29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hv. 7. þm. Reykv. lét þess getið að hann hefði viljað að núna væri lokið umr. um þrjú mál sem eru á dagskránni, þ.e. það mál sem við vorum að ljúka við rétt áðan, 7. dagskrármálið, um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, 8. dagskrármálið, um nauðsyn afvopnunar, og 14. málið, stöðvun uppsetningar kjarnaflugvopna.

Hv. 7. þm. Reykv. lét þau orð falla að hann vænti þess að hin tvö málin, sem eftir er að fjalla um, yrðu tekin fyrir síðar í dag, eins og það var orðað. Af þessu tilefni þykir mér rétt að taka fram, að það var ætlun mín, ef þess væri nokkur kostur, að ræða öll þessi mál á fundi í dag. Ég segi: ef það er nokkur kostur. Það fer allt eftir því hvað þingheimur vill, hvað honum þóknast að tala lengi í hverju máli, en það var ætlun mín að gera tilraun til þess að gera þetta.

Þegar hv. 7. þm. Reykv. bar upp fyrir mér þá ósk að fá að tala hér utan dagskrár, benti ég honum á þetta og sagði að það væri stofnað í voða þeim möguleika að afgreiða þessi mál í dag, ef orðið yrði við óskum um umr. utan dagskrár.

Spurningin um það hvort á að verða við umr. utan dagskrár er fólgin í því hvernig forseti svarar tveim spurningum. Í fyrsta lagi: Er málið mikilvægt? Í öðru lagi: Þolir það ekki neina bið? Getur það ekki beðið eftir fyrirspurnum í venjulegu formi?

Ég hygg að það hafi verið ljóst í þessu tilfelli að málið er mikilvægt. Það orkaði frekar tvímælis hvað aðkallandi það væri, hvort nauðsynlegt væri að taka það fyrir í dag. En það er svo oft að einmitt þetta orkar tvímælis. Og oft getur það verið rétt að leyfa umr. utan dagskrár, þó að það orki tvímælis, því málið getur verið þannig vaxið að það upplýsist ekki fyllilega fyrr en í þeim umr. sem leyfðar eru.

Út frá þessum sjónarmiðum voru þessar utandagskrárumr. leyfðar. En ég við að gefnu tilefni taka það fram á þessum fundi fer ekki fleira fram en þessar utandagskrárumræður. Til þess er einfaldlega ekki tími. Ég þarf ekki að minna þingheim á það, að allir þm. eru boðnir í Þjóðleikhúsið í kvöld. Það boð barst okkur fyrir nokkrum vikum og undan því verður ekki skorast að fara í Þjóðleikhúsið í kvöld. Ég vænti þess því að enginn hafi við það að athuga og þá afgreiðslu sem ég hugsa mér á dagskrármálunum hér.