29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Það fer ekki milli mála að það mál sem hv. 7. þm. Reykv. hefur vakið hér máls á skiptir miklu fyrir framvindu efnahagsmála í landinu. Og það er alveg ljóst að það mun skipta miklu máti fyrir afkomu alþýðu manna í landinu hvernig til tekst við úrlausn þeirra vandamála sem hér blasa við. Það er því eðlilegt að þessi mál komi til umr. á hinu háa Alþingi, og þau eiga ugglaust eftir að gera það í ríkara mæli en hér í dag. En ég vil vara við því að þessi umr. verði hafin með togstreitu á milli byggðanna í landinu. Það er allsendis óþarfi. Og það er alveg ljóst að ef við hefjum umr. í þeim farvegi er eins líklegt að við lendum í ógöngum og finnum ekki þær lausnir sem skynsamlegastar eru.

Það var á margan hátt athygli vert að hlýða á þá gagnrýni sem hv. 7. þm. Reykv. bar fram vegna hugleiðinga hæstv. sjútvrh. Einkanlega var athygli vert að hlýða á þessa gagnrýni í ljósi þeirrar afstöðu sem Alþb. hefur lýst í umr. um efnahagsmál á undanförnum mánuðum. Alþb. var sem kunnugt er alfarið andvígt því, að því mikla áfalli sem þjóðin hefur orðið fyrir, hinu mikla falli í þjóðartekjum, yrði jafnað með almennum aðgerðum á sviði launamála niður á fólkið í landinu. Það taldi og hefur talið í umr. um efnahagsmál undanfarna mánuði að það ætti ekki að aðhafast neitt á þessu sviði til að tryggja atvinnu í landinu og jafna byrðunum niður. Stefna þess hefur verið sú, að það ætti að vinda — eins og þeir hafa stundum sagt — ofan af fjárfestingarmistökum undangenginna ára.

Ég hef yfirleitt verið vantrúaður á að talsmenn Alþb. meintu eitthvað með yfirlýsingum af þessu tagi, því að það má öllum vera ljóst, að ef einvörðungu yrði gripið til aðgerða á þessu sviði mundi það leiða til mjög víðtæks atvinnuleysis. Við kynnum að tryggja hluta þjóðarinnar óskertan kaupmátt, en mundum gera það með því að dæma aðra til atvinnuleysis. Þess vegna hef ég haft litla trúa á því að talsmenn Alþb. meintu það í raun og veru að þetta væri þeirra stefna.

Ræða hv. 7. þm. Reykv. varpaði nokkru skýrara ljósi á þá mynd sem Alþb. vill draga upp af stefnu sinni. Alþb.- menn eru á móti almennum aðgerðum á sviði launamála. Þeir vilja lausn með aðgerðum í fjárfestingarmálum, en þeir eru alfarið á móti hvers konar afleiðingum af framkvæmd slíkrar stefnu. Það er kjarninn í þeirra málflutningi, sem hv. 7. þm. Reykv. hefur með afar einföldum og skýrum hætti lýst í þessari umr.

Auðvitað er það svo, að þegar afli minnkar hlýtur það að koma niður á atvinnuástandi í landinu. Undan því verður ekki vikist. Það er að því vandamáli sem við þurfum nú að beina sjónum okkar og finna úrlausnir til að jafna þeim byrðum sem réttlátlegast niður og af sem mestri skynsemi. Það er auðvitað svo, að afkoma alþýðu manna í þessu landi er undir því komin að við kostum sem minnstu til að koma með sem mestan afla að landi. Afkoma útgerðarinnar er undir þessu komin, afkoma sjómanna og afkoma fólksins sem vinnur í landi. Þess vegna er verið að undirbúa aðgerðir til að draga úr þessum kostnaði og minnka sóknina þegar við stöndum frammi fyrir minnkandi fiskafla.

Það er alveg ljóst að það er engin algild lausn sem menn finna og það þarf að beita margs konar ráðum ef menn ætla að finna sanngjarna og skynsamlega leið út úr ógöngunum. Við þurfum vafalaust með almennum aðgerðum að hjálpa aðilum til að halda áfram útgerðarrekstri. Við þurfum með sérstökum aðgerðum að hjálpa öðrum til að hætta að gera út. Það er út frá þessum sjónarmiðum sem við erum að leita leiða út úr ógöngunum. Og þá er spurningin: Hvaða sjónarmið á að leggja til grundvallar þessu mati? Ég held að í grófum dráttum sé hægt að segja að þau geti verið þrjú:

1. Mat á arðsemi útgerðar í ákveðnum tilvikum.

2. Ekki er óeðlilegt að leitað verði samninga um að dregið verði úr útgerðarrekstri opinberra aðila í landinu. Auðvitað verður ekkert slíkt gert með valdboði gagnvart þeim opinberu aðilum sem stunda útgerðarrekstur. En við vitum að það hefur verið til þessa reksturs stofnað vegna þess að einkaaðilar gátu ekki á þeim tíma sótt þann afla sem við áttum þá kost á. Nú, þegar við stöndum frammi fyrir því að geta ekki dregið þennan afla að landi, er ekki óeðlilegt að við leitum eftir því að þessir aðilar dragi fyrst og fremst úr sókn sinni í fiskstofnana.

3. Þá er eðlilegt að við lítum til þess, að þegar við hyggjum að því að hjálpa aðilum til að hætta útgerðarrekstri verði það gert þar sem við á sama tíma erum að hefja uppbyggingu annars konar atvinnustarfsemi. Ég lít svo á að það hafi verið einmitt þetta atriði sem hæstv. sjútvrh. var að benda á í ræðu sinni á Fiskiþingi og hér varð tilefni til þessara umr.

Öll þessi sjónarmið og kannske ýmis fleiri hljótum við að leggja til grundvallar. En það er ástæða til þess að taka hér fram að það skiptir miklu máli að við undirbyggjum ákvarðanir á þessu sviði af kostgæfni. Það er verið að gera um þessar mundir með víðtæku samráði við þá aðila sem mestra hagsmuna hafa að gæta. Og það skiptir máli, þó að það taki nokkurn tíma, að standa á þann veg að undirbúningi ákvarðana, því að samstaða þjóðarinnar í þessum miklu átökum skiptir máli ef við ætlum að losna úr þeim. Það eru þess vegna engin tilefni til þeirra útúrsnúninga sem hv. 7. þm. Reykv. hefur haft hér í frammi á þessu stigi þessa máls.