29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

97. mál, skattheimta sveitarfélaga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir viku eða svo gerði Alþýðusamband Íslands samþykkt þar sem bent var á að skattastefna ríkisstj. árið 1984 hefði það í för með sér að skattar ríkisins yrðu hærra hlutfall af tekjum á því ári en þeir eru á þessu ári, þ.e. ríkið tekur til sín aukið fé miðað við þær tekjur sem heimilin í landinu eiga að hafa á næsta ári. Við þetta bætist svo það, að ef útsvarsheimildin er að fullu nýtt, eins og hér virðist vera gert ráð fyrir, hefur það einnig í för með sér íþyngingu í sköttum heimilanna í landinu, þannig að ljóst er að hér verður um heildarskattahækkun að ræða bæði til ríkisins og sveitarfélaganna. Við þetta bætist svo það, að ýmis sveitarfélög hafa gengið ótrúlega langt í því að hækka margs konar þjónustugjöld að undanförnu og á það alveg sérstaklega við um Reykjavíkurborg, þar sem hækkanir á þjónustugjöldum hafa keyrt úr öllu hófi.

Nú kann það út af fyrir sig að vera svo, að menn finni einhverjar röksemdir fyrir því að vegna ástands sveitarfélaganna þurfi að hækka þessi gjöld og það þurfi að halda fullum heimildum. En hitt verða menn líka að hafa í huga, hvernig ástandið er á þeim heimilum þar sem verið er að innheimta þessi gjöld. Og í öðru lagi verða menn að hafa það í huga, að þeir flokkar sem nú fara með stjórn landsins lofuðu því hástöfum fyrir síðustu kosningar að þeirra meginverkefni væri að lækka skattana, og á þetta sérstaklega við um Sjálfstfl., þeirra meginverkefni væri að lækka skattana á landsmönnum frá því sem verið hefur. Það voru ekki fáar eða stuttar og gagnorðar ræður sem þeir þm. Sjálfstfl. fluttu hér á síðasta kjörtímabili um skattpíningu þáv. ríkisstj. og það sem hún beitti í þeim efnum. Nú er ætlun þessarar ríkisstj. að ganga miklu lengra í þessu efni en áður hefur verið gert í hlutfalli af tekjum heimilanna í landinu, sem er auðvitað sú eina viðmiðum sem við getum haft. Þetta er nokkuð lærdómsríkt.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. til viðbótar við það sem hér hefur verið spurt um og hann hefur svarað, um leið og ég þakka hv. 2. landsk. þm. fyrir að taka þetta mál upp: Hver á útsvarsprósentan að vera til þess að gefa í raun það sama 1984 miðað við stefnu ríkisstj. og fjárlagafrv. og hún gaf á árinu 1983? Í erindi Jóns Sigurðssonar er þessari spurningu ekki svarað. En það er alveg bersýnilegt að hann telur að þessi prósenta sé ekki 11.88% eins og þetta hefur víða verið, t.d. hér í Reykjavík, heldur sé hún mun lægri en útsvarsálagningarheimildin án sérstöku hækkunarinnar. Það væri fróðlegt að vita hvert ætti að vera raunútsvarið á árinu 1984 til þess að sveitarfélögin fengju sömu tekjur og á árinu 1983.