05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

11. mál, launamál

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason):

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur fjallað um þetta frv. Á fund hennar komu fulltrúar sveina í byggingariðnaði. Það varð ekki samkomulag í n. um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd., en minni hl. n. gera grein fyrir sérálitum sínum.

Ég held að ástæða sé til þess, þegar fjallað er um þetta mál áfram, að gera sér glögga grein fyrir því hvers vegna brbl. um launamál voru sett á sínum tíma og hvaða nauðsyn bar til þess. Þá er auðvitað nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvernig ástatt var í efnahagsog atvinnumálum þjóðarinnar þegar brbl. voru sett snemma á s.l. vori.

Íslendingar höfðu lifað við 10–12% verðbólgu að meðaltali á árunum frá 1950–1973, að ég ætla. Árin 1972 og 1973 fór verðbólga vaxandi, en þó sérstaklega eftir olíuverðsprenginguna í árslok 1973 og kjarasamningana 1974. Þá hækkaði verðbólga verulega og hefur verið gífurlega mikil allar götur síðan, en misjafnlega mikil eins og kunnugt er, fór líklega í um 50% á árunum 1974 og 1975 og svo niður í 26% 1977. Þá voru gerðir nýir kjarasamningar, sem voru gjörsamlega óraunhæfir miðað við staðreyndir efnahagslífsins eins og þá var og hlutu að leiða til verðsprenginga eins og raunin varð á, og verðbólga hélt áfram að hækka í 60%. Það voru gerðar ráðstafanir af og til til að hamla gegn verðbólgu og náðist svolítill árangur öðru hvoru. Síðan kom önnur olíuverðsprengingin 1979, sem hafði áfram þau áhrif að verðbólga ekki aðeins stóð í stað heldur fór vaxandi. Mig minnir að verðbólgan hafi farið rétt niður fyrir 40% hluta úr árinu 1982, en fór svo aftur hækkandi síðari hluta ársins og úr því.

Í fyrravetur var þannig ástatt í þjóðmálum, að hér á hv. Alþingi voru menn fyrst og fremst að huga að kjördæmismálum og stjórnarskrárbreytingu og það var tiltölulega lítill tími til að fjalla um efnahagsmálin, enda ekki samkomulag um róttækar aðgerðir í þeim málum. Niðurstaðan varð svo sú, og til þess liggja ýmsar fleiri ástæður en pólitískar, það voru efnahagslegar ástæður einnig, að um það leyti sem þessi lög voru sett var verðbólga í landinu komin yfir 100% og jafnvel hafa verið nefndar tölur 120–130%. Ef ekkert hefði verið að gert var alveg ljóst að verðbólga hefði farið hér upp úr öllu valdi á þessu ári. Hve hátt skal ég ekkert um segja, en maður hefur heyrt nefndar tölur eins og 150–160%. Þannig er alveg ljóst að efnahagsmál þjóðarinnar voru gersamlega komin úr böndunum á s.l. vori og þó raunar miklu fyrr. Og ef ekki hefði verið gripið inn í þessa þróun mála í sumar hefðu fyrirtæki áreiðanlega stöðvast, það hefði orðið rekstrarstöðvun hjá mörgum fyrirtækjum í landinu, sjálfsagt tugum eða hundruðum, sem hefði leitt af sér stórkostlegt atvinnuleysi og sjálfsagt versnandi lífskjör í talsvert miklum mæli. Það má því segja að í raun og veru hafi ástæðurnar fyrir setningu brbl. verið þær að forða varð ástandi sem var stórhættulegt fyrir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar.

Það mætti auðvitað setja á langa ræðu um verðbólgumál. Ég hef haldið margar verðbólguræður með litlum árangri. Ég held að menn séu yfirleitt sammála um það, hvar sem menn eru í flokki, að verðbólga er fyrirbrigði sem er hættulegt. Við höfum getað lifað af þetta verðbólgutímabil með ýmsum hætti. Fyrst reyndum við að gera það með því að setja vísitölu á alla skapaða hluti í okkar hagkerfi. Vísitölukerfið var í raun og veru alltaf að breiðast út. Það náði ekki aðeins til launa. Það náði til vaxta, það náði til allra skapaðra hluta og í raun og veru gekk allt kerfið fyrir vísitölu, það hefur orðið þannig, þeirri vísitölu sem við höfum búið við fram að þessu um langa hríð. Ég hef aldrei komist í meiri vanda en þurfa að svara þeirri spurningu útlendinga hvernig við Íslendingar færum að þessu, hvernig við færum að því að lifa við 40–60% verðbólgu árum saman án þess að lífskjörum hrakaði mikið og hvernig á því stæði að verðbólgan væri svona mikil. Ég geri ráð fyrir að það séu fleiri en ein ástæða fyrir því, en ég er ekki í nokkrum vafa um að einnar aðalástæðunnar fyrir verðbólgu hér er að leita í okkar kerfi og fyrst og fremst í okkar vísitölukerfi. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Ég er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn sem lýsir því yfir. Það hafa fjöldamargir menn gert úr öllum flokkum. Það kom meira að segja fram hér í umr. um daginn, minnir mig, frá hv. þm. Helga seljan að hann hefði talið nauðsyn á því að gera breytingar á því vísitölukerfi sem við höfum lifað við um langa hríð. Ég held því að menn séu sammála um það og ekki þurfi að setja á langa ræðu um það, að verðbólgan sé hættuleg — og ég tala nú ekki um þegar hún er komin yfir 100%, þá er hún auðvitað stórháskaleg fyrir afkomu og alla framvindu efnahagsog atvinnumála í landinu. Ástæðurnar til setningar brbl. um launamál voru því ærnar, þó auðvitað megi deila endalaust um með hverjum hætti eigi að ráðast gegn slíkum voða sem þarna var á ferðinni.

Við í Framsfl. höfðum ákveðnar skoðanir á því fyrir kosningar hvernig ætti að taka á þessum málum. Það hefur stundum verið sagt, og ég hef heyrt það hér í umr., að menn hafi t.d. ekki sagt það fyrir kosningar að e.t.v. þyrfti að taka á þessu með löggjöf. Þetta er alls ekki rétt. Við framsóknarmenn settum fram í okkar stefnuskrá að ef ekki næðist samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um aðgerðir yrði ríkisvaldið að grípa inn í. Við fengum ekki fylgi út á þessar skoðanir, en við settum þær fram. Í því sambandi vil ég lesa upp örstuttan kafla úr ræðu sem ég flutti við eldhúsdagsumræðurnar í vor. Hann er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðbólgan mun að lokum leiða yfir þjóðina atvinnuleysi og upplausn í efnahagsmálum. Jákvæð þróun lífskjara er mjög háð því að það takist að beisla verðbólguna. Það verða settar fram aðallega tvær kenningar í þessu efni: Annars vegar er sú stefna Sjálfstfl. — leiftursókn gegn verðbólgu — að reyna að slá verðbólguna niður nánast í einu höggi ... Hins vegar er sú stefna Framsfl. að telja verðbólguna niður í áföngum, t.d. á tveggja ára tímabili. Niðurtalning verðbólgu var framkvæmd mestan hluta ársins 1981 með ágætum árangri og án þess að þá kæmi til skerðing á kaupmætti launa.

Síðan í janúar 1982 hefur glíman staðið um það í ríkisstj. og síðar á Alþingi að gera róttækar breytingar á vísitölukerfinu til þess að bremsa verðbólguna. Framsfl. telur það brýnasta verkefni næstu mánaða að bæta rekstrarstöðu atvinnuveganna, auka framleiðslu og reyna að draga úr hinum hættulega viðskiptahalla við útlönd. Flokkurinn leggur til að gerð verði tveggja ára efnahagsáætlun sem leiðir til hjöðnunar verðbólgu. Nýtt og breytt viðmiðunarkerfi ásamt hliðarráðstöfunum til þess að verja kaupmátt launa, svo og samræmdri stefnu í efnahagsmálum að öðru leyti, er að okkar mati forsenda þess að hægt sé að ná tökum á verðbólgunni.“ — Og síðan segir svohljóðandi: „Ef ekki næst samkomulag um slíka áætlun verður að lögfesta hana og halda lögin.“

Við töluðum því alveg tæpitungulaust um að grípa yrði inn í þessa þróun mála með lögum, ef ekki tækist samkomulag um það á breiðum grundvelli að gera það. Eins og ég sagði áðan: Við fengum ekki fylgi út á þessa stefnu, en við gerðum grein fyrir henni. Og ég tel nauðsynlegt að rifja þetta upp núna vegna þess að það er stundum verið að tala um að menn hafi ekki fyrir kosningar gert grein fyrir sínum skoðunum í þessum efnum.

Ég held að það sé illa komið fyrir einni lýðræðisþjóð þegar hún hefur misst vald á sínum efnahags- og atvinnumálum. Við skulum alveg sleppa því nú að deila um hverjum það er að kenna og hverju það er að kenna. Um það má lengi ræða, og að sjálfsögðu er ég reiðubúinn að taka þátt í slíkum umr. ef ástæða eða tilefni gefst, en við þurfum ekki að deila um að það verður að grípa inn í — og er þá nokkur annar aðili sem getur gripið inn í svona mál en ríkisvaldið?

Það hefur verið rætt um í þessu sambandi að menn hafi ekki farið að lýðræðisleiðum í þessu máli. Þetta hafi verið gert á einræðiskenndan hátt og ekki farið að lýðræðisleiðum. En hvað er lýðræði? Það vaknar sú spurning þegar menn nota hugtakið lýðræði. Er það lýðræði þegar 37 alþm. af 60 ákveða að gera ákveðnar ráðstafanir með lögum? Er það lýðræði eða er það einræði? Ég segi að það sé lýðræði vegna þess að það er meiri hl. sem þarna stendur að málum. Hann verður svo að standa ábyrgur fyrir því þegar hann gengur næst fram fyrir hv. kjósendur í landinu. Hann verður auðvitað að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Auðvitað er það fullkomið lýðræði þegar 37 þm. af 60 þm. gera ákveðnar ráðstafanir, eins og gerðar voru í sumar. Menn geta deilt um hvort kalla ætti þing saman o.s.frv. Það hefði ekki breytt neinu í þessu efni, nema það hefði orðið umr. hér í sumar í staðinn fyrir í haust. En meiri hl. var til staðar og um það þarf ekki að fletta neinum blöðum. Auðvitað er hér um að ræða lýðræðislegar ráðstafanir — ráðstafanir í samræmi við það sem meiri hl. ákvað. Það er engin spurning um það.

Ríkisstj. setti strax í vor nokkur brbl., sem við höfum verið að fjalla um hér í þinginu í haust. Það hefur í raun og veru verið meginverkefni þingsins að fjalla um ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum frá því í haust. Ekki þarf að rifja upp hvaða mál þetta voru. Þm. þekkja þau að sjálfsögðu.

En ástæða er til að velta aðeins fyrir sér hvers konar lausn það var sem menn gripu til í vor. Og það er ástæða til að velta því fyrir sér einnig hvaða aðrar lausnir sem hefðu leitt til árangurs voru vænlegar, ekki bara í almennum orðum heldur í klárum tillögum. Sú lausn, sem varð niðurstaðan var að frysta kaupgjaldið með vissum hætti. Menn segja að það sé einræði. Er þjóð eins og Norðmenn einræðisþjóð? Þeir hafa fryst kaupgjald. Meira að segja sósíaldemókratar í Noregi hafa fryst kaupgjald og það ekki aðeins í 8 mánuði, heldur í heitt ár. Hvað er að segja um Mitterand í Frakklandi? Hann frysti kaupgjald í 6 mánuði. Ég tala ekki um Dani og marga fleiri. Það hefur oft verið gripið til þessara aðgerða hjá þjóðum sem eru lýðræðisþjóðir. Þó var kaupgjald ekki alveg fryst hér því að það hækkaði um 8% og svo aftur um 4% eins og menn muna. En þetta er ekki aðgerð sem er einstæð og þetta er ekki aðgerð sem gefur tilefni til að staðhæfa að hér sé um einræðisaðgerðir að ræða, það er síður en svo, allra síst þegar ástatt er eins og var hjá okkur á s.l. vori.

Þá er ástæða til þess að huga að því, hvaða árangur hefur orðið af þessum aðgerðum. Það er geysilega þýðingarmikið. Það er í raun og veru það sem skiptir langmestu máli. Menn miða gjarnan árangurinn í þessum efnum við verðbólguna. Hvers vegna? Vegna þess að verðbólgan er hættuleg. Hún er hættulegt fyrirbrigði. Hún er óréttlátt fyrirbrigði. Hún flytur til verðmæti í þjóðfélaginu í stórum stíl á hverjum einasta klukkutíma, yfirleitt frá þeim sem minna eiga yfir til þeirra sem meira eiga. Þeir sem meira eiga og þeir sem hærri tekjur hafa geta siglt verðbólguna, þeir geta notað sér hana. Hinir, sem hafa lítinn afgang til ráðstöfunar, eiga miklu erfiðara um vik, enda held ég að það hafi verið mjög mikið til í því sem sá mæti maður Haraldur Guðmundsson sagði einu sinni, fyrrum ráðh., að verðbólgan gerði þá ríku ríkari og fátæku fátækari. Ég held að það sé mikið til í þeim ummælum.

Árangurinn af þessum aðgerðum hefur orðið sá, að nú er verðbólga komin niður í 25 til 30%. Sennilega er hún um 27% um þessar mundir. Framfærsluvísitalan hækkaði um 30% frá 1. ágúst til 1. nóvember, byggingarvísitala um 24% frá 1. ágúst til 1. nóv. og lánskjaravísitala, sem er sambland af þessum tveimur, um 28%. Því er sagt nú að ef spáð er til 1. des., bætt við einum mánuði, muni verðbólga vera áfram í kringum 25–30%. Ég tel að þetta sé geysilega mikill árangur. Þetta er meiri árangur en ég áleit að þessar aðgerðir myndu leiða til. En þetta er ekki nóg. Við þurfum að ná verðbólgunni niður í það sem hún er í löndunum í kringum okkur, vegna þess að það er mikil blekking og hættuleg blekking að menn geti haldið áfram að sigla verðbólguleiðina. Við höfum bjargað okkur, ég vil segja bjargað okkur, með því að okkur hefur tekist að láta hjól framleiðslunnar snúast allan tímann, með harmkvælum á seinni árum. Við höfum haft mikið lánstraust erlendis og við höfum tekið mikið af erlendum lánum. Það hefur hjálpað okkur í þessu öllu saman. Við höfum staðið í geysilega mikilli uppbyggingu. Það hefur hjálpað til. En það eru takmörk fyrir því hvað við getum lengi fleytt okkur á erlendum lánum. Þess vegna held ég að menn þurfi að gá betur að sér en áður. Ef það verður bakslag í þessum efnum og menn reyna að leysa efnahagsmálin á þeim grundvelli að leita verðbólgulausna óttast ég talsvert um okkar hag, þó ég viðurkenni það, eins og ég sagði áður, að deila má um hvernig að svona málum skuli staðið.

Það hefur ýmislegt fleira gerst jákvætt í sambandi við almenna þróun efnahagsmála. T.d. hafa vextir lækkað verulega í þremur áföngum og það hefur ennfremur verið boðuð vaxtalækkun í desembermánuði, þannig að algengustu vextir hafa lækkað um líklega 10–15%. Á almennum sparisjóðsbókum voru vextir 42% í sumar, en eru nú 27. (Gripið fram í: Hefur greiðslubyrðin lækkað?) Hún hefur náttúrlega lækkað þegar vextirnir lækka. Þegar verðbólgan lækkar lækkar greiðslubyrðin, það er alveg ljóst. (Gripið fram í: En kaupgjaldið?) Ja, kaupgjald hefur lækkað að því er talið er, þ.e. ráðstöfunartekjur manna. Kaupmáttur þeirra hefur minnkað um 13%, segir Þjóðhagsstofnun, það er rétt, en verðbólga hefur lækkað verulega, mjög mikið. Það hefur verið keypt með talsverðum fórnum, það er rétt, og erfiðleikum fyrir marga, en ég er ekki í nokkrum vafa um að það muni skila sér í jákvæðum árangri síðar meir. Að ég tali nú ekki um miðað við það sem orðið hefði ef menn hefðu legið í sama farinu.

Gjaldeyrisstaðan hefur batnað talsvert. Það er mjög þýðingarmikið. Það var 10% neikvæður viðskiptajöfnuður á síðasta ári og 5% neikvæður jöfnuður á árinu áður. Nú er talið að viðskiptajöfnuðurinn verði líklega neikvæður um 2–2.5%. Það er það sem Þjóðhagsstofnunin spáði í þjóðhagsáætlun og mér er sagt að ástæða sé til að ætla að þetta muni standast. Það er að vísu rétt að taka það fram, til þess að menn séu ekki of bjartsýnir í þessum efnum, að gengið hefur á birgðir. Þegar viðskiptajöfnuður var neikvæður um 10% í fyrra, var það m.a. vegna þess að það voru miklar birgðir í landinu, þær höfðu aukist frá því áður, en það hefur gengið á birgðirnar á þessu ári og það hefur hjálpað til. Munurinn er því ekki eins mikill og prósenturnar, 10% af þjóðarframleiðslu og 2–2.5% af þjóðarframleiðslu, gefa til kynna. En eigi að síður er þarna um að ræða verulegan árangur í þessum efnum, sem er ákaflega þýðingarmikið. Mér hefur skilist að gjaldeyrisstaða Seðlabankans væri þannig að hún entist fyrir því sem við þurfum til tveggja til þriggja mánaða. Þetta er alveg við lágmarkið sem talið er til þess að haldið verði upp frjálsri verslun og frjálsum viðskiptum. Gjaldeyrisstaða bankanna hefur batnað talsvert frá í fyrra, þó að hún gæti verið betri. Það er ástæða til að gefa því gaum að rýrnun kaupmáttar ráðstöfunartekna, sem er um 13%, er tiltölulega miklu meiri en sú minnkun sem hefur orðið á eftirspurn eftir t.d. innflutningi og bæði eftirspurn eftir innlendum og erlendum vörum. Þetta gefur til kynna að e.t.v. hafi kaupmáttur ráðstöfunarteknanna ekki minnkað svona mikið. Það gefur það til kynna, þó ég skuli ekkert um það fullyrða, en það er verið að rannsaka það. En gæti verið að raunverulega væri rýrnun kaupmáttar ráðstöfunartekna minni, menn hefðu meiri tekjur en gert hefur verið ráð fyrir þegar á allt er litið.

Inn í þessa þróun mála hafa náttúrlega komið síðan þættir sem menn gerðu ekki ráð fyrir. Þar á ég við aflann. Aflinn hefur verið talsvert minni en menn gerðu ráð fyrir. Það hefur auðvitað valdið verulegum viðbótarerfiðleikum. Ég skal ekkert fullyrða um hvort það er neinn mælikvarði á framtíðina með aflann. Það er ekki ýkjalangt síðan við færðum út landhelgi okkar og síðan erlendir skipaflotar hurfu af Íslandsmiðum og við tókum upp þær fiskveiðar sem við stundum í dag og höfum stundað um nokkur undanfarin ár. Ég skal ekkert um það fullyrða hvað mikið af þessari aflatregðu stafar af ofveiði eða af breyttum skilyrðum í hafinu. Mér finnst ekki vera liðinn nægilega langur tími til þess að menn geti endanlega dregið ályktanir af því sem hefur gerst. Og mér finnst engin ástæða til þess, þó afli sé nú tregur, að álíta að svo kunni að verða um alla framtíð. Ég veit að fiskifræðingarnir eru varkárir og það er eðlilegt, en inni í spám eru þó þættir sem ekki er tekin afstaða til hreinlega, eins og t.d. að ekki er gert ráð fyrir því í spám fiskifræðinga, ef ég man rétt, að það komi fiskur frá Grænlandi á Íslandsmið. Það er ekki gert ráð fyrir að fiskur gangi á Íslandsmið frá Grænlandi. Hvort hann gerir það veit auðvitað enginn, en við skulum vona að svo verði, og þá vænkast hagur okkar eitthvað í þessum efnum.

Það er alveg ljóst að það vildi enginn stjórnmálaflokkur í landinu eftir kosningarnar í vor bera ábyrgð á ástandinu. (Gripið fram í: Allra síst þeir sem áður báru ábyrgð á því.) Þeir öxluðu ábyrgðina, a.m.k. sumir, þegar þeir loksins gátu fengið meirihluta fyrir ákvörðunum, þeir gerðu það, það ætla ég að hv. þm. sé fyllilega ljóst, og bera ábyrgð á því. — Það var enginn flokkur sem vildi bera ábyrgð á, svo ég megi nú klára setninguna fyrir hv. þm., að kerfið héldi áfram að rúlla með þeim hætti sem var á s.l. vori. Ég held að öllum stjórnmálaflokkum hafi verið ljóst að það varð að grípa inn í þessa atburðarás með róttækum aðgerðum í efnahagsmálum. Ég hef ekki orðið var við að það væri yfir höfuð deilt um það efni. Ég man ekki betur en Alþb. segði t.d. fyrir kosningar að það þyrfti að setja á neyðaráætlun í efnahagsmálum.

Menn hafa deilt um hvort hér hafi verið um leiftursókn að ræða eða niðurtalningu. Ég tel að þarna hafi verið um að ræða málamiðlun milli leiftursóknar og niðurtalningar, ég álít það, menn hafi farið þetta í þrepum að hluta til. Við vildum gera þetta á lengri tíma í Framsfl., það er ekkert launungarmál, en Sjálfstfl. vildi fara öðruvísi að, eins og kunnugt er. Ég tel að það hafi verið farin þarna millileið. (Gripið fram í: Niðurtalning í einu stökki.) Já, niðurtalning í einu stökki, það má kannske segja það. Hún var ekki framkvæmd eins og við gerðum grein fyrir í okkar stefnu, þar sem við vildum gera þetta á lengri tíma og kannske með mildari hætti. En við gerðum þá ráð fyrir að það yrði um þetta samkomulag. Slíkt samkomulag hefur ekki fengist um raunhæfar aðgerðir og þess vegna varð sú niðurstaða að lögfesta áætlun í þessum efnum. Sú breyting hefur orðið á henni að menn samþykktu í Nd. að fella niður bann við samningum um kaup og kjör við gildistöku þessara laga í staðinn fyrir að það var bundið við 1. febr. n.k. Ástæðan fyrir því að menn gerðu það var ekki sú ástæða, og það er ástæða til að undirstrika það, að það væri neitt undanhald í mönnum varðandi aðgerðir í efnahagsmálum. Ástæðan var sú, að árangurinn af brbl. kom fljótar fram en menn áttu von á. Menn höfðu stefnt að um 30% verðbólgu við áramótin, en niðurstaðan verður sú, að verðbólgan verður um áramót talsvert lægri, ég skal ekki segja hvað miklu lægri, en hún verður talsvert lægri, gæti farið niður fyrir 25% eftir því sem mér sýnist, ef ekkert sérstakt gerist, sem varla verður úr þessu fyrir áramót.

Tilgangurinn með þessum ráðstöfunum öllum er náttúrlega fyrst og fremst að skapa forsendur fyrir skynsamlegum tekjuákvörðunum og skapa ástand í efnahagsmálum sem er og verður þannig að framvindan verði jákvæð, menn fari að beina fjármagni meira inn í: arðbæran rekstur en áður. Þegar mjög mikil verðbólga er vilja menn frekar beina fjármagni inn í fjárfestingu og hugsa minna um arðbæran rekstur, af ástæðum sem eru eðlilegar, vegna þess að fjárfesting gefur yfirleitt tekjur í verðbólguástandi. Ég held að það væri mjög háskalegt fyrir framtíðina og fyrir Íslendinga ef þessar ákvarðanir og þessar ráðstafanir, sem þegar hafa borið verulega mikinn árangur, rynnu út í sandinn vegna þess að menn vildu ráðast í framhaldið með aðgerðum sem ekki eru raunhæfar og þar sem ekki er tekið tillit til staðreynda efnahagslífsins.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari 2. umr.