29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

6. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að beina tveimur spurningum til flm. þessarar till.:

Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja þá um hvað þeir eigi við með orðinu „raunhæfa“ í 1. mgr. till. Í grg. með till. kemur ekkert fram um það, hverja þeir telji vera raunhæfa stefnu kjarnorkuveldanna í afvopnunarmálum.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja um atriði sem kemur fram í 2. mgr. þessarar till., en þar leggja flm. til, með leyfi forseta, „að láta gera úttekt á þeim hugmyndum, sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, með sérstöku tilliti til legu Íslands og aðildar þjóðarinnar að alþjóðlegu samstarfi.“

Mig langar til að spyrja flm. hvernig þeir hugsi sér að láta gera úttekt á hugmyndum um afvopnun án þess að tekið sé sérstakt tillit til, og það verði tekið fram í till. sjálfri, eðlis þeirra vopna sem hér er um að ræða.