29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

398. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég held nú að eitthvað af því sem ég sagði hafi farið fram hjá hv. fyrirspyrjanda. M.a. að ég sagði — held ég nógu skýrt — að starfsleyfi hefði fengist fyrir hinni nýju verksmiðju, þannig að ég þarf út af fyrir sig ekki að beita mér fyrir því að nýja verksmiðjan fái leyfi.

En um það hvort ég ætli að beita mér gegn því að gamla verksmiðjan fái leyfi, þá vil ég vísa slíku fyrst og fremst til sérfræðingana, til Hollustuverndar ríkisins, að hún meti það. Ég lét það að vísu í ljós að ég óskaði þess að við fengjum ekki gula reykinn aftur. En ég er ekki sá sérfræðingur í þessu að ég geti metið það rangt sem Hollustuvernd ríkisins hefur sett hér fram í þessari skýrslu um að þarna sé ekki um hættumörk að ræða. Vitanlega kemur það fram með útgáfu þessarar skýrslu að Hollustuvernd ríkisins hefur verið að athuga þetta mál og vafalaust hefur það verið mat þeirrar stofnunar að þarna væri ekki um þá hættu að ræða, að það væri út af fyrir sig ástæða til þess að stöðva þennan rekstur. Eina skýringin sem ég get fundið á þessum drætti er að þeir vilji kannske skoða málið eitthvað betur en þeir eru þó þegar búnir að gera samkv. þessari skýrslu.

Virðist það þó vera allrækileg skoðun, en þeir vilji þá skoða málið enn þá betur áður en þeir gefa út endanlegt starfsleyfi. En ég get tekið undir það, að slíkur dráttur er ákaflega óæskilegur og vissulega tilefni til að á eftir því sé rekið, eins og fram kom í því sem ég sagði að Áburðarverksmiðja ríkisins hefur gert hvað eftir annað, þannig að það hefur ekki staðið út af fyrir sig á því að það væri gert.