29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann veitti að nokkru við þeim spurningum sem ég bar hér fram. En því miður voru þau svör ekki á þann veg að þau gefi tilefni til að eyða þeim ótta og þeim ugg sem búið hefur um sig síðasta sólarhring síðan fréttir bárust af yfirlýsingum hæstv. sjútvrh. Hæstv. sjútvrh. þarf ekki að verða reiður hér í ræðustól og setja sig í ávítunarstellingar gagnvart hv. þm. Þorri þeirra sem heyrt hafa frásagnir af ræðu hæstv. ráðh., mér vitanlega, hafa skilið hana einmitt á þann veg, sem ég vék að áðan, að það ætti númer eitt að fækka skipum eingöngu hér á suðvesturhorninu og númer tvö að önnur atvinnutækifæri sem ráðh. hefði í huga væru meiri álvinnsla. Í sinni ræðu varpaði hæst. ráðh. engu nýju ljósi á þessi tvö höfuðatriði. Hann las þann texta sem hann flutti á Fiskiþingi, og það var nákvæmlega það sem ég sagði í ræðustólnum að hann hefði sagt, en til viðbótar fór hann að reyna að útskýra málið hér og nefndi ekki eitt einasta annað atvinnutækifæri sem kæmi til greina en stækkun álversins, og fór hann þó mörgum orðum um það að önnur atvinnutækifæri kæmu þarna til greina en álverið. Stækkun þess var það eina sem hann nefndi.

Það væri æskilegt, ef hæstv. sjútvrh. hefur víðari sýn til þessara mála en um Straumsvíkina eina, að hann teldi þá upp hér í ræðustól hvaða önnur atvinnutækifæri það eru sem hann hefur í huga þegar hann verður búinn að koma því í framkvæmd, sem greinilegt er að stefnt er að, að loka að meira eða minna leyti um langt skeið sumum elstu og stærstu hraðfrystihúsum landsins.

Ég spurði hæstv. ráðh. að því nákvæmlega og skýrt, hvaða þéttbýlisstaðir það væru sem ráðh. vék að í ræðu sinni og endurtók hér í ræðustól. Það komu heldur engin skýr svör við því hér í stólnum. Ráðh. bar ekki á móti þeim skilningi, sem ég gat um að væri mjög útbreiddur utan þings, að hann ætti fyrst og fremst við togaraútgerð og frystihús á stór-Reykjavíkursvæðinu og á Suðurnesjum. Hann bar ekki á móti því hér. Ég spurði hann þó gagngert og skýrt: Á hann einnig við þéttbýlisstaði í öðrum landshlutum? Við því kom ekkert svar. Eftir ræðu hans stendur því enn það sama og eftir fiskiþingsræðu hæstv. ráðh., að hann er fyrst og fremst með þéttbýlisstaðina hér í huga. Er satt að segja fróðlegt að fá um það upplýsingar hér ómótmælt, að sú lausn sem unnið er að á vegum hæstv. ríkisstj. á þessum mikla vanda, sem við erum allir sammála um að er mjög mikill, skuli fyrst og fremst vera af þessu tagi. Það eru fréttir fyrir Reykvíkinga, það eru fréttir fyrir Reyknesinga að þeir ráðh. sem sitja í þessari ríkisstj. og kjörnir voru til að gæta trúnaðar fólksins í þessum tveimur kjördæmum skuli standa að undirbúningi svona stefnumótunar, að hv. 1. þm. Reykv. skuli vera að vinna að því innan þeirrar ríkisstj. sem hann er fjmrh. í að leggja drög að því að sum traustustu fyrirtækin hér í höfuðborginni verði tekin úr umferð. Það getur vel verið að hæstv. fjmrh. þyki þetta gamanmál, en ég get sagt honum að fólkinu í frystihúsunum hér, eigendum frystihúsanna og þeim sem bera ábyrgð á hinum félagslegu frystihúsum þykir þetta ekki gamanmál. Þeim þótti það ekki gamanmál þegar þeir heyrðu það í útvarpi í gær og lásu í fjölmiðlum í dag að eina svæðið sem til umræðu væri að tæki á sig þennan mikla vanda væri þeirra rekstrarsvæði eitt.

Við skulum gera okkur fulla grein fyrir því, að þegar tekið verður á þessum mikla vanda verður að gera það þannig að fólkinu í landinu þyki sanngirni gætt, fólkinu í landinu þyki tekið á þeim málum af víðsýni og raunsæi, þannig að allir leggi sitt af mörkum til að greiða úr lausn vandans. Ég spurði hæstv. sjútvrh. einnig í þriðja lagi að því, að hve miklu leyti rekstrarleg og fjárhagsleg hagkvæmni yrði látin ráða í þessum efnum. Ég vek athygli á að við því kom ekkert svar. Hæstv. ráðh. vék ekki að því í fiskiþingsræðu sinni og hann skaut sér einnig undan því að svara því hér, að hve miklu leyti fjárhagsleg staða fyrirtækjanna, eignaleg staða fyrirtækjanna og rekstrarhagkvæmni viðkomandi útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja, yrði látin ráða í þessum efnum. Og hvers vegna gerði hann það ekki? (Gripið fram í: Ólafur. Svara þú nú einu sinni.) Já, ég skal svara því mjög skýrt. Það er óhjákvæmilegt að þegar Íslendingar eru að takast á við grundvallarvanda í höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar eigi rekstrarleg staða, fjárhagsleg staða fyrirtækja, hvort sem þau eru í félagslegri eign eða í einkaeign, að vera einn af afgerandi þáttum sem setja svip sinn á lausn vandans. (Gripið fram í: Á þá auðvaldið að ráða?) Það getur vel verið að hv. þm. Ólafur Þórðarson sé enn að velta því fyrir sér hvort auðvaldið eigi að ráða. (ÓÞÞ: Ég hélt að þú boðaðir það ekki.) Nei, það boða ég ekki. En Alþb. hefur aldrei boðað og boðar ekki hér heldur að það sé kommissarakerfið, sem hv. þm. stendur að á fjölmörgum sviðum í þessu þjóðfélagi, sem eigi líka að fara að ráðskast með hvernig eigi að leysa vanda þessara fyrirtækja. (Gripið fram í.)

Það er einmitt okkar afstaða að það eigi að taka tillit til þess hvar á landinu sé hægt að byggja upp fyrirtæki, hvort sem þau eru í félagslegri eign eða í einkaeign, sem geta staðið undir sér rekstrarlega og fjárhagslega séð, unnið sig út úr vanda sem þessum, en það sé ekki haldið á málunum þannig að það sé kannske fórnað vegna skammsýni rekstri ýmissa traustustu fyrirtækjanna á þessu sviði, vegna þess að menn af misskilningi eða af öðrum ástæðum hafi kosið að ýta þeim til hliðar og láta önnur fyrirtæki hafa forgang. Hvað sem liður öðrum þáttum þessa máls hljóta allir að sjá, jafnvel einnig hv. þm. Ólafur Þórðarson, jafnvel einnig ýmsir aðrir þm. Framsfl., að sjávarútvegur á Íslandi, hvort sem hann er í félagslegri eign eða einkaeign, verður ekki byggður upp til frambúðar nema á hagkvæmum rekstrargrundvelli, nema með skynsamlegu fjármagnskerfi og með því að treysta í sessi þau fyrirtæki sem geta í raun og veru staðið undir þeirri miklu sókn í sjávarútvegi á landinu sem auðæfi Íslendinga byggjast á. (Gripið fram í: Þú veist ekkert um sjávarútveg.) En það sýnir e.t.v. að það kann að búa ákveðnari stefnumótun að baki þeirri almennu yfirlýsingu, sem hæstv. sjútvrh. hefur látið frá sér fara, að hv. þm. Ólafur Þórðarson skuli telja nauðsynlegt að grípa inn í umr. um þessi efni á nákvæmlega sama hátt og hv. þm. Stefán Guðmundsson greip inn í umr. hér þegar fyrir nokkrum dögum var verið að ræða um það ákvæði í lögum um ríkismat sjávarafurða sem gefa átti sjútvrh. algjört úrskurðarvald um að ráða hvaða fyrirtæki væru starfrækt í íslenskum sjávarútvegi.

Ég ætla að vona að umr. um þetta höfuðmál íslensku þjóðarinnar verði byggð upp með skýrari hætti, með afdráttarlausari hætti en hæstv. ráðh. hefur gert hér í dag og af meiri víðsýni og meiri skilningi á íslenskum atvinnuvegi en frammíköll hv. þm. Ólafs Þórðarsonar gefa tilefni til að ætla.

Ég vil að lokum, herra forseti, ítreka þá ósk mína til hæstv. sjútvrh. að hann svari þeim þremur spurningum sem ég bar fram í minni fyrstu ræðu og hann svaraði ekki í sinni svarræðu. Það er í fyrsta lagi: Hvaða önnur atvinnutækifæri eru það en álverið sem hæstv. ráðh. hefur í huga, því önnur hefur hann ekki nefnt? Í öðru lagi: Hvaða aðrir þéttbýlisstaðir eru það en þéttbýlisstaðirnir hérna á suðvesturhorninu sem hann á við í ræðu sinni? Og í þriðja lagi: Að hvað miklu leyti ætlar ráðh. að taka tillit til fjárhagslegrar stöðu, rekstrarlegrar hagkvæmni og annarra efnahagslegra þátta í stefnumótun sinni?