29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í umr. Það er mikilvægt að við komum okkur saman um þessi mál. Ég vil í því sambandi vitna til orða minna á Fiskiþingi vegna þess hvað ræða mín þar hefur orðið mikil uppistaða þessara umr. Þar sagði ég m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef áður sagt sem mína skoðun að það væri æskilegt að gera tilraun með kvótafyrirkomulag fyrir togarana á næsta ári. Mér er ljóst að það er ýmsum annmörkum háð.“

Hv. þm. Ólafur Ragnar er væntanlega að ræða við fjölmiðlana um mál hér, en það skiptir kannske ekki máli. Hann hefur þessa ræðu og ég vænti þess að hann lesi hana þá rétt.

Ég sagði einnig: „Hins vegar mundi slíkt fyrirkomulag vera líklegt til að auka gæði afurðanna.

Það er mikilvægt að skipting aflans verði ekki til þess að auka togstreitu á milli einstakra landshluta. Við þurfum að koma okkur saman í landinu í heild. Kvótar á sérhvern landshluta, eins og upp hefur komið hugmynd um, gætu orðið til þess að auka togstreitu milli landshluta. Líklegt er að atvinnuuppbyggingin í iðnaði verði misjöfn eftir landshlutum í framtíðinni. Er þá ekki ósennilegt að þeir landshlutar sem telja sig verða út undan í því sambandi mundu vilja fá aukna hlutdeild í fiskveiðunum. Það er hætt við að slíkar deilur gætu orðið erfiðar viðfangs. Ég er ekki trúaður á að það sé auðveldara að koma sér saman innan einstakra landshluta en í landinu í heild.“

Ég vil undirstrika þessa skoðun mína. Það var á engan hátt ætlan mín og lá heldur ekki í orðum mínum að efna til togstreitu í þessu sambandi. Það eru hreinir útúrsnúningar. Og það eru slíkir útúrsnúningar sem hafa þá orðið til þess að vekja ótta og hræðslu hjá ákveðnu fólki. Hins vegar er það eðlilegt að allir sem búa í landinu séu á vissan hátt óttaslegnir yfir þeim tíðindum sem við höfum fengið. Það eru einnig alvarleg tíðindi að okkar helstu keppinautar á fiskmörkuðunum eru með vaxandi framleiðslu og auka sífellt opinbera aðstoð, sem getur orðið afdrifaríkt ef ekki tekst að telja þjóðunum í heiminum trú um og sannfæra þær um það, að það er ekki hægt að búa við það að ýmsar þjóðir greiði niður kostnað í sjávarútvegi, flytji síðan út iðnaðarvörur og ætlist til þess að við sættum okkur við að kaupa slíkar vörur án þess að leggja toll á þær. En hinar þjóðirnar komist síðan upp með það að ýta sínum vörum inn á markaði með gífurlegri styrkjastarfsemi.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði hvaða atvinnutækifæri byðust. Ég ætla ekki hér að fara að lesa upp ummæli mín um þá miklu möguleika sem við eigum hér í landinu. Ég tel það alveg á sama hátt skyldu hv. þm. að svara því hvað hann leggur til í því sambandi. Hann hefur tekið það fram að alls ekki megi byggja álver. Þá vitum við það. Ég hef hins vegar tekið fram að ég tel meiri háttar orkufrekan iðnað koma mjög til álita og nefndi sem dæmi þá umr. sem væri um það. Ýmis önnur iðnfyrirtæki hafa verið hér til umræðu. En það sem er mikilvægast er að skapa atvinnuvegunum bærileg skilyrði til þess að þeir geti dafnað og til þess að hægt sé að byggja þá upp.

Á s.l. vori voru atvinnuvegirnir í reynd meira og minna að fara yfir um. Það er verið að leitast við að skapa þeim skilyrði til að eflast í landinu og því verður ekki eingöngu svarað hér á Alþingi hvaða ný atvinnufyrirtæki bjóðist. Því verður kannske fyrst og fremst svarað hér hvers konar skilyrði menn eru tilbúnir að búa atvinnuvegunum í landinu. Ég var aðeins að benda á þá staðreynd, sem mér finnst vera sáraeinföld, að þar sem þéttbýlið er mest eru meiri möguleikar til að byggja upp nýja vinnustaði með minni fyrirvara og stækka þau fyrirtæki sem fyrir eru, sem eru mörg sem betur fer. Ég hef ekki nefnt einn einasta þéttbýlisstað og ætla ekki að gera það. En ég hef orðað það svo: „þar sem þéttbýlið er mest“ vegna þess að það er einföld staðreynd, og ég veit að hver einasti þm. getur tekið undir það með mér, að þar eru meiri möguleikar — og óþarfi að vera að snúa út úr því.

Hv. þm. spurði einnig hvort fjárhagsleg staða mundi engu máli skipta. Ég byrjaði á því að segja það í minni ræðu að skip hefðu að sjálfsögðu stöðvast vegna óhagkvæms reksturs og lélegrar fjárhagslegrar afkomu, en sagði síðan: „Sú hugmynd hefur komið upp að rétt væri að aðstoða aðila við að leggja skipum a.m.k. um stundarsakir. Því er eðlilegt að spurt sé: Hverja á að aðstoða til þess?“ Þ.e. ég var að tala um að gera það með skipulegum hætti. Ef stjórnvöld eiga að koma til skjalanna og aðstoða aðila við það að leggja skipum, þá skiptir við núverandi aðstæður atvinna fólksins langmestu máli. Menn geta haft mismunandi skoðanir um það og það má vel vera að hægt sé að finna einhver dæmi þess að það væri rangt út frá fjárhagslegum sjónarmiðum. En ég vil reka þá stefnu að fórna í sumum tilvikum, ekki öllum, slíkum fjárhagslegum sjónarmiðum ef atvinnuöryggi er annars vegar, vegna þess að ég er sannfærður um að atvinnuleysi er versta böl sem við getum lent í, og aðrar þjóðir telja það vera sitt versta böl og hafa haft af því mikla reynslu nú um langt skeið.

Herra forseti. Ég lofaði að vera stuttorður. Ég vildi aðeins víkja að því sem hv. þm. Eyjólfur Konráð nefndi hér, sem er mjög rétt. Það þarf að kanna betur skilyrði og möguleika á djúpslóð. Við höfum fyrir allnokkru síðan ritað Hafrannsóknastofnun og beðið um áætlun um að gera út hafrannsóknaskipið Hafþór sérstaklega á djúpslóð til að rannsaka þar möguleika á að veiða t.d. gulllax, litla karfa og e.t.v. fleiri tegundir. Ég er ekki að segja að það sé eini möguleikinn til að gera slíka athugun, það má einnig gera hana með öðrum veiðiskipum. En það liggur fyrir að engin skilyrði eru til að selja það skip og hleypa því inn í þorskveiðina. Því er að mínu mati rétt að reyna að nýta það til rannsókna og nýjunga ef fært þykir og við teljum okkur hafa efni á því. Ég geri mér grein fyrir því að það getur orðið allkostnaðarsamt en ég tel það skyldu okkar að fá úttekt á því.

S.l. vor ræddi ég um það við bandaríska sendiráðið hér og hafði einnig samband við sendiherra okkar vestanhafs Hans G. Andersen, og bað hann ásamt mínum ráðuneytisstjóra að kanna í samvinnu við utanrrn., eftir því sem hægt væri, möguleika á veiðum í bandarískri lögsögu. Hann skilaði skýrslu um það fyrir allnokkru síðan. Hún var síðan send Landssambandi ísl. útvegsmanna til athugunar. Landssamband ísl. útvegsmanna hefur nýlega sent menn til að kanna þetta og þeir eru komnir frá þeim athugunum. Þarna höfum við því reynt að fylgjast með eins og nokkur kostur er og það gerðist löngu áður en þær slæmu upplýsingar komu fram sem við höfum nú fengið.

Einnig hefur verið reynt að hafa augun opin varðandi aðra nýja möguleika. Rækjuleit var aukin í sumar. Við höfum gert út sérstakan leiðangur til athugunar á krabbaveiðum. Þá fara fram og eru í undirbúningi meiri rannsóknir varðandi kúfisk og nefna mætti fleiri dæmi. Allt þetta er verið að gera með tiltölulega litlum peningum. Menn hafa úr litlu að spila í þessu sambandi. En ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að það er nauðsynlegt að líta til allra átta í þessu sambandi og reyna að nýta hverja einustu leið. Þetta er allt saman aðeins spurning um skynsemi og hér ætti ekki að þurfa að vera togstreita milli hinna pólitísku flokka, ég tek undir það með hv. þm. Garðari Sigurðssyni. Ég vænti þess að við getum hér á Alþingi haft um þetta gott samstarf. Ég tel mig ekki hafa sagt nokkurn skapaðan hlut í þessari umr. sem hefði átt að verða til þess að vekja upp togstreitu. Hér er hins vegar um viðkvæm mál að ræða og það verður ekki gert svo að öllum líki. Við erum einnig í vissu tímahraki. Við höfum t.d. sagt að það væri rétt að byrja netaveiðina síðast og ekki væri rétt að loðnuskipin kæmu inn í netaveiðina. Það hefur þegar vakið mikla óánægju hjá þeim aðilum sem það snertir, en því miður verður ekki gert svo að öllum líki í þessu efni. En aðalatriðið er að draga sem mest úr kostnaði og auka verðmætin eftir því sem unnt er. Þar verða að ráða almenn sjónarmið og hagsmunir landsins í heild. Það er ekki hægt að vinna þessi mál út frá öðrum sjónarmiðum.