29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

397. mál, eftirlit og mat á ferskum fiski

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Á þskj. 85 hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. sjútvrh. varðandi reglugerð um eftirlit og mat á ferskum fiski o.fl.:

„1. Er reglugerð um eftirlit og mat á ferskum fiski o. fl., nr. 55 20. mars 1970, enn í gildi?

2. Verður fræðslukvikmynd sú er sjútvrn. lét gera um vinnubrögð við aðgerð um borð í fiskiskipum tekin úr umferð og ekki sýnd?“

seinni hluta þessarar fsp. lagði ég óformlega fyrir hæstv. ráðh. í fsp.-tíma hér í Sþ. 25. okt. í tengslum við fsp. mínar til hæstv. ráðh. um aðgerðir til bættrar meðferðar á sjávarafla og ráðstöfun gengisfjár. Forseti vildi ekki gefa ráðh. heimild til framlengingar á ræðu sinni til að svara fsp. Fsp. er því borin fram á formlegan hátt.

Ef svar hæstv. ráðh. verður jákvætt við fyrri lið fsp. og ég geri ráð fyrir að svo verði, þá er það staðfesting á því að kvikmynd sú er sjútvrn. lét gera um vinnubrögð við aðgerð um borð í fiskiskipum brýtur í bága við þá reglugerð. Nú ætla ég ekki að fara að deila um hvort reglugerðin inniheldur bönn sem ekkert mark er takandi á eða hvort aðrar leiðir en þær sem eru þar tíundaðar séu betri til meðferðar á fiski. En broslegir hafa verið þeir tilburðir sem í frammi hafa verið hafðir til að sanna að sú trú matsmanna, gerlafræðings og sjómanna að betra sé að blóðga fisk og láta honum blæða út í stað þess að blóðga og slægja í einni striklotu séu hálfgerðar kerlingabækur.

Hæstv. ráðh. eyddi drjúgum hluta af ræðu sinni á aðalfundi LÍÚ til að ræða þetta stóra vandamál. Þar sagði hann m.a.:

Sjútvrn. skipaði seint á árinu 1980 nefnd til að gera tillögur um reglur og leiðbeiningar er stuðlað gætu að því að bæta gæði afla úr botnvörpu og flotvörpu. Skyldi þá tekið tillit til meðferðar fisksins allt frá því að hann kæmi í veiðarfærið þar til hann væri tekinn til vinnslu í landi.“

Og síðar í sömu ræðu hélt hæstv. ráðh. áfram með leyfi forseta: „Nefndin fjallaði ítarlega um þann þátt er snertir blóðgun og slægingu afla um borð. Ekki var mælt með að reglugerðinni yrði breytt. Framleiðslueftirliti sjávarafurða og fulltrúum kaupenda og seljenda var falið að gera nákvæma könnun á því hvaða gæðamunur sé á þeim fiski sem blóðgaður og slægður er um leið og þeim fiski sem látið er blæða út fyrir slægingu.“

Og enn síðar: „Sjútvrn. hefur nú ákveðið að gera enn eina könnun á sama verkþætti undir stjórn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins í samstarfi við Framleiðslueftirlitið og hagsmunaaðila í sjávarútvegi.“

Svo mörg voru þau orð. Maður hélt nú að um þessi mál þyrfti ekki mikið að ræða eftir að rn. hefði látið gera kvikmynd þar sem rétt vinnubrögð eru sýnd. Ef vafi leikur á því að þau vinnubrögð sem í kvikmyndinni eru sýnd séu rétt, er þá hægt að halda áfram sýningum á þessari vinnubragðamynd í nafni sjútvrn.?