29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil við lok þessarar umr. þakka hæstv. forseta og hæstv. sjútvrh. fyrir að þessi umr. hefur farið hér fram. Allir ræðumenn hafa verið sammála um þann mikla vanda sem við er að etja og nauðsyn þess að hér á Alþingi fari fram ítarleg umr. um málið. Það var einmitt til þess að knýja slíka umr. fram sem ég taldi nauðsynlegt að málið væri þegar í stað tekið hér til umr. Ég vænti þess að í kjölfar þeirra umr. sem hér hafa átt sér stað flytji hæstv. sjútvrh. málið innan tíðar, ekki síðar en innan fáeinna vikna, á ný inn á Alþingi í formi skýrslu um þær aðgerðir sem hann hyggst beita sér fyrir eða í formi frumvarpa.

Ég ætla ekki að nota þann tíma sem hæstv. forseti gaf mér til að svara því sem hér hefur komið fram. En það væri vissulega tilefni til þess að ræða við hv. þm. Þorstein Pálsson mjög ítarlega þá efnisþætti sem hann varpaði hér fram. Ég hef að vísu ekki haft jafngóð tækifæri til að hlýða á hann jafnoft og flokksbróðir minn, hv. þm. Garðar Sigurðsson, en þeir mælikvarðar sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson lagði til grundvallar umr. voru á þann veg að a.m.k. einn þeirra verður varla talin efnislega mikið innlegg í þessa umr. Þótt hinir tveir, sá fyrsti og sá síðasti, gefi vissulega tilefni til þess. En atriði nr. 2, sem hv. þm. benti á, var að draga úr útgerð opinberra aðila. Ég held, ef mig misminnir ekki, að það séu ekki nema tvö hreinræktuð opinber útgerðarfyrirtæki í landinu. Menn geta að vísu ráðist að þeim, en ég held að það eitt út af fyrir sig væri takmörkuð lausn á þessum vanda. Hins vegar er algengasta rekstrarform í útgerð nú orðið líklega sameign einstaklinga, félagslegra fyrirtækja og sveitarfélaga. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt þegar við setjum fram hugmyndir af þessu tagi að fram komi með skýrari hætti en hér var hvað menn eigi við.

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar umr. en að lokum vil ég þó segja það, að miklu var það nú viturlegra sem forveri hv. þm. Árna Johnsen, Guðmundur Karlsson, sagði hér um sjávarútveg á undanförnum árum heldur en þessi trallræða sem hv. þm. flutti hér í því skyni að reyna að aðstoða formann sinn. Formaður Sjálfstfl. hinn nýi þarf alls ekki á svona tralli að halda í ræðustól sér til stuðnings og æskilegra væri að Sjálfstfl. fengi sem framlag í umr. álíka mikið vit og reynslu í sjávarútvegi eins og Guðmundur Karlsson flutti hér í þingsalina á sínum tíma.