30.11.1983
Neðri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

34. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um afnám laga um samþykktir um lokunartíma sölubúða. Þetta frv. hefur áður verið til umfjöllunar á Alþingi. Á 104. löggjafarþingi var það flutt fyrsta sinni af þm. Vilmundi Gylfasyni, Guðrúnu Helgadóttur og Árna Gunnarssyni og á 105. löggjafarþingi var það enn flutt og flm. voru þá hinir sömu, en auk þess aðrir þm. Alþfl. í Nd. Það var fellt við 2. umr. í mars s.l.

Það hafa orðið miklar umr. í þjóðfétaginu um lokunartíma sölubúða á síðustu vikum og flm. hafa talið rétt að freista þess enn að fá samþykki Alþingis fyrir því að lögin um lokunartíma sölubúða verði felld úr gildi svo að samtök kaupmanna og starfsmanna í verslunum fái að veita neytendum þá þjónustu sem best hentar þeim hverju sinni án afskipta stjórnvalda.

Þau lög sem hér um ræðir hafa verið í gildi síðan 1936. Það er mismunandi hvernig einstakar sveitarstjórnir hafa nýtt þessar lagaheimildir. En samfélagið hefur vitaskuld tekið miklum breytingum síðan 1936. Í fyrsta lagi verður að gera ráð fyrir að verkalýðsfélögin hafi styrkst og séu nú betur í stakk búin til að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna, t.d. gegn óhóflegu vinnuálagi. Þegar af þeirri ástæðu er lagavernd til handa verslunarfólki ekki nauðsynleg í sama skilningi og var 1936. Í öðru lagi hafa hagir heimilanna og hagsmunir neytenda breyst mjög mikið. Það er regla frekar en undantekning að bæði hjón starfi utan heimilis, en þessu var í raun þveröfugt farið þegar lög þessi voru sett á sínum tíma. Þetta þýðir að heimilin hafa tæpast tækifæri til að versla með eðlilegum hætti nema utan hins venjulega vinnutíma. En þær reglur sem hér hafa verið í gildi hafa í raun ætlast til þess að menn svikjust um í vinnunni til að fara í verslanir.

Aðstæður allra eru því gjörbreyttar frá því sem var fyrir nærfellt 50 árum, þegar þessi lög eru sett. Stórmarkaðir hafa risið upp, verslunarhættir eru að því leyti gjörbreyttir í hinum stærri sveitarfélögum og smærri kaupmenn hafa að ýmsu leyti átt í vök að verjast á undanförnum árum. Stórmarkaðirnir veita auðvitað mjög mörgum mikla þjónustu, þó að kaupmennirnir á horninu veiti mikilvæga þjónustu í einstökum íbúðahverfum. Það er álit flm. nú, eins og þegar þetta frv. var áður flutt, að ef meira frjálsræði sé fyrir hendi sé líklegt að hinir smærri kaupmenn hafi í rauninni betri og jafnari samkeppnisaðstöðu en við núverandi aðstæður.

Það hefur stundum verið tilgreint að starfsfólk í verslunum búi við léleg kjör, og það er vissulega svo. Sumir segja að strangar reglur um lokunartímann séu til að vernda hagsmuni þessa fólks, m.a. að vernda það gegn óhóflegum vinnutíma. Sjálfsagt var mikið til í þessu þegar lögin voru sett, en það er ekki ástæða til að ætla að þessarar verndar sé þörf núna né heldur að gengið yrði á hagsmuni þessa fólks þótt frjálsræði yrði upp tekið að því er lokunartímann varðar. Við þekkjum það að á undanförnum mánuðum hafa þessi mál verið til umfjöllunar í ýmsum sveitarstjórnum og þar hafa verið gerðar samþykktir, t.d. í Reykjavíkurborg, um breytingar í frjálsræðisátt. En efni þessa frv. er hins vegar fyrst og fremst að afnema þau lög sem hér um ræðir og þessar reglugerðir byggjast á, taka þennan beiska kaleik frá sveitarstjórnunum, sem hafa átt erfitt með að ráða fram úr þessum málum, og ætla hagsmunasamtökunum, kaupmönnum og þeim sem að verstunum standa, að semja um með hvaða hætti verslunartíminn yrði ákveðinn.

Ég legg til fyrir hönd flm. að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.