29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

403. mál, lögrétta og endurbætur í dómsmálum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel rétt að láta örfá orð falla í þessu máli.

Í öllum lýðræðisríkjum er það mikið áhugamál manna að dómsmál hafi sem greiðasta för og menn fái sem fyrst skorið úr sínum málum. Svo hefur verið hér á landi, að Hæstiréttur hefur ekki getað sinnt málum nægilega fljótt, þannig að þar hefur orðið bið eða myndast hali svo sem kaltað er.

Lögréttufrv. hefur verið lagt fram að ég ætla fimm sinnum alls, m.a. einu sinni í minni tíð sem dómsmrh. Þetta frv. er vandlega unnið og undirbúið, en þó hefur ekki verið mikill áhugi hv. alþm. á því frv., eins og dæmin sanna. Því kom snemma fram sú hugmynd að fara þá leið að fjölga dómurum í Hæstarétti, þannig að þeir gætu dæmt í tveim deildum, aðeins þrír í minni mátum, en þá fimm í stærri málum.

Þetta hlaut að leiða hugann að því að dómarar þyrftu að vera átta a.m.k. til þess að deildir gætu unnið og starfað samtímis. Fyrst var hæstaréttardómurum fjölgað ef ég man rétt úr fimm upp í sex og síðan úr sex upp í sjö og með breytingu á lögunum, sem gerð var 1982, var dómurum fjölgað um einn upp í átta, þannig að þeir gætu starfað í tveim deildum í senn. Aukadómarar voru settir eða skipaðir um sinn. Það var ætlunin að þeir störfuðu í sex mánuði árlega í tvö ár, en vegna þess hvað frv. seinkaði á Alþingi urðu það ekki nema þrír plús sex eða níu mánuðir alls. Einnig var ráðinn lögfræðingur til aðstoðar Hæstarétti. Ég er alveg viss um að þessar breytingar hafa gert gott eitt og hali mála hefur styst, þó að hann hafi ekki styst nægjanlega mikið. Jafnframt gerði ég ráðstafanir til þess að lögréttufrv. yrði athugað áfram og fól réttarfarsnefnd að skoða það mál undir forustu hæstaréttardómara Magnúsar Thoroddsens.

En það er fleira sem þarf að athuga í sambandi við Hæstarétt. Það þarf að bæta aðbúnað og húsnæði og mætti um það halda jafnlanga ræðu.