29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

391. mál, innheimta og ráðstöfun kjarnfóðursgjalds

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargóð svör hans. Þær tölulegu upplýsingar sem fram komu í svörunum eru það margþættar að auðvitað væri æskilegt, ef hæstv. ráðh. sæi sér það mögulegt, að fá þeim dreift í fjölrituðu formi með það fyrir augum að maður geti kynnt sér það nánar.

Af því að í þessu tilviki fer saman í einum manni hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh. fannst mér leitt að fá ekki að heyra hvaða álit hann hefur á lögum af því tagi sem hér um ræðir. Hvað viðkemur gildi kjarnfóðurskatts sem stýringu á framleiðslu og réttlætingu þess að viðhalda honum til þeirra verka, þá segir það sig náttúrlega sjálft að það er hægt að stýra framleiðslu með margvíslegum öðrum hætti og sjálfsagt miklu einfaldari og gagnlegri. Til að nefna aðeins eitt dæmi, vegna þess að það kemur manni í hug þegar maður horfir til annarrar starfsemi í þessu landi, þá gæti einn lítill einfaldur samningur milli bónda og þess sem afurðina kaupir af honum, t.d. mjólkurbús, um ákveðna framlegð á ári hverju, sem mjólkurbúin tækju við, einfaldlega leyst það vandamál að framleiðsla færi ekki fram úr hófi. Höfuðvaldurinn að þessari offramleiðslu er í raun og veru sú sjálfvirka verðlagning án tillits til framboðs sem ekki hefur dugað til þess að hafa hemil á framleiðslu þess landbúnaðar sem við búum við í þessu landi.