29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

6. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Með því að fleiri eru ekki á mælendaskrá, þá vildi ég ekki láta hjá líða að lýsa ánægju minni yfir flutningi þessarar þáltill. og þakka 1. flm. fyrir ágæta grg. fyrir henni.

Ég sé þó ekki ástæðu til að fjalla efnislega um afvopnunarmál á þessu stigi málsins. Tækifæri mun væntanlega gefast til þess síðar og það fljótlega. En ég vil láta í ljós þá von mína, að utanrmn. megi bera gæfu til að sameina svo hugi nefndarmanna að stefnumörkun nefndarinnar og síðan Alþingis í heild megi verða Alþingi til sóma og framlag Íslendinga í hinu mikilvæga máli yrði virðingu Íslendinga samboðin á þessum mikilvæga vettvangi.