30.11.1983
Neðri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

85. mál, sveitarstjórnarkosningar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Satt best að segja hef ég ekki lesið þetta frv. til l., en svo glöggur ræðumaður sem hæstv. félmrh. vakti strax eftirtekt mína og athygli í einu atriði og ég er að hugsa um að láta duga að nefna það að þessu sinni. Það er 4. gr. laganna. Þar er 1. mgr. um það, að sveitarstjórnarkosningar fari fram síðasta laugardag í apríl. Gætu þær þá lent á t.d. 24. apríl. Það eru nefnilega sjö dagar í vikunni enn þá. Við höfum reynslu af því að kjósa í apríl. Ég verð að segja að í minni heimasveit, Vestmannaeyjum, er það ekki besti mánuður ársins til að standa í kosningum. Gallinn við að kjósa í síðari hluta apríl í Vestmannaeyjum og í öðrum verstöðvum frá Suðausturlandi og alla leið vestur á firði er sá, að þá stendur vertíð yfir. Ég er ekki viss um að allir hv. alþm. geri sér einu sinni grein fyrir því að enn er það fyrirbæri til sem heitir vetrarvertíð og væri synd ef menn gleymdu því almennt.

Ég held að hér á Suðurlandi, í sjávarþorpunum á Suðurlandi, Stokkseyri og Eyrarbakka, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum, sé hægt að kjósa í hvaða mánuði ársins sem er nema í apríl, því þá er toppurinn á vetrarvertíðinni og verður það áfram þangað til þorskurinn hefur verið drepinn — ef af því verður — endanlega. Síðari hluti aprílmánaðar er óhæfur kosningatími á vertíðarsvæðinu öllu. Ég ætla að biðja hæstv. félmrh. að íhuga það, þar sem hæstv. ráðh. er nú þm. á hluta þessa vertíðarsvæðis og þekkir hvernig ástandið er í atvinnumálum og hvernig aðstaða fólks er til þess að taka þátt í kosningum.

Það vill svo til sem betur fer, að mikill fjöldi manna hefur áhuga á kosningum, ekki aðeins á kosningadaginn heldur nokkru fyrr, og það gildir um fólk úr öllum flokkum að sjálfsögðu, enda er þetta ekki neitt flokkspot hjá mér af neinu tagi. Fólk sem hefur lifandi áhuga á þjóðmálum og félagsmálum og sveitarstjórnarmálum vill kynna sér þessa hluti, fylgjast með þeim og taka þátt í þeirri vinnu sem fer fram í kringum kosningar, en það getur ekki gert það í apríl. Þá vinnur fólk miklu meira en myrkranna á milli. Svo getur farið síðasta laugardag í apríl að fólk hafi varla tækifæri til að kjósa nema með hörmungum. Ég tel að jafnvel þó að sjónarmið sauðkindarinnar sé merkara en fólks í sjávarþorpum, og verður það alltaf því að sauðkindin ræður þessu landi, megi ekki svo langt ganga að velja versta dag sem fyrirfinnst í almanakinu til að kjósa á.

Kosningar á Íslandi hafa yfirleitt farið fram síðast í maí og júní, nema þegar mönnum hefur legið of mikið á að hætta að vera saman í ríkisstjórnum og eru farnir að láta kjósa um jólaleytið og raunar hvenær sem er. Það gerir okkur ekkert til á vertíðarsvæðinu. Við getum kosið á Þorláksmessu þess vegna. Það er miklu auðveldara þá og betri dagur.

Þarna hefur verið um það að ræða að kjósa til sveitarstjórna í tvennu lagi. Ég er sammála því sjónarmiði að kosið sé í einu lagi. Mér finnst það sjálfsagt mál og hefði átt að breyta því fyrirkomulagi miklu fyrr. En ég vil leyfa mér að benda á að í stað þess að kjósa síðast í apríl verði kosið í maí. Hvernig það rekst á sjónarmið annarra þekki ég ekki nægilega vel, en ég tel að það væri mjög gott að kjósa síðast í maí.

Herra forseti. Um þetta frv. sé ég að full ástæða er til að ræða að öðru leyti. Í því sé ég strax ýmsar óþarfar breytingar. Um það ræðum við síðar. En ég vil strax vekja athygli á því sem ég hef gert að umtalsefni. Og ég vona að hv. þdm. muni það, þegar þeir fara að fjalla um þetta mál, að um þetta hefur verið gerð aths. Ég er viss um að ég mæli ekki aðeins fyrir munn kjósenda til sveitarstjórna í mínu kjördæmi, heldur hvarvetna þar sem mikið álag er við fiskvinnu og sjómennsku á vertíðarsvæðinu í apríl.