19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki gamalt, þetta þing, en mikið vorum við búnir að bíða lengi hér á Alþingi eftir að fá slíka snillinga sem þeir eru Bandalagsmenn, eftir því sem fram er komið í málflutningi þeirra og nú síðast hjá hv. 8. þm. Reykv. Ég er alveg viss um að hér eftir fáum við tillögur úr hugmyndabanka þeirra sem leysa öll okkar vandamál.

Ég lít ekki svo á, og svara hv. 8. þm. Reykv. fyrst, að launauppbæturnar verði skoðaðar sem brandarar. Ég held að fólk taki þær mjög alvarlega og að allar launauppbætur sem koma, hvað mikil sem hækkunin er hverju sinni, séu vel þegnar. En hvað í ósköpunum hafa þá vinstri flokkarnir verið að gera nýkomnir úr stjórnarsetu, sem þjóðin veit að sjálfsögðu að var alltof löng? Af hverju voru þeir ekki búnir að hækka launin? Af hverju voru þeir ekki búnir að hækka persónufrádrætti? (Gripið fram í.) Nei, nei, ég er bara að tala almennt. Það er talað um að þetta þurfi að gera. Af hverju var þetta ekki gert þegar vinstri flokkarnir fóru með fjármálin og stjórnina almennt í landinu? (Gripið fram í).

Stjórnin er sterk. Hún er einnig viljasterk og stendur af sér allar þær hríðir sem geta komið frá nýsköpuðum þm. hér. Það er óhætt að undirstrika það, því að tillögur Bandalagsmanna eru í einum pakka það sama og var. Málflutningurinn er ekkert annað, með breyttum orðum, en var og ég sé ekki að það komi til með að breyta þessu þjóðfélagi nokkurn skapaðan hlut. — Og það er ekki að berja hausnum við steininn að tala á þingi. Það er yfirleitt tekið nokkuð mikið mark á því sem sagt er. Nál. eru almennt einnig rædd í nefndum og hef ég orðið var við þar að tekið hefur verið tillit til minni hl., hvort sem þeir hafa náð öllu sínu fram eða ekki. Það er ekki alltaf tekið til greina sem þeir segja, en það er þó vissulega tekið mark á því sem sagt er og oft hafa frv. komið breytt fyrir tilstilli minni hl. Við skulum því ekki gera þingræðið að slíkum samastað sem þessir ágætu hv. þm. virðast halda að hann sé. Þeir eiga eftir að læra að fólk vinnur hér vel saman. En það vil ég undirstrika, að þessi stjórn er sterk og hún stendur af sér þau skynsemisköst sem koma frá þessum ágætu nýju þm. Hér er ekki um neina glundroðastefnu að ræða. Hér er verið að taka til í efnahagslífinu. Þeir bara gera sér ekki grein fyrir því. Það er ekki nema eðlilegt. Menn sem koma með það veganesti inn á Atþingi á fyrstu dögum Alþingis að þeir viti allt og hafi ráð við öllu eiga eftir að reka sig illþyrmilega á að það eru margir aðrir sem hafa hugmyndir, og oft kemur fram að aðrir hafa betri hugmyndir en sá sem fullyrðir hvað mest.

Virðulegur 2. þm. Austurl. talaði um mildandi aðgerðir. Eigum við að bera saman ennþá einu sinni? Þá skal ég gera það. Með leyfi forseta, þá hef ég verið að tala um og bera brbl. fyrrv. ríkisstj. og þessarar ríkisstj. Og þegar ég ber þau saman ber ég saman það eina skipti sem þessi ríkisstj. hefur skert vísitölu launa og tek fjórtándu skerðingu síðustu ríkisstj.

Þessi ríkisstj. skerti vísitölu launa. Það gerði hin líka með brbl. Við lækkuðum gengið í þessari ríkisstj. Það gerði síðasta ríkisstjórn líka. Við notuðum gengismun á sama hátt og síðasta ríkisstj. Svo kemur hin mildandi aðgerð hjá okkur, sem er hækkandi persónufrádráttur, mæðralaun og barnabætur. Á móti kom svo aftur hjá síðustu ríkisstj. lækkandi vörugjald á vörur og nýir vörugjaldsflokkar. Það kalla ég harðari aðgerðir en aðgerðir okkar. Það fer því ekkert á milli mála að aðgerðirnar eru mildandi hjá okkur miðað við það sem síðasta ríkisstjórn gerði.

Að sjálfsögðu segir sig sjálft að þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar og hafa lækkað verðbólguna í landinu um og yfir 100% frá því í maí niður í 30%, eins og hún var síðast þegar hún var mæld, hljóta að koma fólkinu í landinu til góða. Annað getur ekki verið. Og ef fólk á erfitt með að búa við 11 eða 12 þús. kr. í dag, sem ég efa ekkert í 30% verðbólgu, hvernig hefði þá verið ástandið hér ef verðbólgan væri komin yfir 150 eða dansaði milli 150 og 200%? Nú heyrum við og sjáum, þegar síðustu hækkanir á landbúnaðarafurðum voru kynntar og launahækkanir, að í fjölmiðlum er talað um, eftir að verðhækkanir hafa verið kynntar, að hefði vísitala launa ekki verið skert hefði fólkið í landinu fengið svona og svona miklu meira í krónutölu í laun. En það er ekkert talað um hvað vöruverðið hefði hækkað mikið ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar. Hvað hefði fólkið þá haft í ónýtum krónum í staðinn fyrir að vera með verðmeiri krónur í vasanum?

Það er furðulegt að Alþb.-menn skuli voga sér út í að tala um ástandið eins og það er núna, nokkrum mánuðum eftir að ríkisstj. tekur við af þeim, því að ástandið í þeim ráðuneytum sem þeir höfðu með höndum var þannig — og ekki bara í þeim rn. sem þeir höfðu með höndum heldur í öllum ráðuneytum — að gersamlega allt fé til reksturs ráðuneyta og allra stofnana var þurrausið um miðjan apríl. Alþb. gefur í skyn í sjónvarpsviðtali að það hafi verið 800 millj. kr. í sjóði eða rúmlega það um áramótin 1982–1983 og vitnað í ríkisreikninga til að villa um fyrir fólki. Hvað skeður þá, þegar það er hátt á annað þús. millj. í apríl — maí í yfirdrætti Seðlabanka? Það er skýring á því að Alþb., þessi sjálfskipaði talsmaður verkamanna á Íslandi, hækkaði ekki launin. En þeir skuli svo koma, meðan aðrir eru að reyna að hreinsa til eftir þennan virðulega flokk eða hitt þó heldur, og voga sér í umr. um þessi mál, — svo maður ekki tali um á annan milljarð dollara í yfirdrætti erlendis, sem þýðir það, eins og allir vita og hefur margkomið fram í umr. og fréttum, að heildarskuldir þjóðarinnar eru komnar langt yfir þau hættumörk sem hvaða þjóðfélag sem er er talið þola.

Það er alveg rétt, að bæturnar sem hafa verið hækkaðar, bæði mæðralaunin og barnabætur, mættu vera hærri. En það var aldrei áður hugsað um að hækka þetta. Það voru engir tilburðir til að hækka þessa liði meðan síðasta ríkisstjórn sat við völd. Þá var ekkert hugsað í þessa átt. Það er margbúið að gera ráðstafanir í efnahagsmálum. Ef þessar bætur eru lágar nú með 100% hækkun hljóta þær að hafa verið lágar áður en þær voru hækkaðar. Menn hafa bara ekkert hugsað út í að fólkinu líði vel.

Í sambandi við 3. gr. Ég get vel svarað því, af því að ég skrifaði það niður eftir hv 2. þm. Austurl. Auðvitað hef ég áhyggjur af því fólki sem þar um ræðir. Ég hef miklar áhyggjur af því. Í öllu mínu starfi hef ég haft áhyggjur af þessu fólki, bæði sem sveitarstjórnarmaður og á Alþingi, og það bera þær tillögur með sér sem við Guðmundur J. Guðmundsson höfum hvað mest flutt saman á Alþingi síðan við urðum þm. saman. En það er eitt hvað maður vill gera og annað hvað er hægt að gera. Ég hefði treyst mér til að gera miklu meira fyrir þetta fólk hefði ástandið verið, þegar ég kom að störfum í fjmrn., eins og var þegar Alþb. tók við fjmrn. — Og ég verð að segja alveg eins og er: Ef hv. þm. hafa ekki tekið eftir því, þá skal þess getið að engar nýjar álögur hafa verið lagðar á síðan ég kom í rn. Meira að segja neitaði ég að leggja kílóagjald á bifreiðir og umferðina. Það hefur ekkert verið gert annað en lækka þetta og lækka hitt þrátt fyrir vandann. En þetta kemur allt fólkinu til góða og hlýtur að auka verðgildi krónunnar í innkaupum , þannig að það er þó verið að gera eitthvað þó að það sé ekki með beinum fjárframlögum. eins og ég veit að Alþb. er með í huga þegar aðrir stjórna, en hugsa ekkert um þegar þeir stjórna sjálfir.

Í sambandi við 3. gr. Ríkisstj. bætti við í maí 150 millj. kr. til jöfnunar og lækkunar á húshitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis, þegar Alþb. gerði ráð fyrir 5 mánuðum fyrr við gerð fjárl. aðeins 35 millj. kr. Í hvaða stöðu er Alþb. til að deila á þessa 150 millj. kr. viðbót? Það getur verið að hún sé ekki nóg, það þurfi að gera meira, en hún er þó nokkru hærri upphæð en Alþb. gerði ráð fyrir á fjárlögum. Það er alveg sama hvar á er litið. Það var hrein óstjórn hjá Alþb. miðað við þann málflutning sem þeir hafa uppi nú.

Annars er það athyglisvert, og það er kannske umhugsunarefni fyrir nýja þm. Reykv., kannske eldri þm. annars staðar frá líka, að húshitunarkostnaði er ekkert jafnað meðan hitaveitum eins og t.d. Hitaveitu Reykjavíkur er haldið niðri í um 6,40 kr. pr. tonn á seldu vatni á sama tíma sem hitaveitur úti á landi, eins og á Akureyri, eru að fá í hækkun eingöngu 8 kr. Ef verðið á heita vatninu í Reykjavík væri það sem það þarf að vera og það kæmi inn í húshitunarkostnaðinn væri kannske minna miðað við þá upphæð sem þá væri ætluð til dreifingar úti á landi.

Það eru ýmsir aðrir liðir sem snerta búsetu sem ættu að koma inn í líka og reikna ætti út búsetukostnað á öðrum sviðum og vita hvort það er ekki að einhverju leyti dýrara að búa í Reykjavík en úti á landi og taka það þá inn í heildarbúsetukostnaðinn en ekki þennan eina lið eingöngu.

Hv. 2. þm. Austurl. spyr hvaða útgjöld verði lækkuð samkv. 4. gr. Ég vil fá að bíða með að svara því þangað til ég flyt mína fjármálaræðu, með leyfi hv. þm., ég held að það sé ekki ósanngjörn ósk.

Það er undarlegt hvernig hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason virðist taka með annarri hendi um hálsinn á mér og reyna að hengja mig, en klappar mér svo með hinni. „Ráðstafanirnar ná alltof skammt og við í Alþfl. viljum gera miklu meira“. Þetta er alveg rétt. Alþfl. hefur alltaf viljað gera miklu meira en tillögur sem koma fram. Það er alveg sama hvaðan þær koma. Það er af því að Alþfl. hefur aldrei þurft að vera ábyrgur fyrir sínum tillögum. En það var lítið sem kom fram af þessum stóru tillögum þegar þeir voru um skamma stund í ríkisstjórn, afskaplega lítið. Þetta kemur mér ekkert á óvart. Þetta á eftir að halda áfram að vera svona og ég býst við að ég þurfi að margsvara þessari sömu spurningu. Alþfl. vildi þetta og Alþfl. vildi hitt. Hann vill allt frá öllum, nema þegar hann sjálfur er ábyrgur fyrir einhverju.

En ég veit ekki hvar þessar tillögur Alþfl. komu fram. Þær komu svo sannarlega ekki fram við stjórnarmyndunarviðræðurnar — ekki á þeim fundinum sem ég sat í stjórnarmyndunarviðræðum með Alþfl. Það getur verið að það hafi komið fram á einhverjum leynifundum utan við þá nefnd sem sat í og reyndi að ná saman ríkisstjórn innan Sjálfstæðisflokksins, en það komu svo sannarlega ekki fram í þeirri nefnd sem ég sat í neinar aths. við neitt af því sem hafði verið rætt þar og endanlega varð svo stefnuyfirlýsing ríkisstj.

Eitt var það þó sem kom fram og enginn gat samþykkt, fyrst frá formanni og síðar frá varaformanni. Það var að Alþfl. vildi fá forsrh. Það var það einasta eina. Það var slíkur úrslitakostur að hann gekk út frá öllu saman, en þó ekki fyrr en hann var búinn að samþykkja áður en hann gekk út frá okkar viðræðum að slíta viðræðunum. Þetta er Alþfl. Við skulum ekki vera með neinn leikaraskap. Við skulum bara tala hreint út.

Ég verð að segja alveg eins og er, að mér er ekki nokkur leið að skilja hvernig fólk lifir af 11–12 þús. kr. Mér er ekki nokkur leið að skilja það. Það hlýtur að vera mjög sparsamt fólk sem gerir það og ég er ekki í nokkrum vafa um að það er í miklum vanda. En því miður er þjóðfélagið orðið þannig, að það er ekkert svigrúm til. Það er það furðulegasta við það. Ég held að við getum öll verið sammála um að þetta eru lág laun og öll getum við verið sammála um að við verðum að finna leiðir til að bæta úr þessu þegar þar að kemur. En hvernig, það er galdurinn. Það er verið að leita að leiðinni. Til þess þurftum við að fá ákveðið svigrúm og það kalla Alþb.-menn og kannske einhverjir fleiri að samningarnir hafi endanlega verið rofnir og aldrei fái nokkur maður að semja um sín launakjör aftur. Þetta var nú bara frestun í 4,5 eða 6 mánuði — svigrúm sem ríkisstj. þurfti að hafa til að finna leiðir. Ég tek undir að ná þarf þarna árangri í áföngum. En hvernig á að gera það? Á að halda áfram erlendri skuldasöfnun? (Gripið fram í: Er ekki meiningin að gera það?) Að halda áfram erlendri skuldasöfnun? Nei, það er ekki meiningin að halda áfram erlendri skuldasöfnun. — Á að halda áfram að safna skuldum í Seðlabankanum? Á að leggja meira á fólkið eða á að skera niður ríkisbáknið og reyna að spara og draga saman þá helst það sem helst má leggja niður?

Það er ágætt að fá ádeilu. Það er ekkert að því. En eins og við höfum hlustað á núna síðustu dagana og má segja síðan að kosningum loknum, þá hefur ekki komið neitt annað en ádeilan. Einhverjar hugmyndir um hvað stjórnarandstaðan vill, hvað hún telur mögulegt og hvernig hún ætlar að standa undir sínum tillögum, hafa ekki komið fram. Það er ausið út tillögum og krítík á það sem verið er að gera. Ef einhvern tíma koma fram tillögur segja þeir bara: Það er ykkar að finna lausn. Þið hafið gefið kost á ykkur til að stjórna. — Og það sem við gerum svo er einskis virði. Um leið og menn eru komnir í trúnaðarstöðu eru þeir orðnir vondir menn og vilja öllum illt gera.

Til þess að svara hvað þessi ráðstöfun ríkisstj. þýddi þó skattalega séð. Hækkun persónufrádráttarins og barnabóta fól það í sér að tekjuskattar einstaklinga hækkuðu á milli áranna 1982 og 1983 um aðeins 39.8%, en hefðu án þessara aðgerða hækkað um rúm 55%. Hér er því á ferðinni allveruleg skattalækkun, eins og kemur glöggt fram í því að tekjur landsmanna milli áranna 1982 og 1983 hækkuðu um 59% að því er áætlað er, en tekjuskattur aðeins um 40%. Hlutfall beinna skatta til ríkis og sveitarfélaga af brúttótekjum greiðsluársins lækkaði þannig úr 12.9% niður í 12.5%.

Af því að við erum búnir að vera það lengi saman á Alþingi, mennirnir sem ég er nú að svara, hv. 5. landsk. þm. og hv. 2. þm. Austurl. verð ég að ætlast til þess að þeir sýni mér a.m.k. sama samstarfsvilja og sömu sanngirni og ég hef sýnt þeim frá því að samstarf okkar hófst hérna, séu ekki með neitt fleipur, heldur haldi sig að þeim staðreyndum, þó að þær séu sárar, sem komu út úr því stjórnarsamstarfi sem þessi ríkisstj. er nú að taka við af. Þann samanburð þolum við allavega ennþá, því að hingað til höfum við ekki haft tíma til neins annars en að gera okkur ljóst í hvaða ófremdarástand ríkisstjórn og land og þjóð stefndu, sem undirstrikast af þeim staðreyndum að Alþb. sá ekkert annað og enga aðra leið út úr þessum vanda, sem þeir þekktu en þáverandi stjórnarandstaða ekki, en að gera tillögur um þjóðstjórn til þess að vinna eftir neyðarplani til fjögurra ára. Þessi staðreynd er þó raunverulega rétt. Ég reikna ekki með að Alþb.-menn mótmæli henni.

En þetta lagast nú allt. Við erum búnir að fá nýja og góða menn sem mér skilst á fáum og stuttum ræðum sem þeir hafa flutt hér að hafi lausn við öllum vanda sem þjóðin kann að eiga eftir að glíma við.