30.11.1983
Neðri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

85. mál, sveitarstjórnarkosningar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þarf ekki mörg orð um þetta að hafa. Ég vil aðeins taka undir það sem hér hefur komið fram að því er varðar kjördaginn. Hér hefur verið minnst á sjómenn, hér hefur verið minnst á sveitafólkið, en ég hygg að það sé ekki síður vandamál hjá ýmsu námsfólki sem er fjarverandi. Það er fólkið sem er kannske áhugasamast um sveitarstjórnarmál heima fyrir og því óheppilegt að kjósa á þeim tíma sem það er bundið í skólum. Ég hallast þess vegna að því að það sé mun æskilegri tími að hafa þetta í júní. Ekki mæli ég með sjómannadeginum að sjálfsögðu, en að það sé um eða upp úr miðjum júní sem á ætti að stefna.

Annað í þessu sem mér finnst alveg fáránlegt er það sem hv. 5. þm. Vestf. vék hér að. Það er ákvæðið um að nýkjörin sveitarstjórn eigi ekki að taka við fyrr en rúmum hálfum mánuði eftir að hún er kjörin. Hvað mundu menn segja hér á Alþingi ef gamla þingið ætti að vera í hálfan mánuð eftir að nýtt er kjörið? (Gripið fram í: Það er það.) Ekki aldeilis. Það eru kjörnir nýir þm. og þar með eru þeir komnir til. Ég tel þetta alveg fráleitt. Hér gæti verið um það að ræða að öll sveitarstjórnin sem fyrir var hefði fallið og þá ætti hún að sitja áfram í hálfan mánuð eftir að búið er að kjósa nýja. Ég skil ekkert í þeim sveitarstjórnarmönnum sem þannig eru þenkjandi ef þeir hafa átt hlut að því að semja þetta. Mér finnst það aldeilis furðulegt. (Gripið fram í: Þeir hafa ekki ætlað að falla.) Nei, það er kannske svo, kannske þeir séu kjörnir til eilífðar að eigin áliti eins og sumir. En mér finnst þetta alveg fáránlegt. Ég held að þessu hljóti að verða að breyta.

Það var í raun og veru ekki annað sem ég vildi koma hér á framfæri. Ég tek eindregið undir það að kosningar í apríl eru afar slæmar. Þó að hv. 4. þm. Suðurl. hafi staðið að því að kosið var til Alþingis í apríl núna nýverið, þá er það eigi að síður afskaplega slæmur tími til kosninga, a.m.k. að því er tekur til okkar úti á landsbyggðinni. Ég tel það af og frá ef það á að vera viðtekin regla að kosið verði á þeim árstíma til sveitarstjórna. Og sama á auðvitað við um alþingiskosningar.