29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

Umræður utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það var ekki óvenjulegt að heyra hv. 4. þm. Suðurl. fjalla hér um sjávarútvegsmál og önnur mál tengd sjávarútvegi í hringekjuleik. Fyrst réðst hv. þm. á skynsamlegar ábendingar og rök varðandi stöðu og stefnu í sjávarútvegi. Síðan staðfestir hv. þm. þá skoðun sína að fækka megi skipum hér og þar og hann vill láta banna netaveiðar og taka þannig fram fyrir hendurnar á þeim mönnum sem eiga að meta þessa hluti og velja og hafna af skynsemi og eftir þeirri reynslu sem þeir eiga að byggja á. Ætli það sé ekki heppilegast að láta skipstjórnarmenn og útvegsmenn meta hvaða veiðarfæri þeir vilja og eiga að nota hverju sinni, svo fremi að lög landsins leyfi.

Stundum vill hv. þm. Garðar Sigurðsson veg einstaklingsfrelsisins mikinn, en alltaf situr hann fastur þegar yfir lýkur í miðstýringunni. Það kemur fram í skoðun þm. á kvótakerfi í fiskveiðum þrátt fyrir að hann sem reyndur veiðimaður ætti að skilja að slíkt kvótakerfi getur ekki gilt með skynsemi á óbreyttum flota þegar um er að ræða of fáa fiska til veiða. Þessi kvóti gæti gilt ef um væri að ræða það mikið magn að hægt væri að veiða eins og menn vildu. Þá væri það kannske skynsamlegt. (EG: Af hverju fylgir þú þá kvótanum?) Af hverju? Það getur komið margt til í nýtingarhlutföllum milli fiskstofna og milli svæða sem getur verið skynsamlegt að stýra, þannig að hagkvæmni sé.

Þá verður hægt að víkja að einu. Þegar rætt er um það að fækka eigi skipum er það mjög viðkvæmt mál sem auðvitað verður að skoða frá öllum hliðum. Það hefur komið fram hér í ræðum manna í dag. En það var undarlegt að heyra 4. þm. Suðurl. segja að það mætti fækka skipum hér og þar, á Akureyri, á Ísafirði, í Vestmannaeyjum. Þetta voru bara þrjú dæmi. Samt sem áður var undirstrikað að þessi skip væru til að halda uppi atvinnujafnvægi í byggðunum. Það hefði mátt koma fram hjá hv. þm. sunnlendinga að togarar á ákveðnum svæðum við landið, svo sem eins og við suðurland og Austurland, hafa að jafnaði mun lengra að sækja en togarar frá öðrum landshlutum. Það hlýtur einnig að verða að meta slíkt þegar settar eru fram skoðanir í þessum efnum.

Það má líka benda á, að þeir togarar sem hafa verið nýttir við Suðurland, í Vestmannaeyjum, hafa ekki kallað á innflutning erlends vinnuafls í ríkum mæli eins og víða hefur skeð annars staðar á landinu.

Í stuttu máli flokkast málflutningur hv. þm. Garðars Sigurðssonar undir kjaftæði. Og það er sorglegt því að hann má eiga það sem hann á og oft heppnast honum að setja fram skynsamlegar skoðanir í útvegsmálum. Hann valdi hins vegar nú þann kost að hossa flokksbróður sínum, hv. 7. þm. Reykv., tala mál sem undirstrikar sýndarmennsku Alþb. í þjóðmálum. Hitt er annað, að atmenningur í landinu tekur ekki mark á slíku málþrefi, enda er almenningur í landinu ekki vanur því að stilla sér upp sem einhvers konar prófessor í kjaftæði.