19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. til staðfestingar á brbl. um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum sem sett voru í tengslum við efnahagsráðstafanir ríkisstj. 27. maí s.l. Brbl. þessi voru sett til að milda áhrif efnahagsaðgerða stjórnarinnar á hina lakast settu í þjóðfélaginu. Í þeim er að finna ívilnandi ákvæði til hagsbóta fyrir barnafólk og lífeyrisþega auk þess sem persónuafsláttur til skatts var hækkaður.

Í 1. gr. frv. koma fram ákvæði um hækkun persónuafsláttar og barnabóta. Hækkun persónuafsláttarins svaraði tekjuskattslækkun að fjárhæð 135 millj. kr. og hækkun barnabóta nam 90 millj. kr.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um hækkun lífeyristrygginga og 100% hækkun mæðralauna með einu barni og 30% með tveimur börnum og fleiri. Ákvæði þessarar gr. leiddu til 30 millj. kr. útgjalda fyrir ríkissjóð. En í greininni er gert ráð fyrir að ýmsar lífeyrisgreiðslur hækki um 5% umfram þær launahækkanir sem urðu 1. júní s.l.

Í 3. gr. er ríkisstj. veitt heimild til stóraukinna fjárveitinga til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar íbúðarhúsnæðis. Er í þessu skyni heimilað að verja allt að 150 millj. kr., en á fjárlögum þessa árs var fjárveiting til þessa þáttar 35 millj. kr. Hér er því um verulega hækkun að ræða og í fjárlagafrv. 1984 er raunar gert ráð fyrir enn frekari hækkun fjárveitingar til þess að jafna og lækka hitunarkostnað eða samtals 230 millj. kr.

Í 4. gr. er fjmrh. heimilað að lækka ríkisútgjöld í ár um allt að 300 millj. kr. frá fjárlögum. Ástæðulaust er að hafa um þetta frv. mörg fleiri orð. Þær ráðstafanir sem í því felast eru mjög mikilvægur liður í viðleitni ríkisstj. til að milda áhrif af þeim óhjákvæmilegu ráðstöfunum sem gripið var til í maí og verja þar með hag hinna verst settu.

Þau brbl. sem þetta frv. tengist verður að skoða sem einn hluta þeirra heildarráðstafana sem gripið var til á s.l. vori og gerð hefur verið rækileg grein fyrir í stefnuræðu forsrh. og umr. um hana.

Ég vil að svo mæltu, hæstv. forseti, leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.