19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. kvartaði undan því að ég væri í senn að klappa honum og hengja hann eins og hann tók til orða. Ég vil nú ekki kannast við neitt slíkt að mín orð hafi svo hert að hans hálsi að um slíkt megi tala. Hins vegar verður hæstv. fjmrh. að una því að við óbreyttir þm. hrósum því sem við teljum að sé vel eða bærilega gert og það hef ég talið mig gera. En á hinn bóginn að við gagnrýnum líka það sem miður fer og það er okkar hlutverk.

Hann hefur ágætan hæfileika til að koma þm. á óvart, hæstv. ráðh., og gerir það með ýmsu móti. Það kom mér t.d. mjög á óvart í umr. hér í Sþ. í síðustu viku þegar hæstv. fjmrh. flutti þar hvassa áreitniræðu og hvarf síðan að vörmu spori úr þingsalnum þannig að það var ekki hægt að eiga neinn orðastað við hann frekar. Mér finnst þetta ekki mjög þingleg framkoma af hæstv. fjmrh. sem ég veit að er vandur að virðingu sinni. Mér fannst það heldur ekki þingleg framkoma hjá hæstv. forsrh. í gær að víkja úr sal Sþ. skömmu eftir að hann hafði flutt sína stefnuræðu þegar ljóst var að umr. um hana áttu eftir að standa til kl. 23.30 um kvöldið. Ég á nú ekki langa setu hér á þingi en ég minnist þess ekki að neinn þeirra forsrh., sem hér hafa starfað síðan 1978, hafi sýnt þingheimi svona framkomu svo að ekki sé sterkar til orða tekið.

Hæstv. fjmrh. vék hér að þeim till. sem Alþfl. lagði fram í stjórnarmyndunarviðræðunum og ég minntist á hér áðan. Ég veit nú ekki hversu heppilegt það er upp á framtíðina að gera smáatriði úr stjórnarmyndunarviðræðum, hver,1 ir voru á hvaða fundum, að umræðuefni í þingsölum. Ég vék að þessari till. okkar vegna þess að hún snertir meginmál og hún var mörgum kunn. En hversu heppilegt það er að gera þær viðræður að .ítarlegu umræðuefni hér í þingsölum sem eiga sér stað í trúnaði þegar er verið að freista þess að mynda ríkisstj. hef ég vissar efasemdir um. En hæstv. fjmrh. sagðist ekki hafa séð þessa till. Það er sjálfsagt alveg rétt og ég efast ekkert um það. Hins vegar er ég þess fullviss að hv. þm. Lárus Jónsson sá þessa till. og ýmsir af þeim öðrum sem tóku þátt í viðræðufundum um myndun ríkisstj. sem áttu sér stað í kringum hvítasunnu og næstu dagana þar á undan. En það var svo undarlegt að það voru ekki sömu mennirnir — t.d. af hálfu Sjálfstfl. og raunar Framsfl. líka sem mestan þátt áttu í stjórnarmyndunarviðræðunum og mestan þátt áttu í að koma þessari ríkisstj. á laggirnar og mest unnu þessa síðustu daga — sem svo settust í ráðherrastóla. Það voru allt aðrir menn í flestum tilvikum. Og ég hygg að hv. þm. fjölmargir geti vottað tilvist þessara tillagna Alþfl. í skattamálum og um tekjuskattinn þó að hæstv. núv. fjmrh. hafi ekki verið kunnugt um þær en hann mun þá væntanlega fá tækifæri til að kynna sér þær við 2. umr. málsins þegar þær verða fluttar.

Ég satt að segja verð alltaf jafn hissa þegar hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstj. koma hér og segja: Hvernig væri ástandið ef ekkert hefði verið gert? Þá væri hérna 150–200% verðbólga. Ég held að það hafi verið alger samstaða um það að við svo búið mátti ekki standa. Sú ríkisstj., sem hæstv. fjmrh. kom á laggirnar á sínum tíma, var búin að leika þjóðarbúið þannig að það voru allir sammála um að það yrði að grípa til ráðstafana — róttækra ráðstafana. Hins vegar var ágreiningur um það hvernig átti að jafna þeim byrðum niður sem hlaut að þurfa að jafna niður. Átti að jafna þeim eftir efnum og ástæðum eða átti að jafna þeim eftir einhverjum handahófskenndari aðferðum? Um þetta var ágreiningurinn, hæstv. fjmrh. Það var ekki ágreiningur um að það þyrfti að grípa til aðgerða sem mundu koma við ýmsa. Spurningin var bara við hverja.

Hér sagði líka hæstv. ráðh.: Það hafa engar nýjar álögur verið lagðar á í mínu rn. síðan ég kom þar til starfa. Vel má það rétt vera. Ekki dettur mér í hug að andmæla því. En allar þær álögur sem þessi ríkisstj. hefur samþykkt, allar þær verðhækkanir sem hún hefur látið átölulaust fram ganga, þær hafa vissulega komið við fólk. Það gefst nú betra tækifæri til að ræða þau mál þegar önnur brbl.-frv. koma hér fram til staðfestingar. En mér er það ríkt í minni að ekki var við þá gengisfellingu, sem ríkisstj. framkvæmdi þegar hún kom til valda, haggað við álagningarprósentunni eins og ævinlega hefur verið gert og fleiri atriði í því sambandi mætti nefna.

Ég hjó eftir því hér áðan að hæstv. fjmrh. talaði um — að vísu heyrði ég ekki alveg fyrri hluta setningarinnar, en ég hrökk við — á 2. milljarð dollara. (Gripið fram í.) Nú skil ég ekki hæstv. ráðh. Nú held ég að eitthvað hafi skolast til hjá honum og væri nú gott ef það væru aðeins hinir minni hlutir sem skoluðust til en ekki þessir stóru. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að skýra þessi ummæli sín hér nánar. Við tölum um milljarð á íslensku en mér heyrðist hann segja billjarð. Ég verð að játa það að ég skil það ekki. Hins vegar er til orðið billjón sem er nú ekki notað í íslensku en notað annars staðar. Ég held að hæstv. fjmrh. verði að skýra þessar tötur nánar fyrir okkur þm. (Gripið fram í: Billjard). Nei, ég held að hann hafi ekki verið að tala um billjard og þó má það vel vera.

En varðandi þau ummæli sem hæstv. ráðh. lét falla um Alfl. að hann væri aldrei ábyrgur flokkur þá vil ég nú minna hann á að flokkar okkar áttu mjög langt og farsælt stjórnarsamstarf á sínum tíma og ég held að það stjórnarsamstarf hafi gefist vel og kannske betur en samstarf flestra annarra ríkisstjórna. (Fjmrh.: Það var annað fólk.) Já, að sumu leyti var það annað fólk og þá í báðum flokkum. En ég held að þessi ummæli, sem hann lét hér falla, hafi nú ekki verið makleg og raunar er ég viss um að hæstv. fjmrh. hefur ekki meint þetta eins og það var sagt.

En hann fór hér um það mörgum orðum að þessi ríkisstj. væri sterk. Hún er sterk; ég efast ekkert um það. Hún hefur sterkan þingmeirihl. og hún hefur líka hugrekki. Hún hefur vissa tegund af hugrekki, hæstv. fjmrh. En hvort hún hefur hjarta; það hef ég aftur svolítið meiri efasemdir um.