29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

97. mál, skattheimta sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. á þskj. 118 til hæstv. félmrh. um skattheimtu sveitarfélaga, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hver er afstaða félmrh. til þess að beitt verði á næsta ári ákvæði 25. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sem kveður á um heimild til sérstaks álags á útsvarsstofn?

2. Hyggst ríkisstj. beita sér fyrir að útsvör og fasteignagjöld verði við það miðuð að skattbyrði heimilanna aukist ekki milli áranna 1983 og 1984?“

Tilefni þessarar fsp. er að í erindi sem Jón Sigurðsson, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, hélt á ráðstefnu um fjármál sveitarfélaga nýlega kemur fram að horfur séu á að við óbreytta skattálagningu hækki tekjur sveitarfélaga mun meira en svarar verðbreytingum útgjalda á árinu 1984. Fæli slíkt í sér að skattbyrði einstaklinga mundi af þessum sökum þyngjast verulega. Eftirfarandi kom fram í erindi Jóns Sigurðssonar, með leyfi forseta:

„Þjóhagsstofnun hefur gert athugun á því, hversu mikil hækkun skatttekna sveitarfélaga yrði að óbreyttum álagningarreglum að öllu leyti. Niðurstaðan er sú, að útsvör mundu hækka um 55%, aðstöðugjöld um 56%, en framlög úr Jöfnunarsjóði munu hækka um 27% samkv. forsendum fjárlagafrv. Verðhækkun fasteignamats hefur nú verið ákveðin 57% á höfuðborgarsvæðinu en 47% utan þess. Að meðtöldum áhrifum endurmats og aukningar gæti þetta falið í sér um eða yfir 55% hækkun fasteignamatsins í heild, þótt hækkunin sé vitaskuld mismunandi eftir stöðum. Í heild fengist út úr þessu dæmi rösklega 50% hækkun þessara helstu sveitarsjóðsgjalda milli áranna 1983 og 1984, að meðtalinni fjölgun gjaldenda um 1%. Þessi hækkun fer langt fram úr áætlaðri hækkun tekna almennings á næsta ári og langt fram úr áætlaðri hækkun verðtags rekstrargjalda sveitarsjóða, sem hvort tveggja er talið hækka um 20–21% í áætlunum ríkisstj. Þessi mismunur er svo mikill, að í honum felst aukin skattbyrði einstaklinga af útsvari og fasteignagjöldum, sem næmi hvorki meira né minna en 2% af tekjum heimila. Erfitt er að sjá almenn rök fyrir slíkri skattalækkun við ríkjandi aðstæður.“

Það kom þó einnig fram hjá Jón Sigurðssyni að brýnt sé að ákvarðanir sveitarfélaga í fjárhagsmálefnum taki mið af þjóðhagshorfum og sveitarfélögin leggi sitt af mörkum til þess að það takist að tryggja áframhaldandi hjöðnun verðbólgu. Telur Jón Sigurðsson að með öllu sé ljóst að eins og nú horfi í efnahagsmálum sé þynging skatta á almenning ekki ráðleg. Í fjárlagafrv. er miðað við að skattbyrði heimilanna vegna tekju- og eignarskatts haldist óbreytt í hlutfalli við tekjur. Ljóst er að nýti sveitarfélögin sama álagningarhlutfall á næsta ári vegna tekna fyrir árið 1983 og þau hafa gert á yfirstandandi ári mun skattbyrði heimilanna þyngjast verulega og álagning sveitarfélaganna ekki vera í samræmi við það markmið sem ríkisstj. hefur sett sér, auk þess sem tekjur sveitarfélaganna munu hækka mun meira en útgjöld þeirra á árinu 1984.

Yfirliti sem ég hef frá Þjóðhagsstofnun kemur fram að ef álagningarreglum sveitarfélaganna verður ekki breytt en sömu álagningarreglur verða látnar gilda, þá þýðir það að skattar til sveitarfélaga yrðu á næsta ári 3 milljarðar 760 millj. kr. En spá fyrir árið 1983 gerir ráð fyrir 2 milljörðum 425 millj. kr. Hækkun milli áranna er því um 55%. Ef álagningarreglur tækju hins vegar mið af því að skattar sveitarfélaga hækki eins og tekjur milli áranna 1983 og 84 á sama hátt og gert er ráð fyrir samkv. fjárlagafrv., þá yrðu skattar til sveitarfélaganna á næsta ári um 2 milljarðar 940 millj. kr. Þetta þýðir að óbreytt skattlagning af hálfu sveitarfélaga hefði í för með sér að tekjur ykjust fjórðungi meira en nemur breytingu gjalda og skattbyrði einstaklinga af útsvari og fasteignagjöldum ykist um nær 2% af tekjum heimilanna milli 1983 og 84. Sveitarfélögin myndu því taka til sín um 820 millj. kr. meira á næsta ári en nemur hækkun tekna einstaklinga milli áranna 1983 og 1984 og þýðir það um 2% aukningu skattbyrði af brúttótekjum heimilanna.

Í því tilefni er þessi fsp. borin fram og spurt hvort ríkisstj. muni beita sér fyrir því að skattbyrði heimilanna af útsvari og fasteignagjöldum muni ekki hækka á milli áranna 1983 og 1984 og hver sé afstaða félmrh. til þess að beitt verði á næsta ári ákvæði 25. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sem kveður á um heimild til sérstaks álags á útsvarsstofn.