29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

97. mál, skattheimta sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, en lýsi jafnframt vonbrigðum mínum yfir því sem fram kom í svari hans.

Ég átti von á að hæstv. ráðh. mundi greina afdráttarlaust frá því að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að skattbyrði heimila mundi ekki aukast milli áranna 1983 og 1984. Það er auðvitað ótækt að á sama tíma og tekjur heimilanna hafa dregist stórlega saman og þau hafa mátt þola kjaraskerðingu bendi allt til aukinnar skattbyrði. Hæstv. ráðh. talar um greiðsluþrot sveitarfélaganna og sveitarsjóðanna. En hefur hæstv. ráðh. engar áhyggjur af greiðsluþroti heimilanna í landinu? Ég get tekið hér dæmi, hæstv. ráðh.: Ef sveitarfélögin taka til sín 820 millj. kr. meira á næsta ári en nemur tekjum einstaklinganna, sem yrði ef álagningin er óbreytt milli áranna, þá er hér um að ræða verulega skattbyrði. Ef litið er á hvað þetta þýddi fyrir heimili í aukinni skattbyrði á næsta ári, ef tvær eru fyrirvinnurnar, sem hefðu samtals 36 þús. kr. mánaðartekjur og gert er ráð fyrir launahækkunum um 15% að meðaltali á næsta ári, þýddi þetta 2% aukna skattbyrði eða um 10 þús. kr. fyrir þetta heimili. Það munar um minna þegar heimilin hafa þurft að þola jafnmikla kjaraskerðingu. Og jafnvel þó að öll sveitarfélögin héldu sig við 11% og ekki yrði beitt heimildarákvæðinu, þá mundi þetta engu að síður þýða aukna skattbyrði fyrir heimilin.

Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna aftur í erindi Jóns Sigurðssonar, þar sem hér hefur verið talað um slæma stöðu sveitarsjóðanna, en hann segir í sínu erindi, með leyfi forseta:

„Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er með því reiknað að almennar framkvæmdir sveitarfélaga verði nokkru minni að raungildi 1984 en 1983 eða um 5–6% minni. Sé reiknað með lítt breyttum samneyslugjöldum og 5–6% minni framkvæmdum má setja upp dæmi um fjárhag sveitarfélaganna í heild með forsendum fjárlagafrv. um verðlag, kaupgjald og gengi. Niðurstaðan er á þann veg, að einsætt virðist að ekki sé þörf á því að beita hækkunarheimild útsvarslaga á næsta ári, og reyndar virðist mega draga nokkuð úr nýtingu annarra gjaldstofna, en ná þó því marki, sem nauðsynlegt er, að rétta við greiðslustöðu þeirra sveitarsjóða sem átt hafa í erfiðleikum að undanförnu.“

Ég hafði vonast til þess að við gætum hér á hv. Alþingi fengið svar frá hæstv. ráðh. um að hann mundi ekki beita ákvæðinu sem kveður á um heimild til sérstaks álags og að við fengjum hér svör við því að skattbyrði heimilanna mundi ekki aukast. Ég verð að segja það, að svör ráðh. hafa valdið mér miklum vonbrigðum, því að ef hann hefði getað gefið hér svar við þessu gætu þó heimilin vænst þessa og sett þar með í sínar áætlanir að skattbyrðin muni ekki aukast. En ég sé ekki fram á annað en stefnt sé að aukinni skattbyrði á næsta ári, og það ber vissulega að harma.