til kynna að hér væri eingöngu um áróðursmál að ræða. Hann er hræddur. Hæstv. ráðh. er hræddur við það að verið sé að taka á verslunarmálunum í landinu, verið sé að taka á þeim mönnum og þeim hagsmunum, sem telja sér sæma að þjóna heildverslun í landinu bæði í ráðherrastól og utan. Það sýnir best hvar hagsmunahjartað í þessari ríkisstj. slær, eins og hv. þm. Svavar Gestsson benti á hér áðan, að núv. formaður Sjálfstfl. og aðstoðarráðherra hæstv. fjmrh. skuli telja það við hæfi að ganga fyrst á fund Verslunarráðs Íslands til þess að tilkynna því hvað þessi ríkisstj. ætli að gera fyrir fyrirtækin, hvernig hún ætli að auka tekjur fyrirtækjanna, hvernig hún ætli að minnka skatta fyrirtækjanna og hvað hún ætli að gera til þess að styrkja hagsmunaaðila Verslunarráðsins, áður en þingheimi hér eða þjóðinni hefur verið gerð grein fyrir þessum áformum. Það er við hæfi að þessir menn skuli á sínu fyrsta valdaári gera það að meira kappsmáli að lækka skatta fyrirtækjanna í landinu heldur en fólksins í landinu. Það er sérkennilegt að horfa upp á það hér að þegar hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson fer með skattamálin, þá skuli í hans tíð skattabyrðin á almenning í landinu stóraukast. Það er einmitt það sem er að gerast. Á sama tíma og þessir menn með formann Sjálfstfl. og formann Sambands ungra sjálfstæðismanna í broddi fylkingar eru önnum kafnir við það að létta sköttum af fyrirtækjunum þá er skattabyrði almennings að aukast. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur sent frá sér sérstaka ályktun þar sem það kemur skýrt fram að skattabyrði almennings í landinu verður þyngri á fyrsta valdaári þessarar ríkisstj. heldur en verið hefur í langan tíma. Við sem heyrðum hér allar stóru yfirlýsingarnar um að þegar þessir menn kæmust til valda þá ætti að lækka skattana á fólkinu í landinu, þá ætti að draga úr skattabyrðinni, það hlægir okkur að sjá að á fyrsta valdaári þessara manna skuli skattbyrði á launafólkið á Íslandi þyngjast á sama tíma og skattbyrðin á fyrirtækjunum og í versluninni mun léttast. Það er ósköp eðlilegt að hæstv. fjmrh. reyni að koma hér upp og gera lítið úr efnislegri umr. um verslun í landinu. Hann veit að það er sá þáttur í valdaferli þessarar ríkisstj. sem síst þolir að vera skoðaður í dagsljósinu.