29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það eru vissulega alvarleg tíðindi í okkar þjóðfélagi þegar við fáum um það spurnir að í fyrsta lagi hafi afli mjög rýrnað á þessu ári og öll útgerð í landinu búi við slík skilyrði að ekki geti lengur svo áfram verið og þar að auki fáum við um það upplýsingar frá okkar fiskifræðingum að enn þurfi að minnka aflann.

Það er ekki óeðlilegt að fram fari um það nokkur almenn og opinber umr. hvernig brugðist skuli við þessum válegu tíðindum, því það snertir vissulega atvinnu fólksins um allt land.

Hér hefur verið vitnað í ræðu mína á Fiskiþingi og ég tel mér skylt að endurtaka það sem ég sagði þar. Ég flutti þar skrifaða ræðu og vildi fá að lesa úr henni, með leyfi hæstv. forseta. Ég sagði eftirfarandi:

„Að undanförnu hefur mikið verið rætt um að nauðsynlegt væri að fækka skipum á miðunum til þess að önnur hefðu betri rekstrargrundvöll. Þetta er vissulega rétt, en erfiðlega gengur að benda á þau skip sem helst ættu að stöðvast. Að sjálfsögðu hafa skip stöðvast vegna óhagkvæms reksturs og lélegrar fjárhagslegrar afkomu. Sú hugmynd hefur komið upp að rétt væri að aðstoða aðila við að leggja skipum, a.m.k. um stundarsakir. Því er eðlilegt að spurt sé: Hverja á að aðstoða til þess?

Við búum dreift í landinu og hin dreifða byggð er til komin vegna þess að forfeður okkar byrjuðu snemma að nýta allt landið og miðin. Þá var aðalatriðið að vera sem næst miðunum, því að ekki varð róið eða siglt með seglum langar leiðir. Vaxandi tækni hefur gert það kleift að sækja mun lengra, en þrátt fyrir allt er lögmálið það sama, að ódýrast er að sækja sem styst á miðin. Þetta gerir það að verkum að rétt er að búa dreift í landinu.

Þegar á að fækka skipum með skipulegum hætti getur reynst erfitt að gera það, vegna þess hvað hvert byggðarlag er háð fáum skipum. Mörg dæmi eru fyrir því að aðeins eitt togveiðiskip stendur í reynd undir allri verðmætasköpun í viðkomandi byggðarlagi. Ef þessu skipi er lagt er grundvöllurinn í reynd hruninn.

Þar sem þéttbýli er meira er þessu öðruvísi farið, enda þótt fiskiskipin þar séu ekki síður mikilvæg því fólki sem hefur atvinnu í sjávarútvegi. Þar eru hins vegar möguleikarnir meiri til uppbyggingar nýrra atvinnuvega og stækkunar fyrirtækja sem fyrir eru. Svo dæmi sé nefnt er t.d. rætt um — ég endurtek: „rætt um það að stækka álverið í Straumsvík um helming, en ekki eru neinar hugmyndir um að byggja upp orkufrekan iðnað á Vestfjörðum.“ Vænti ég þess að ég hafi engan skaðað með því að segja að um þetta sé rætt, því m.a. hef ég orðið var við það, að slíkt væri gert hér á Alþingi.

„Þar sem þéttbýli er meira eru almennt fleiri möguleikar fyrir hendi að byggja upp aðrar og nýjar atvinnugreinar. Það er í reynd það sem um er að ræða þegar sjávaraflinn minnkar, að finna nýja möguleika á atvinnu. Þetta vil ég segja vegna þeirrar umr. sem hefur orðið um fækkun fiskiskipa. Ég segi það ekki vegna þess að ég hafi áhuga fyrir því að einu skipi sé lagt fremur en öðru, heldur vegna þess að ég tel mikilvægara en flest annað að ekki komi til atvinnuleysis í landinu. Það að koma í veg fyrir atvinnuleysi krefst skipulagðra vinnubragða.“

Þetta var það sem ég sagði um þessi mál á Fiskiþingi og taldi rétt að það kæmi hér fram vegna þessara umr. Ég hef aldrei nefnt ákveðna tölu skipa og síst af öllu hef ég nefnt 30 skip. Hins vegar hafa menn heyrt slíkar tölur í umr. Ég er þeirrar skoðunar að það sé allsendis fráleitt að tekist geti að leggja með skipulegum hætti 30 skipum.

Við skulum hins vegar gera okkur fulla grein fyrir því, að það mun reynast mjög erfitt að skapa skipunum rekstrargrundvött. Til þess er aflinn í reynd of lítill og hvert skip sem mundi hverfa úr veiðunum, hvort sem það væri til annarra veiða eða þeim væri lagt um stundarsakir, mundi vissulega gefa hinum skipunum meiri möguleika og tryggja þá betur því fólki atvinnu sem byggði á þeim skipum og draga úr sóknarkostnaðinum.

Hins vegar hefur því verið þannig farið á undanförnum árum að afli hefur verið takmarkaður á öll þau skip sem eru á miðunum með svonefndu skrapdagakerfi. Það kerfi er talið vera orðið mjög úrelt og tryggir það ekki að sóknarkostnaður sé eins lítill og mögulegt er.

Það er unnið að undirbúningi fiskveiðistefnu fyrir næsta ár. Það fyrsta sem þarf að vera ljóst áður en sú stefna er mörkuð eru tillögur Hafrannsóknastofnunar um veiðina í heild sinni. Það er ekki nægilegt að hafa aðeins hugmyndir um þorskinn. Hafrannsóknastofnunin mun skila þessum tillögum í lok þessarar viku eða í byrjun næstu. Að þeim fengnum verðum við að gera tillögur um veiðiskipulag fyrir næsta ár.

Ég hef sem betur fer ekki — og sækist ekki eftir því að hafa vald til þess að leggja ákveðnum skipum. Ég vil hins vegar gjarnan að menn geri sér grein fyrir því hvað það er alvarlegt mál að gera það. Mér hefur fundist að í umr. í landinu undanfarið væri látið að því liggja að það væri ekkert mál að leggja eins og 30 togurum. Það væri álíka og að skreppa útí mjólkurbúð. Það er nú öðru nær. Það mun skapa mikla atvinnuerfiðleika í þeim byggðarlögum sem verða fyrir því.

Það er náttúrlega nauðsynlegt, áður en lengra er haldið, að umræðurnar byggist á einhverri skynsemi, að menn geri sér grein fyrir afleiðingunum. Ég tel enga goðgá að nefna það, að ef slíkt á að gerast með skipulegum hætti, þá er nauðsynlegt að fólkið missi ekki atvinnuna og því verður að huga að nýjum atvinnutækifærum í staðinn, því það að missa út 200 þús. tonn af þorski verður að sjálfsögðu til þess að atvinna fólksins í landinu verður mun minni en ella hefði orðið. Það gera allir sér ljóst. En að koma hér upp og segja að ég sé að gera till. um það að flytja sjómenn og verkafólk ja, trúlega nauðungarflutningum í álverið í Straumsvík, hvers konar útúrsnúningar eru það eiginlega? Getur þm. ekki lesið rétt mína ræðu, fyrst hann fékk hana í hendur? Þar stendur: „Svo dæmi sé nefnt er t.d. rætt um það að stækka álverið í Straumsvík um helming, en ekki eru neinar hugmyndir um að byggja upp orkufrekan iðnað á Vestfjörðum.“ Liggur það ekki alveg á borðinu að það eru engar hugmyndir um að byggja upp orkufrekan iðnað á Vestfjörðum? Byggðirnar á Vestfjörðum þurfa að sjálfsögðu að dafna og vaxa eins og aðrar byggðir og ég sé ekki að þær geti gert það nema halda hlutdeild sinni í fiskveiðunum. Ég fæ ekki séð það.

Hins vegar sé ég ýmsa möguleika annars staðar. Og ég geri mér grein fyrir því að þetta þarf að gerast með skipulegum hætti og um það þarf að ræða. Og því segi ég þetta að ég vil ekki sætta mig við það að hér komi til atvinnuleysis. En það má vera að hv. fyrirspyrjandi vilji gjarnan sætta sig við það. Ef menn ætla ekki að sætta sig við það, þá þarf að huga að öðrum atvinnutækifærum. Ég hélt að þetta þyrfti út af fyrir sig ekki að ræða.

Síðan var um það spurt hvernig ég ætli að vinna að þessari stefnu. Það liggur fyrir að aðilar frá hagsmunaaðilunum í sjávarútvegi eru að vinna að þessum málum og þeir þurfa að fá bærilegan tíma til þess. Þeir munu svo gefa ráð því Fiskiþingi sem situr nú að störfum.

Ég vil gjarnan taka það fram að sjútvrh. eða ríkisstj. hefur engar heimildir til að stöðva einstaka togara. sjútvrh. eða ríkisstj. hefur ekki einu sinni heimild til að skipta aflanum niður í svokallaða kvóta, þ.e. togveiðinni.

Ég hef kallað saman sjútvn. þingsins til þess að ræða það nú í vikunni m.a. hvernig beri að snúa sér í því, hvort það sé ekki rétt að sjútvrh. fái þar rýmri heimild. Það hefur t.d. verið rætt um það og talið skynsamlegt af öllum að auka dragnótaveiðina. En við höfum ekki heimildir til þess í lögum, þannig að mál þessi verða að koma til þingsins nú á næstunni.

Jafnvel þótt það sé mikilvægt að hafa sem bestan frið um þessi mál, og ég er því sammála að við þurfum að koma okkur saman í landinu um þessi stóru vandamál, þá verður samt ekki hjá því komist stundum að spyrja: Hvernig á að fækka skipum? Og spyrja þá sjálfan sig: Hvernig er það skynsamlegt? Menn hafa, vænti ég, oft hér á Alþingi kastað því fram að skipin séu allt of mörg, hvað þá við núverandi aðstæður. Það eru í reynd allir sammála um að flotinn sé of stór. Ég hefði því talið að það væri aðeins af hinu góða að velta því fyrir sér hvernig þetta yrði best gert, þannig að það kæmi sem minnst við íbúa landsins. En þegar er verið að leggja það út á þann veg að verið sé að ráðast að hagsmunum einhverra ákveðinna byggðarlaga og einhvers ákveðins fólks og það eigi að fara að draga það nauðungarflutningum í önnur fyrirtæki, þá er mér alveg nóg boðið. Ég vænti þess að það sé í reynd ekki það sem hv. þm. er hér að halda fram.

Ég hafði vænst þess að hér gæti orðið hlutlæg umræða um þessi miklu vandamál. Hún snertir alla. Hún snertir ekki aðeins þingið. Hún snertir líka fólk utan þessa húss. Og að sjálfsögðu er mér heimilt að ræða þau vandamál á þeim þingum sem haldin eru, t.d. Fiskiþingi. Fiskiþing hefur verið starfandi mjög lengi og er búnaðarfélag sjávarútvegsins og er skipt niður og byggt upp félagslega út um allt land. Ég hefði haldið að það væri engin vanþörf á því að minnast á þessi miklu vandamál þar. Ég hefði haldið að það væri engin vanþörf á að minnast á þessi miklu vandamál, hvort sem það er á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins eða á aðalfundi LÍÚ. Það hef ég gert, en án þess að ég væri kominn þar með ákveðna niðurstöðu. Það er ekki hægt að ætlast til þess að sú niðurstaða liggi fyrir enn sem komið er. En ég tek undir það, að það verður vandasöm niðurstaða og það verða sjálfsagt ekki allir öfundsverðir í landinu af að búa við hana.