30.11.1983
Neðri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

16. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka umfjöllun og ábendingar frá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni. Þessi tvö mál í frv, eru flutt saman vegna þess að þau fjalla bæði um skylda hluti, sem sé að koma í veg fyrir íhlutun framkvæmdavalds um störf Alþingis.

Varðandi spurningar um beint kjör forsrh. þá hefur BJ nú um sinn unnið að undirbúningi frv. til breytinga á stjórnskipunarlögum um beint kjör forsrh. Á síðasta þingi var flutt um það þáltill. en við hyggjumst nú ganga þarna skrefi lengra og bera fram fullbúið frv. til stjórnarskipunarlaga um fyrirkomulag slíkra kosninga og fyrirkomulag slíks stjórnarfars. Við teljum að þrátt fyrir það sem hv. þm. lýsti um aðstæður í Frakklandi þá eigi afnám þingrofsréttar að gilda við þær aðstæður sem við leggjum til. Franska stjórnarskráin eins og hún er núna ber að ýmsu leyti merki þeirra aðstæðna sem ríktu í Frakklandi þegar hún er skrifuð og þeirra sem ráku fyrir henni harðastan áróður og beittu sér mest fyrir henni. Ég held að þrátt fyrir það að forsetinn í Frakklandi hafi rétt til þingrofs þá þurfi ekki endilega þau rök sem það réttlæta að gilda í okkar tilfelli.

Við leggjum hins vegar mjög mikla áherslu á að ef til ágreinings eða illleysanlegra árekstra komi milti framkvæmdavalds og löggjafarvalds þá verði leyst úr þeim málum á þann lýðræðislega hátt sem við þekkjum, með málskoti til þjóðarinnar í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu, án þess að til nýrra kosninga þurfi að koma, þar sem ágreiningsmátið sé flutt til fólksins sjálfs.